miðvikudagur, desember 20, 2006

Galli á hönnun mannslíkamans

Mér finnst það stór galli á hönnun mannslíkamans að við fáum ekki feld utan á okkur á veturna! Ég hef nú tekið fram pelsinn minn og allt í einu þarf ég ekki að vera í hudrað peysum innan undir jakkanum eða þegar ég er inni því að pelsinn minn gerir það að verkum að mér er alltaf hlýtt! Hvers vegna eru þá önnur spendýr en við með þykkan og góðan feld yfir veturinn en við ekki? Mér þykir þetta afar ósanngjarnt. Hugsið ykkur líka sparnaðinn sem myndi fylgja þessu. Engin föt engin tíska, engin að hugsa ,,oj hvað þessi er feitur/mjór" allir bara í gúdí fílíng með sinn feld að éta nautasteik með bernaise. Væri til betra líf?

Annað hvort er Guð minn kæri að gefa mér hina bestu brúðargjöf eða gera mér hinn mesta grikk. Það kemur allt í ljós eftir ca. viku. Málið er að ég átti samkvæmt öllu að vera á blæðingum á brúðkaupnóttina, sem hefði að sjálfsögðu ekki verið mjög skemmtilegt, fyrir mig(Sverrir kemur ekki málinu við). Nema hvað að ég byrja á túr fyrir 3 dögum! Þetta þykir mér afar einkennilegt nema að ég sleppi þá við túrinn á brúðkaupsnóttina þá væri þetta gríðarlegt gleðiefni. Við skulum sjá hvernig fer og ég lofa að halda ykkur vel upplýstum í þessum málum.

SHITSHITSHITSHIT erum að fara heim í nótt. Segi shit því að það er ekki alveg nógu mikið að gera í dag! Er komin með lista uppá 10 löng atriði, hann liggur hér við hliðiná mér og ég horfi á hann með trega....shitshitshitshit. Best að hætta þessu bulli þá og koma sér að verki.
Hlakka til að sjá ykkur öll á morgun!

þriðjudagur, desember 19, 2006

Undirbúningur á háu stigi

Já stressið læðist inn núna og maginn aðeins farinn að láta vita af sér. Ég ætla samt sem áður að halda ró minni og vinna þetta allt saman hægt og rólega vel afslöppuð! Hehe gangi mér vel. Simona vinkona mín frá Joia hringdi í mig í gær og vildi endilega hitta mig þannig að við eyddum hléinu hennar saman í dag í garðinum niðrí bæ. Það var nú helvíti skemmtilegt að hitta hana aftur. Hún er enn að íhuga hvort hún geti komið í brúðkaupið mitt, við skulum bara vona það besta því ég vil endilega fá hana. Ég vil bara endilega fá alla!
Ég fór í gær og keypti mér brúðarnærfötin í HogM og náði að kaupa mér 2 brjóstahaldara,4 nærbuxur og 2 boli, allt saman kostaði þetta heilar 56 evrur(5000 kall), ohhh hvað ég elska HogM!
Það var heldur ekki hjá því komist eftir daginn í dag að fara þangað og kaupa vettlinga og húfu(5 evrur hvort).
Bíllinn er enn í læstu ástandi! Ég er búin að vera að hringja í tryggingafélagið í dag og reyna að láta þær vorkenna mér nægilega mikið til að redda þessu fyrir okkur áður en við förum. það gengur heldur brösulega en vonandi gengur þetta betur á morgun. Annars veerðum við bara að borga þetta sjálf því að ég skil ekki bílinn eftir hér svona útleikinn það er á hreinu.
Hekla er svo yndisleg og skemmtileg. Það er svo auðvelt að fara með hana á kaffihús og veitingahús og fara með hana með sér hingað og þangað, í lestina og út um allt. Ég er mjög heppin. Hún meira að segja segir stundum við mig þegar við erum bara tvær ,, mamma, eigum við að fara á veitingahús, bara við tvær?" svo horfir hún á mig með sínum undurfögru,stóru, bláu augum og maður bara getur ekki neitað. Hennig finnst svo gaman að sitja með mér einni á veitingahúsi og borða saman eða drekka heitt kakó.

mánudagur, desember 18, 2006

Barnaland, þvílík síða!

Já ég vona að ég álpist ekki inn á umræðurnar þar aftur. Ég gerði þau reginmistök að spyrja hvort einhver hefði verið giftur AF Erni Bárði(skrifaði óvart Erni Bárðar)og viti menn það gat engin af þessum óléttu eða ,,nýbúnar að eiga" týpum sem hanga þarna greinilega daginn út og inn og gera ekkert annað, svarað mér, fyrir utan 3 góðhjartaðar týpur. Hins vegar fannst þeim alveg hreint nauðsynlegt að gefa mér greinargóða lýsingu á vankunnáttu sinni á sínu eigin móðurmáli og segja ,, hahaha nei ég hef aldrei verið gift honum,hahaha" voða fyndið. Þær sögðu líka ansi margar ,, jii ég las þetta hvort eihv. hafi verið giftur honum og bara jii hva nú maar"
Vel skrifað stúlkur þið eruð stolt okkar Íslendinga!

sunnudagur, desember 17, 2006

LEYFUM PRUMP Á AÐFANGADAG!

Breska matarboðið var í gærkveldi það gekk svona upp og ofan og fór eins og ég spáði,þ.e. á síðustu mínútu var kallað á mig og ég þurfti að redda nokkrum hlutum. Ég sá alfarið um kalkúninn enda var hann það eina sem var ætt á svæðinu. Ég ætla að segja þetta enn og aftur og mér er nákvæmlega sama hvort ég móðgi einhvern : PAKKA- OG KRUKKUMATUR ER VIÐBJÓÐUR!
Fyllingin lyktaði eins og lauk og salvíufyllingin hennar mömmu en gvuð minn góður hvað hún smakkaðist EKKI þannig. Brúna sósan lyktaði eins og brún sósa en, já það er rétt hjá þér hún smakkaðist ekki eins og brún sósa(eða allavegana ekki fyrr en ég var búin að bragðbæta hana, allmikið, tja næstum búin að búa til aðra sósu). Hinn svokallaði Christmas Pudding er hinn mesti viðbjóður, allavegana pakkadæmið sem þær voru með. Ég er ekki að ljúga eða ýkja þetta var allt úr pakka og krukkum nema kalkúnninn og grænmetið sem var gjörsamlega bragðlaust þó að ég hafi sagt þeim að salta vatnið sem þær suðu það í, þær gleymdu því eins og ansi m0rgu öðru, greyin þetta var samt vel af sér vikið miðað við að þær eru jú breskar og aðeins um tvítugt. Þær gleymdu kartöflunum inni í ofni og blönduðu saman vitlausum pakkamat og gleymdu pakkachristmas puddingnum á hellunnni þannig að plastið bráðnaði í pottinn og svona mætti lengi telja. En við gátum öll huggað okkur við það að kalkúnninn var algjört sælgæti! það var líka keypt risastór Panettone frá Peck borin fram með nýhrærðum mascarpone bættum með brandý mmmmm.... þvílíkt sælgæti. Með því var að sjálfsögðu drukkið kampavín!
En eins og venjulega strax eftir að ég var búin að melta fyrsta bitann af kalkúninum byrjaði maginn að kvarta og blása út eins og hann ætti lífið að leysa og prumpið bara vildi ekki vera heima hjá sér! Ég og Sverrir höfum ekki hætt síðan! Ég spyr því núna hvort ekki megi bara leyfa prump á aðfangadag? Ég tel að partýin muni standa lengur og fólk verði afslappaðra fyrir vikið. Það er ekki þægilegt að halda þessu inni. Það gæti reyndar verið að fólk fari eitthvað að kvarta yfir fýlu en þá er bara ð opna gluggann! Hvað segiði, frænkur og frændur,systur og mömmur og pabbar, eigum við ekki bara að sleppa öllum formlegheitum á mánudaginn eftir viu og LEYFA PRUMP??

Að öðrum jafnmikilvægum málum.
Það var reynt að brjótast inn í bílinn okkar enn og aftur aðfararnótt laugardagsins, mjög óskemmtileg reynsla því að lásinn var eyðilagður og við komumst ekki inn í bílinn. Við ákváðum að láta þetta ekki yfir okkur ganga í þetta skiptið og fórum til lögreglunnar og gerðum skýrslu. því næst vorum við mestallan laugardagseftirmiðdaginn að reyna að fá einhvern til að koma og opna blessaðann bílinn. Ekki gekk það og nú held ég að guð hafi eitthvað fengið að spila með því að þegar ég hringi í tryggingafélagið í morgun þá segir hún að ég ætti að vera tryggð fyrir þessu og að matsmaður frá þeim þurfi að koma og meta tjónið! Já sem betur fer vorum við ekki búin að láta gera við þetta maður! En við sjáum hvernig þetta fer allt saman.

Fólk hefur verið soldið forvitið um prestamál og vil ég því að það komi fram að við erum búin að tala aftur við manninn og þetta er hinn vænsti drengur og það getur verið að mín hafi eitthvað verið að fara á líníngum þarna og aðeins misskilið eitthvað og lesið eitthvað aðeins of mikið í línurnar, bara aðeins! Þetta verður allt saman gott og blessað.

föstudagur, desember 15, 2006

Gjafalisti

Vegna mikillar eftirspurnar mun ég hér með setja inn gjafalista fyrir brúðkaupið sem er í vændum.
Þar sem aðstaða okkar er þannig að við búum ekki á Íslandi og Ryanair segir að við megum bara hafa 15 kíló á mann þá væri hentugt fyrir okkur að fá pening til að kaupa gjafirnar hér úti. Þannig að hægt væri að hafa peningagjöfina með vísun í hvað viðkomandi vill að við kaupum fyrir peninginn.
en hins vegar fyrir þá sem vilja gefa okkur eða vísa í eitthvað þá er þetta nokkuð af því sem er á óskalistanum:

Kitchen aid(+ísgerðarskálin, sem ég sá augýsta í blaðinu í dag,jiiii geðveikt girnó)
Gjafabréf í Epal
Gjafabréf í Gallerí Fold
Fín sængurföt(IKEA sængurfötin ekki alveg að gera sig)
Hvítt plain diskasett frá Rekstrarvörum
Gjafabréf frá Búsáhöldum og Gjafavörum í Kringlunni(þar er hægt að fá draumasettið mitt,Le Cruiset)
Okkur vantar föt, þá er ég að tala um til að bera fram mat á :)
Við erum að safna hnífaparasetti frá Georg Jensen og heitir Jeunne Neauvelle og vantar 3 sett til að ná 12 og svo vantar aukahluti(reyndar þá er lítið búið að framleiða af aukahlutum í þeirri línu en það er hægt að finna eitthvað sem passar við)
Við erum líka mjög hrifin af Rosenthal glasalínunni og eigum vatnsglös og karöflur úr þeirri línu.
Ef mér dettur eitthvað fleira í hug set ég það hér inn á næstu dögum, annars erum við búin að liggja yfir þessu og dettur ekkert fleira í hug sem okkur vantar.
Kveðja
Nægjusama parið á Ítalíu.

The Italian Bo Fan Club!

Eins og flestir vita þá er Sverrir Bo fan nr.1 og á líklegast flestar plötur með honum og hlustar á þetta lon og don. En nú hefur bæst í hópinn sjáiði til! Tengdaforeldrar mínir komu um helgina eins og áður hefur komið fram og höfðu þau með í farteskinu tónleikadisk með Björgvini Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands, þessi diskur hefur ekki séð heimili sitt síðan(þ.e. hulstrið) og situr Hekla stjörf við skjáinn og syngur með hástöfum ,,Þó líði ár og öld........ÉG ELSKA ÞIG..." þetta heitir víst pabbahlust og svo þegar lagið með Svölu kemur(We're all grown up now)þá verður hún mjög æst og segist ekki heyra neitt í ..stelpulaginu ", ,,HÆKKA, HÆKKA!"
Já hér hefur sem sagt myndast hinn myndarlegasti aðdáendaklúbbur.
Áðan ákvað ég að fara í ljós! Ég er svooo hrikalega morkin eitthvað að ég ákvað að nú væri komið nóg ég bara yrði að reyna að koma þessum útbrotum í lag fyrir brúðkaup! Ég vissi af sólbaðsstofu hér í nágreninu og ákvað að skella mér þangað og mun ég svo sannarlega ALDREI gera það aftur! Þetta var eitthvað það skítugasta greni sem ég hef séð og þar að auki þurfti ég að borga 10 evrur fyrir þennan viðbjóð. Ég ákvað að fara í ódýrari tímann sem var svokölluð sturta, standljós með rykugustu viftu sem fyrirfinnst og ég er ekki frá því að ég hafi fundið pissufýlu inni á staðnum! Þegar ég setti viftuna í gang þyrlaðist allt rykið beint upp í nefið á mér og ég hnerraði og hnerraði. Þannig að ég ákvað að hafa slökkt á henni, ég átti að vera þarna inni í 15 mínútur og entist í 8. Þetta geri ég sko aldrei aftur. Maður bara gerir sér ekki grein fyrir því hvað maður er góðu vanur. Almennt hreinlæti til dæmis er bara alls ekki sjálfgefið í þessu landi, hins vegar á Íslandi ef það er ekki til staðar er staðnum lokað!
Æ hvað ég var að vonast til að geta farið í ljós hér.
Hekla er búin að vera heima í gær og í dag vegna mikils hósta, greyið litla, geltir alla nóttina.
Ég gerði alveg hreint geggjað grænmetislasagna í gær, enda er það næstum búið(sem hefur aldrei gerst áður á aðeins 2 dögum) reyndar fengum við hjálp í gær, við vorum að passa hjá Gunna og Höllu Báru þannig að krakkarnir fengu sér líka. Ég ákvað að hafa bara einfaldatómatsósu útá grænmetið, þá er ég að meina að sleppa engiferi og chilli og aukakryddi og svona, ég hafði... æ á ég ekki bara að setja inn uppskriftina??

Grænmetislasagna:
4 litlar gulrætur, skornar mjög þunnt
1/4 fennelhaus, skorinn í mjög litla bita
1/6 grasker, skorinn í mjög litla bita
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
1 zuccini, skorinn í þunnar sneiðar
1 eggaldin, skorið í 1 cm bita
2 hvítlauksrif
fersk basilika
hálfur kjúklingakraftur
hálf dós tomatosause
1 dós niðursoðnir plómutómatar

Fyrst er harða grænmetið steikt við meðalháan hita í ca.10 mín. þá er hinu grænmetinu bætt útí og steikt áfram í ca.10 mínútur eða þar til zucchini og eggaldin hafa mýkst og minnkað. Þá er tómatsósunni og tómötunum bætt saman við, ásamt að lokum hvítlauk og kjúklingakraftinum. Bætið um hálfri dós af vatni og látið malla við lágan hita í ca. 15 mínútur. Rétt áður en lasagnainu er blandað saman er basilikan rifin gróft útí. Á meðan þetta mallar er búin til Bechamelsósa(hvíta sósan, krakkar, hvíta sósan ;))
Bechamel:
125 gr smjör
250 gr hveiti
1 ltr mjólk
50 gr skallottlaukur
100 gr parmesanostur
salt og pipar
bræðið smjörið í djúpum potti þegar það er bráðið er hveitinu bætt útí lítið í einu og pískað þegar allt er komið útí, skipti ég venjulega yfir í sleifina til að koma smjörbollunni saman. Þegar hún er komin saman í eina bollu er mjólinni bætt útí smátt og smátt, ca. 250 ml í einu og pískað saman við smjörbolluna. þar til öll mjólkin er hrærð útí og þetta er mátulega þykkt, þá er þetta saltað og piprað eftir smekk. Mér þykir betra að nota bara venjulegt salt hér, frekar en maldon saltið.
Þá er þetta allt sett í lögin eins og venjulega. Nema hvað í gær breytti ég aðeins útaf vananum og sauð 1 ltr af vatni og setti 2 kjúklingakraftsteninga útí og setti hverja plötu útí í 1 mínútu(ég setti nokkrar í einu, bara í flatt fat), þetta gerði, finnst mér, gæfumuninn.
Á efsta lagið setti ég svo ostsneiðar eins og vanalega og svo alveg fullt af rifnum parmesanosti.
Ég lofa ykkur þetta var algjört sælgæti!

miðvikudagur, desember 13, 2006

Mjög reið!

Ég var að tala við prestinn sem mun gifta okkur og er gífurlega reið,sár og með gríðarlegan kvíðahnút í maganum eftir þetta samtal. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á af mér að gera. Ég ætla ekki að fara nánar útí hvað fór okkur á milli en ég er í miklu uppnámi! Að sjálfsögðu fékk ég þá strax mígreniskast!
Ég er líka brjáluð útí þennan bloggvin minn nýja, GET OFF MY BLOGG JOYN BIACH!!!!
Hvernig losnar maður við svona helvíti????

þriðjudagur, desember 12, 2006

Prúttsmútt

Já ég gleymdi að lýsa færni minni í prútti sem kom vel fram um helgina! Ég nefnilega sá mjööög svo fallega tösku hjá götusala á laugardaginn og spurði hann hvað hún kostaði og hann sagði 60 evrur(p.s. þetta er kooolólöglegt hér, bæði að selja og að kaupa) og ég sagði nei því miður ég á bara 20 evrur og get því bara borgað það, hann fer að malda í móinn og ég malda á móti og svo endar á því að hann hvíslar að mér ,,ok 30 evrur" nema hvað að mér heyrist hann segja ,,ok 20 evrur" þannig að ég læt hann hafa 20 evrur mjög felulega og labba í burtu glöð með töskuna mína og mitt gríðarlega flotta prútt, nema hvað þá gengur gaurinn á eftir mér og segir ,, hey ég sagði 30 evrur ekki 20!" mín fór í nett kerfi og afsakaði sig í bak og fyrir og bað ferðafélaga mína um litlar 10 evrur en vildi svo til að enginn átti aur í veskjum sínum! Heppin ég ha! Nema hvað að hann sér að þetta er ekkert að koma hjá okkur og við finnum loks 2 evrur og ég læt hann hafa það og segi því miður ég á ekki meira! Hann brosir í kampinn og samþykkir og gengur í burtu. Ég sem sagt fékk glæsilega tösku feik Fendi á heilar 20 evrur, ég reyndar veit að hún er seld í Skarthúsinu(held ég) á 3500 kr eða eitthvað svoleiðis. Sorry Bára mér fannst hún bara svo flott, ég varð að kaupa hana eftir allt þetta þref við gaurinn!
Ég gleymdi líka að segja frá því að ég fann mér brúðarskó í sömu búð og ég keypti rauðu ballerínuskóna mína fallegu í sumar, þeir eru silfurlitaðir og mjög glæsilegir, þægilegir og flottir. Þá eru bara nærfötin eftir og ég er búin að finna nokkur í HogM á mjög góðu verði og ætla bara ð skella mér á þau.
Ég náði styrk, þreki og þor til að gera jóga í morgun og er mjög stolt af mér. Ég hafði líka fisk í gær, það var ofnbakaður silungur með fullt af sítrónu og ferskum kryddjurtum(timian,rósmarín,dill og lárviðarlauf),pipar og salt og hafði svo linsubaunirnar með sem ég var með laxinum síðast(mjög góðar) svo bjó ég til fitulausa jógúrtsósu með basiliku og chilli og svona skemmtilegu, ég bjó reyndar til tartarsósu handa drengnum og stúlkunni sem eru að drepast úr hor!
Hekla ætlaði ekki að geta sofnað í nótt því að hún vissi að jólasveinninn væri að koma og hún vildi ólm knúsa hann. Orðrétt sagði hún þetta svona ,, Sko, þegar jólasveinninn kemur þá ætla ég að knúúúsa hann, af því að ég er svo mikið kelidýr" Litla rassgat!
Jæja best að koma sér að vinna, það þarf að gera áætlun fyrir matarinnkaup(brúðkaups-) og svo finna og gera 2 greinar fyrir Nýtt Líf. Er áramótablaðið nokkuð komið???

mánudagur, desember 11, 2006

Nýjar myndir!

Nýjar myndir á síðunni okkar.... Frá helginni

Merkilegur andskoti

já það er alveg hreint merkilegt hvað er lítið gert úr brúðarskóm! Eins miklir skófíklar og konur eru yfirleitt finnst mér þetta mjög skrítið. Ég hef núna verið mikið inni á þessum brúðarsíðum og leitað að brúðarskóm á netinu og svona og það er bara ekkert í gangi í fjölbreytileika, þetta er allt saman sami helvítis skórinn! Hvað er málið eiginlega???
Ég hef líka tékkað soldið á blómum síðustu daga og það virðast allir vita allt um nöfn á öllum blómum en eru myndir af þeim??? O nei,..... ég á sem sagt að vita upp á hár útlit hunduða blómategunda eftir nafni! Mér finnst mjög ASNALEGT að geta ekki farið á netið hjá blómabúðum á Íslandi og séð hvernig blómin líta út sem þau eru með á sölu. Eruð þið ekki sammála mér???
Eitt enn sem pirrar mig í dag..... Þegar það er kalt þá nennir maður ekki að gera jóga eða aðra líkamsrækt! ANDSK......#%&"#!%&###
Þá langar mann bara að kúra sig með kaffi við kertaljós og jafnvel eins og eina kexköku eða smáköku. ANDSK..........#$"%&#=#%&#
Nú er ég að setja saman gjafalista og að sjáfsögðu pirrar það mig ekki neitt, þið getið ímyndað ykkur! Ég mun setja hann fullgerðan inn á morgun. Það er gaman í dag!

Líst ekki á blikuna

Ég tók fram ullarsokkana áðan! Gólfkuldinn hér er magnaður enda er marmari á öllujm gólfum og hér fyrir neðan okkur er ekki íbúð heldur köld geymsla. Ullin stendur þó fyrir sínu.
Við mætum á klakann eftir 11 daga og ég fæ í magan í hvert einasta skipti sem ég segi þetta og hugsa! Spurningin er: á ég ekki að vera stressaðari yfir brúðkaupinu sem ég er að skipuleggja?
Þegar ég hugsa um excel skjalið sem Kristín vinkona var með við skipulagningu síns brúðkaups og öll excel skjölin sem hægt er að ná í á netinu(ef maður googlar wedding planner eða eitthvað í þá áttina) þá fær maður nett stresssjokk og spyr sig í sífellu hvort maður sé að gleyma einhverju!
Ég held að ég sé búin að finna brúðarvöndinn(eða blómin) ég þarf bara að athuga hvort það sé til á Íslandi. Það er soldið strembið að vera að skipuleggja þetta héðan frá Ítalíu og þökkum guði og Bill fyrir internetið! og ég vil líka þakka Skype gaurunum fyrir Skype! Helst vil ég fara í fermingarsleik við þá en það er víst ekki hægt! Maður gerir víst nóg af því heima hjá sér!
Matseðillinn er loksins farinn að taka á sig mynd, mun panta vínið í dag. Þarf eitthvað meira???

Tengdaforeldrar mínir voru hjá okkur frá miðvikudagskvöldi og fóru heim í nótt. Þetta var alveg hreint frábær tími með þeim og Hekla litla blómstraði að hafa þau hjá sér. Hún var alveg í skýjunum alla helgina.
Við erum búin að kaupa næstum allar jólagjafir og afmælisgjafir og náðum að senda allmikið heim með þeim, þau voru svo almennileg að taka fyrir okkur. Okkur grunar að við verðum með yfirvigt. Nú er nefnilega búið að herða allar reglur til muna og það má bara hafa 2 töskur á mann, ekki einu sinni veski má vera aukalega( sem ég skil ekki hvernig á að vera hægt) og handtaskan er vigtuð og má ekki vera yfir 10 kíló og ferðataskan má ekki vera meira en 15 kíló! Ég meina leðurjakkinn hans Sverris er 2 kíló! Þetta fyllir ekki einu sinni töskurnar! Tengdó keyptu vigt sem betur fer og það fór örugglega 30 mínútur í forfæringar úr töskum í gærkvöldi. Það er sko alveg bráðnauðsynlegt að hafa svona vigt og voru þau svo almennileg að skilja hana eftir handa okkur.
Við þræddum búðir og markaði alla helgina og borðuðum góðan mat. Við fórum í Peck á laugardaginn og keyptum nautalund sem var alveg geggjuð, ég eldaði svo dýrindis kvöldverð á laugadeginum. steikt nautalund með bernaise(ekta að sjálfsögðu)strengjabaunum, ofnsteiktum kartöflum og graskeri og salati með mangó og karamelliseruðum pecanhnetum. Þetta var allt saman á óskalista tengdamóður minnar sem hélt þetta kvöld uppá 50 ára afmæli sitt. Þau keyptu líka dýrindis rauðvín sem smellpassaði við matinn. Þetta var geggjað! Í forrétt var ég með soldið sem ég á enn eftir að ákveða hvort ég verði með í brúðkaupinu eða ekki. Þannig að það kemur ekki hér inn fyrr en eftir brúðkaupið!
Nú þarf Sverrir víst að komast í tölvuna að læra.

mánudagur, desember 04, 2006

klikkaður draumur!

já það var alveg magnað í nótt get ég sagt ykkur. mig dreymdi að ég fór í GLERlyftu og spurði manneskjuna sem ég var með hvaða hæð við áttum að fara á og hún sagði 43. hæð. Ég ýtti á takkann og allt í einu þeyttumst við af stað og lyftan breyttist í rússíbana! Þetta var alveg magnað! Allavegana besti rússíbani sem ég hef farið í á ævinni! Sérstaklega þar sem ég var algerlega óbúndin og þurfti að halda mér helvíti fast í stöngina.
Fyrir utan þennan magnaða draum var nóttin ekkert gífurlega skemmtileg, Hekla ældi í alla nótt og vældi af sársauka í maganum. Þannig að hún fór ekki í leikskólann og ég gerði ekki jóga né fór út að skokka. Hekla er hins vegar hin hressasta í dag og ekki er vottur af veikindum í hennar litla sæta líkama.
Er ekki eðlilegt að hafa stúlkuna heima í dag eða hefði ég átt að fara með hana í leikskólann????
Æ með svona er aldrei að vita, ég er fegin að ég fór ekki með hana í leikskólann.
Ég er núna á fullu að finna uppskriftir af brúðartertum sem ég(eða mamma) getur gert. Er búin að finna eina sem er mjög girnó. Ég hringdi í gær í nokkur bakarí til að athuga með verð á tilbúinni brúðartertu og komst að því að ég fór í rangan bisness ég hefði átt að læra bakarann, þvílíkt okur og vitleysa! hátt í 60.000 kall fyrir nokkrar kökur ég meina er ekki í lag!!! Geri þetta bara sjálf! Reyndar var mamma svo almennileg að bjóðast til að gera hana, frábært þá get ég einbeitt mér að matnum.
Fundurinn í gær með konunum sem eru að fara að sjá um þennan mat var heldur betur undarlegur, VIð vorum þarna komnar saman breskar stúlkur,ítalskar og svo litla ég til að ákveða hver átti að gera hvað og hvað átti að gera. Fyrst borðuðum við dýrindis ítalskan mat og svo réðumst við í þetta. Ég bjóst við að vera að skiptast á uppskriftum og svoleiðis en neeeei bresku stúlkurnar drógu þá upp pakkasósur og pakkafyllingu(sem ég skil ekki alveg hvernig virkar) og sögðu sigri hrósandi ,,isn't it fabulaous? We found it in a shop here in Milan and my mom sent me this" sem var þá custard sósa í dós! þetta verður vægast sagt skrautlegur dinner. Ég bauðst til að vera með á sunnudeginum í eldamennskunni þar sem ég komst einnig að því að enginn hafði eldað kalkún áður! Ég hlakka mikið til að smakka á pakkamatnum!
Þetta reyndar kynnti nett í jólabarninu í mér og langaði mig alveg óheyrilega mikið í mömmukalkún sem er bestur í heimi!
Já ég viðurkenni það, ég er farin að hlakka til jólanna!

jóga,skokk, skokk, jóga = HARÐSPERRUR!!!!

ÁIÁIÁIÁIÁI svona heyrist í mér þegar ég anda eða hreyfi mig, gerði klukkutíma jóga í dag og skokkaði í 25 mínútur, enda er ég dauð! Get ekki hreyft mig og er ógeðslega svöng! grrrrrr....... Þetta fer ekki vel með skapið það er á hreinu.
Ég á að þvo þvottinn fyrir leikskólann í þetta skiptið og ég hélt að þetta væri bara eitthvað smotterí, neinei þá fæ ég bara í hendurnar fullann risastóran poka með öllum dúkunum og handklæðunum! Það verður fjör hjá mér næstu daga í þvotti og þrifum. Ég hef nefnilega ákveðið að í staðinn fyrir að eyða helginni í að þrífa þá geri ég það á mánudegi eða þriðjudegi, þá getum við notið helgarinnar skötuhjúin.

Hvernig þrífur maður undir lyklaborði?

Ég er að fara að hjálpa vinkonu Jole með jólaboð sem verður haldið þ.17.12. það verða eitthvað um 20 manns og það er fundur í kvöld þar sem ákveðið verður hver gerir kalkúninn og hver gerir salatið. Það er spurning hvað maður verður settur í...hmmmm? Spennandi.
Jole fann líka konu sem getur lagað kjólinn minn almennilega og ég er búin að redda hreinsun á honum heima þegar ég kem heim.
Vann líka aðeins í að redda hlutum fyrir brúðkaupið í dag, gekk mjög vel. Á morgun er svo undibúningur fyrir komu tengdó. Þau verða hér frá miðvikdagskvöldi og fram á mánudagsmorgun. Það verður sko fjör.
Það er farið að kólna ansi mikið í Mílanó, þannig að ég get hætt að monta mig, en ég fer þá bara að monta mig á því að það eru þá aðeins 5 mánuðir í vorið, jeijjj!
ég er svo svöng!!!:(

sunnudagur, desember 03, 2006

þá er helgin liðin

Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar, mér fannst bara soldið asnalegt að ég skuli ekki hafa fengið eina gjöf, þetta var jú ansi stór dagur fyrir mig líka! En það er víst ekki hefð fyrir því, asnalegt.
Við fórum í appiritivo á fimmtudaginn, það varð nú ekki eins blautt eins og þar áður heldur aðeins 2 1/2 glas, ágætt. Þannig að það var bara farið snemma heim. Ég hef verið ansi dugleg í skokkinu og jóga síðustu daga og ætla að reyna að halda því áfram. Ég er hins vegar með svo hrikalegar harðsperrur núna að ég get ekki hreyft mig án þess að finna fyrir því, verulega, svaf t.d. ekkert í nótt!
Við fórum í gær í mall hér í borg og er það í síðasta skipti sem ég geri það, því að mallin hér eru mest glataðar og hef ég nú gefist upp á þeim! Við sem sagt enduðum samt í bænum og kláruðum dæmið þar. Það þurfti að kaupa brúðarföt, eða klára öllu heldur. Þannig að dagurinn fór í það! En þá erum við úin með mesta og eru aðeins nærfötin eftir og skór. Er reyndar í geðveikum vandræðum með skó, en það reddast(vonandi).
Heklu tekst um hverja einustu helgi að vakna klukkan 8.00 og á virkum dögum þarf ég að eyða meiri hluta morgunsins í að vekja hana og þá er klukkan 8.30-9.00. Merkilegt!
Hún meira að segja sofnaði klukkan 23.30 í gær og vaknaði klukkan 8.00 í morgun.
Við áttum alveg frábæran dag í dag, við drifum okkur í garðinn niðri í bæ og drógum Gunna og krakkana með. Krakkarnir voru að leika sér í allan dag og svo enduðum við ferðina á kaffihúsinu á efstu hæð safnsins sem garðurinn er við og drukkum heitt súkkulaði og spjölluðum. Fyrir alla þá sem koma til Mílanó að hausti eða vetri til er vert að vita að hér er selt besta heita súkkulaði í heimi! Það er hnausþykkt og dökkt, alveg eins og ég vil hafa það.
Þannig að nú erum við komin heim vel þreytt og köld og þá er það besta sem til er að fara undir teppi og kúra sig.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

afmælisbarn

Sverrir að taka mynd af afmælisbarninu með afmæliskökunni, mjög góður ljósmyndari!

Eitt stykki afmæli að baki

Já við héldum upp á afmæli stúlkunnar í gær, í annað skiptið! Það var svaka fjör. Þröngt máttu sáttir sitja og allt það.
Ég ákvað að láta gesti veislunnar vera mín persónulegu tilraunadýr. Var búin að vera með nokkrar hugmyndir í hausnum fyrir brúðkaupið og ákvað að láta reyna á það í þessu afmæli. Ég var ekki alveg búin að móta allar hugmyndirnar en þær svona mótuðust eftir því sem leið á daginn, sem þýddi reyndar að ég þurfti að fara aftur í búðina 1 og hálfum tíma áður en gestirnir mættu á svæðið. En þetta var allt saman algjört sælgæti, heppnaðist rosalega vel og þá sérstaklega 2 hlutir sem ég að sjálfsögðu segi ekki frá fyrr en að loknu brúðkaupi, en mæli sterklega með. Kakan var nú ekki alveg eins glæsileg og í fyrra afmælinu, sem var Solla Stirða, en hún var þó alveg þokkaleg. Útaf því að ég hafði ekki gert neitt af þessu áður(í þessum búning) þá var ég allan daginn að þessu en fannst alveg rosalega skemmtilegt. Ég held líka að ég hafi aldrei haldið eins ódýrt barnaafmæli, það kostaði ekki nema 6000 kall og þá erum við að tala um að ég bauð uppá 4 rétti og eina köku og pönnukökur, ásamt því að vera með rauðvín, hvítvín,bjór,gos og kaffi. Helvíti vel sloppið. En um kvöldið þegar fólk var farið gat ég ekki hreyft mig af þreytu, mesti auminginn!
Sverrir náði í bílinn í gær úr skoðun og viðgerð eftir innbrotstilraun og viti menn það var alveg hreint ÓGEÐSLEGA dýrt! Við ákváðum að fara með bílinn í skoðun og viðgerð í umboðinu því að ef maður gerir það í hvert skipti þá fær maður betra verð fyrir bílinn í endusölu og þar sem ég á ekki bílinn þá ákvað ég að gera þetta. En það kostar mann helmingi meiri pening að gera þetta svona. En nú er hann allur yfirfarinn og fínn og við skulum vona að hann haldist bara svona í smá tíma í viðbót. Nú er búið að skipta um allt í honum og hann er eins og nýr. Ætla bara að vera ánægð með það!
Hekla greyið var sko ekkert á því að fara í leikskólann í dag, enda búin að vera í fríi síðan á föstudaginn. En ég ákvað að ég yrði að setja hana í dag því að með hverjum deginum verður erfiðara að dobbla hana inn í stofuna að leika sér. En krakkarnir tóku ekkert smá vel á móti henni, hlupu að henni og kysstu og knúsuðu og vildu ólm leika sér við hana. En hún tók ekkert vel í það og vildi bara vera frammi með fýlusvip. Hún lætur víst bara svona þegar ég er með henni, því að þegar ég er farin þá er hún brosandi og hlæjandi allan daginn, svo segir kennarinn hennar allavegana.
Brosum og verum glöð í dag, því að þetta verður yndislegur dagur, krakkar!

mánudagur, nóvember 27, 2006

skúra,skrúbba,bóna......

Ég er búin að vera svo hrikalega dugleg í dag að það hálfa væri nóg.
Ég byrjaði daginn á því að fara með bílinn í viðgerð í hinum enda borgarinnar, það tók 2 tíma! Því næst tók við alsherjarhreingerning. Ég er búin að gera jólahreingerninguna í ár! Ég tók eldhúsið svoleiðis í rassgatið, þreif alla veggi niður í gólf og tók líka alla veggi inni á baði.. já bara tók þetta allt saman í nefið! Enda var ég í 5 tíma að þessu, með 45 fm tel ég það ansi vel af sér vikið.
Eftir það fór ég til læknisins og fékk lyf fyrir þessum útbrotum í fésinu. Það tók 2 tíma! Nú er ég komin heim, loksins og nenni ekki að elda, enda ætlar drengurinn að gera það!
Hekla er búin að vera algjört englabarn í allan dag, alveg hreint yndisleg. Þegar við vorum að fara með bílinn í skoðun í morgun kom lag í útvarpinu sem heitir ,,I don't feel like dancing" með Scissor sisters, fólk þekkir líklegast þetta lag þar sem því er nauðgað í útvarpinu þessa dagana. Hekla sagði þegar hún heyrði það ,, Mamma, þetta er lagið hans pabba!" hahaha Sverrir HATAR þetta lag og finnst það hinn mesti viðbjóður, finnst hann aðeins rokkaðari heldur en þetta píkulag ársins. mér fannst þetta helvíti gott á hann.
Hekla er með gríðarlega þágufallssýki, hún segir í sífellu mér þegar það á frekar að segja mig og svo þegar ég leiðrétti hana og segi ,,Hekla, mig " þá segir hún alltaf, með mikilli áherslu ,,MICH" greinlega þýskutendensar hjá stúlkunni.
Ég verð aðeins að grobba mig á veðráttunni hér í þessari frábæru borg. Hér geng ég út úr húsi á degi hverjum í engu nema peysu og fer út með ruslið á stuttermabolnum, þvílíkur lúxus að fá svona veður langt fram eftir nóvember.

Annars er því frá að segja að á fimmtudaginn fórum við í appiritivo og fengum okkur aðeins neðan í því og átum á okkur gat og spjölluðum langt fram eftir kvöldi. Þetta fór allt saman fram rétt hjá Gunna og Höllu Báru og buðu þau okkur í eftirpartý heima hjá sér. Við ákváðum því að skilja bílinn eftir uppfrá og tókum leigubíl heim. Þegar ég kom svo daginn eftir að sækja bílinn hafði verið reynt að brjótast inn í bílinn(eða það gert en engu stolið???) því að það var búið að eiðileggja lásinn á hurðinni. En ég fór þó með ferilskrána mína á einn stað þar sem Jole var búin að hringja á undan mér. Fyrirtæki sem sér um mat í einkaþotur, ég hélt að þetta væri nú reyndar aðeins meira spennandi en raun bar vitni og vinnutíminn ekki alveg nógu skemmtilegur og um leið og ég sagði að ég væri með barn þá bakkaði pían þvílíkt. En hún sagði að ég gæti kannski hjálpað til á skrifstofunni þar sem þær væru ekki að leita að neinum í eldhúsið, þar sem ég tala ensku mjög vel og dönsku og er að verða fær í ítölskunni. Ég sagðist alveg vera til í skrifstofuna líka og að þær ættu bara að hringja ef þær vantaði einhvern. Ég var nú bara mjög jákvæð og svona en ég er ekki bjartsýn á þetta. En við bara sjáum til hvernig fer.
Á laugardaginn fórum við svo á jólabasar í skólanum hennar Heklu, eitthvað sem mér þykir mj0g skemmtilegt og Heklu líka en Sverrir er ennþá á móti þessari stefnu og ég skil ekki af hverju. Jújú þau eru pínu sérvitur en það er nú bara mjög fínt fólk sem er með Heklu í bekk og þau sem ég hef talað við þarna. Ekkert að óttast þar.
Á sunnudaginn fórum við svo enn eina ferðina í IKEA og eyddum enn meiri pening... en þetta var allt saman sem við þurftum á að halda og er íbúðin að verða mjög fín. Ég tók reyndar eftir því að það var að losna 3ja herb.íbúð í húsinu okkar og ég spurði að gamni húsvörðinn hvað hún kostar á mánuði og hún sagði 1000 evrur en að hún væri líka risastór. En ég ætti bara að vera róleg og bíða heldur eftir 2ja herb. íbúð hér því að þær eru kannski 100 evrum meira en okkar og við fáum á móti aukaherbergi. En ég ætla að hætta að láta mig dreyma um stærri íbúð.. Eins og Sverrir sagði... á meðan við erum í lítilli íbúð getum við leyft okkur aðra hluti! Rétt er það, ég nenni ekki að fara að elda baunir og hrísgrjón í hvert mál.
Svona leið helgin hjá okkur. Hvernig fór hún hjá ykkur? Einhverjar kojur teknar?

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Jólafiðringurinn!

Jæja krakkar mínir er jólafiðringurinn farinn að fara í ykkur, maður fær ekki eitt lítil, pínku,obbuponsu lítið comment.
Ég satt best að segja finn ekki fyrir jólafiðring,stressi eða neinu slíku, er barasta sallafokkingróleg!
Hekla var alveg rosalega dugleg í morgun, hún bað mig ekki um að sitja hjá sér og maðurinn með flauturnar kom og hún sagðist vilja vera með í dansinum með krökkunum. Til frekari skýringar þá er maðurinn með flauturnar einhvers konar danskennari, í Steiner reglunni er kenndur sérstakur dans, sem á að ráða sérstaklega við stress og kvíða og alls konar fleiri kvilla sem fylgja nútíma lífi, frá 4 ára aldri og upp í 19 ára. Hingað til hefur Hekla litla verið afar hrædd við þennan mann og ekki alveg skilið hvað var í gangi en í dag var hún til í tuskið og vildi vera með krökkunum. Ég var mjög stolt! Um helgina verður svo jólabasar og þangað munum við fara ásamt Jole og Gunna og Höllu Báru og krökkunum, það verður fjör. Svo á sunnudaginn förum við á antíkmarkað sem er haldinn síðasta sunnudag í hverjum mánuði rétt hjá þar sem þau eiga heima.

Ég gerði dýrindis hollustu mat í gærkvöldi og ef hann var ekki bara grennandi líka, ha.

Grillaður lax borinn fram með steiktum ananas og cilli, og linsubaunum

Lax fyrir 4
3/4 ananas(4 bollar)
2 hvítlauksrif
1 skallottlaukur
1-2 chillialdin(fer eftir hvað þið viljið hafa þetta sterkt)
1/3 bolli kóríander
1 tsk sykur(má sleppa, sérstaklega ef ananasinn er sætur)
salt og pipar

Ananasinn er skorinn í munnbita, skallottlaukurinn er skorinn í sneiðar og chillialdinið er saxað. Hvítlaukurinn, chilli og skallottlaukurinn er léttsteikt í smá olíu(ef notaður er teflonpottur þarf mjög litla) bætið svo ananasinum, sykrinum, saltinu og pipar og steikið við meðal hita þar til ananasinn hefur mýkst. Bætið söxuðum kóríander útí rétt áður en þetta er borið fram.

Linsubaunir með gulrótum og sellerírót(eða steinseljurót)
150 gr linsubaunir
1 meðalstór gulrót
1/2 lítill haus af annarri rót
1 meðalstór blaðlaukur(má sleppa)
2 msk gróft söxuð steinselja(má líka sleppa)
2 msk klassískt vinaigrette, sem er 1 msk balsamic edik og 3 msk olía)

Setjið baunirnar í sjóðandi saltað vatn og sjóðið í ca. 15 mínútur. Sigtið og saltið og piprið.
Skerið gulrótina og hina rótina og laukinn ef hann er notaður í mjög litla bita og léttsteikið þar til það er farið að litast örlítið 5-7 mín. Bætið linsubaununum útí ásamt steinseljunni og síðast 2 msk af vinaigrettinu.
Það er líka hægt að gera þetta einfaldara eins og ég gerði í gær og það tók mig ca. 5 mínútur allt saman.
1 dós soðnar linsubaunir
1/4 tsk rifinn engifer
gulrót og einhver önnur rót, skorið mjög smátt
salt og pipar.
Léttsteikið grænmetið þar til það hefur fengið á sig smá lit, bætið þá engiferinu útí og síðast linubaununum og hitið í nokkrar mínútur.
Síðast er laxinn skorinn í steikur og grillpannan smurð með olíu, þá er best að hella olíu í tissjú og láta það drekka í sig olíuna og smyrja svo pönnuna, setjið skinnið fyrst niður og steikið við meðalhita í ca.5 mín. eða þar til laxinn er orðinn fölbleikur næstum alveg upp að sárinu, smyrjið sárið með smá olíu og piprið og snúið honum þá við og steikið áfram í ca.3-4 mínútur. Takið hann af og berið strax fram ásamt hinu. Ég hafði líka ferskt salat en það þarf ekkert endilega, ég er bara háð því að fá ferskt salat með öllum mat.
mmmmm..........
delicious

3 færslur á einum degi,það er ágætt!

ég hefði alveg eins getað fengið mér extra stórann hamborgara frá Nonna bitum! Þetta salat sem ég var að borða í síðustu viku var soldið mikið fitandi ég veit það núna og geri mér grein fyrir því og einnig viðurkenni! DEM! Eftir frekari rannsóknir þá hef ég komist að þessari niðurstöðu og mun ég ekki aftur plata sjálfa mig á þennan hátt. Fékk ég mér því salat með tómötum,blönduðu salati, furu-og pecanhnetum ristuðum á teflon pönnu, rifnum gulrótum og ólífum(í vatni) með örlítilli olíu(ólífu) og balsamicediki og að sjálfsögðu salti(maldon) með þessu drakk ég sódavatn! Þetta var þrátt fyrir allt saman bara ágætis salat! Ég mun halda þessu áfram fram að giftingu! Ég er búin að setja allt nammi og snakk í poka, keypti engan bjór og ekkert vín og fullt af salati og babygulrótum, las yfir manninum mínum að ef hann hjálpaði mér ekki við þessa megrun að þá myndi ég fita mig sérstaklega mikið og hann myndi þurfa að giftast ofurfeitri konu!
Það kom reyndar ekkert mjög mikið við hann því að ég hef verið soldið feit og honum fannst ég alltaf jafn falleg, þessari elsku!
nei ég sagði honum að hann bara YRÐI að hjálpa mér, þetta gengi ekki lengur svona.... þetta sukk og svínarí á okkur. Fer á morgun að leita að jógastöð.... hmmm.. æ.. ætlaði ég ekki að gera það í dag??? getur verið! En nei það verður þá bara á morgun, því að þá verð ég með GPS tæki í láni og get því fundið þetta án vandræða!
Á morgun segir sá lati!!!! Ég segi á morgun án leti!

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Tölum aðeins um Heklu

Heklu litlu líður mjög vel hér, Sverrir var að taka upp úr kassa gamla dúkkuhúsið hennar og hún var alveg í skýjunum yfir því.
Hún er enn í því að búa til leikrit allan daginn og fer með öll hlutverk í leikritinu. Sme fer yfirleitt þannig fram að hún kallar ,,Ronja,Ronja komdu, já hoppaðu bara!" svo kemur ,, Já Borki ég er að koma!" og þannig heldur þetta samtal áfram í ca.30 mín. eða stundum jafnvel lengur. Hún ruglar líka soldið textum í lögum t.d. er hún núna búin að líma inn í heilann sinn að Guttalagið sé svona: .....Hvað varst þú að gera Gutti minn reifstu svona jakkann þinn og nýja jakkann þinn, ræningjarassinn þinn......
og svo segir hún þessa setningu aftur og aftur og aftur þar til ég og pabbi hennar getum ekki meir og biðjum hana vinsamlegast að syngja eitthvað annað lag.
Hún er ennþá, sem betur fer, algjört kelidýr og knúsar mig og kyssir allan daginn. Hún er líka hin mesta svefnpurka eins og faðir sinn og að koma þeim tveimur á fætur á hverjum morgni er ekkert smá mál, það tekur vekjaraklukkuna og mig a.m.k. 40 mínútur að vekja, svo er restin eftir að klæða, borða og koma sér út. Þannig að þetta tekur allt saman dágóðan tíma.
Hún getur líka dundað sér í baði í 1 1/2 klukkutíma, ég þarf að fara á 15-20 mín. fresti til að hita baðið upp fyrir hana svo að hún forkalist ekki.
Hún sagði við mig um daginn ,, mamma þetta er alveg ómögulegt!"
,, nú?" segi ég, þá sagði hún ,, já að hafa rúmið ennþá og það er kominn dagur, það er alveg ómögulegt!"
Já ætli hún hafi ekki haft rétt fyrir sér enda hef ég haft það fyrir reglu að hafa aldrei rúmið yfir daginn, aðeins á nóttunni.
Já það er sko gaman að vera mamma!

Er tími til að elska?

Þegar maður leggst upp í rúm á kvöldin af hverju tekur maður sér ekki eina mínútu í það að gefa elskhuga sínum(eiginmanni,eiginkonu, rekkjunauti.... hvernig sem þið viljið hafa þetta) einn unaðslegan koss. Einbeita sér að fullum og þrýstnum vörum hans(hennar), gefa frá sér örlítið votann koss, stuttann en heitann og fullann af ást og unaði. Strjúka vangan örlítið og horfa djúpt í falleg augun og steypa sér á bólakaf í hafsjónum og hugsa hversu ofboðslega þú elskar þessa manneskju og jafnvel koma því í orð.
Bara svona í staðinn fyrir að snúa sér á hina hliðina og bjóða góða nótt.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Svoooo veeeik

Ég er með alveg hrikalega mikla flensu og allt sem henni fylgir.
Líkamlega líður mér hörmulega en andlega er ég í skýjunum! Brúðarkjóllinn var að koma í hús og hann er fullkominn.... Hann er alveg ofboðslega fallegur og vel með farinn og mikið í hann lagt og ég fékk hann á algjört BARGAIN! Bara svona til að nota góða íslensku.... Annars þarf aðeins að víkka hann um rifbeinin(ekki hægt að grenna mig þar :(, samt nett fegin því þá þarf ég ekki að fara í megrun!) og það ætti að vera hægt, vona ég, húsvörðurinn ætlar að fara með mér í kvöld til saumakonu sem hún þekkir til að athuga hvort það sé hægt. Ég bjóst nú alveg við því að það myndi þurfa að laga hann aðeins, ég meina ég keypti jú án þess að máta! Það sést ekki á honum að hann sé gamall og það er bókstaflega ekkert að honum, engir blettir, engin lykt ekkert að....bara fullkominn!
Helgin var mjög skemmtileg, við vorum að passa 2 börn, eða einn 11 ára og eina 3 1/2 árs og það var bara mjög skemmtilegt! Hlynur var líka hér og það var mjög gaman að fá svona gest, lífgar aðeins upp á tilveruna..... það var sem sagt mikið spjallað og mikið hlegið þessa helgina. Við erum jú mestu sullarnir með myndavélina og tókum held ég bara engar myndir! En ég tékka á eftir hvort ekki sé eitthvað nýtt inni á henni.
Það er svo fyndið kvefið sem ég fæ alltaf... það sem sagt rennur stanslaust þunnt hor(eins og vatn eða tár)úr nefinu mínu þegar ég stend upp! Þannig að ég þarf beisiklí að troða klósettpappír upp í nefið á mér því að kitlið sem myndast við þetta rennsli er gjörsamlega óþolandi! Sverri finnst ég gjörsamlega ómótstæðileg svona, hann er alltaf að nudda sér upp við mig þegar ég er svona með klósettpappírinn í nefinu og tárin flæða úr augunum, exemið helmingi verra en áður og til að toppa allt saman, beit mig fluga í nótt á mitt ennið þannig að ég er með nett einhyrningshorn þar.
Lífið er gott!!!

föstudagur, nóvember 17, 2006

Nýjar myndir

jæja
Ég hef sett nokkrar nýjar myndir inn á myndasíðuna, ég ætlaði að reyna að gera svona skemmtilega flott hér en allt kom fyrir ekki og ég gafst upp og gaf tölvunni leikinn! Ef einhver kann að gera svona frá photobucket endilega deilið með mér.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

yoyo

Vikan er búin að ganga bara sinn vanagang. Ég er byrjuð að prófa ýmsa rétti fyrir brúðkaupið, þar sem ég ætla að gera matinn sjálf(nema á laugardeginum að sjálfsögðu!). Prófaði einn í gær sem er algjört sælgæti en er soldið erfitt að borða, en ég ætla að reyna að redda því einhvern veginn. Segi að sjálfsögðu ekki hvað er í honum, því ég vil ekki að allir komi í brúðkaupið og segi ,, já þessi ég var með þetta um daginn, rosalega gott!" fólk á frekar að segja ,, nei vá hvernig datt henni þetta í hug, aldrei smakkað þetta áður, algjört sælgæti, ha!" Nei nei smá spaug, það verður ýmislegt gamalt og gott og svo eitthvað nýtt inn á milli. Er ennþá að vandræðast með köku samt. Það reddast, nægur tími!
Sverrir var hinn gáfaðasti í gær, hann stilti vekjaraklukkuna eins og venjulega og við vöknuðum við hana nema hvað að við söfnuðum öll aftur og svo segir Sverrir við mig að klukkan sé að verða 8 og við förum á fætur og gerum okkur til eins og venjulega, nema hvað að klukkan var að verða 9 ekki 8 þannig að við vorum öll orðin of sein! En við ákváðum að gera bara gott úr þessu og fórum yfir til Sviss í stórt outlet þar sem er með öllum helstu merkjavörunum eins og , Valentino,Armani, DogG o.s.frv.(okok ég veit að það er nett halló að fara yfir til Sviss fyrir þetta en við þurftum að kaupa giftingarföt á Svessa minn!) Nema hvað að þetta var allt saman frekar lummó en við vorum að leita að jakkafötum sem breytast ekki mikið og er mér nett sama hvort að þau séu ,,last season" eða ekki, sérstaklega þegar Sverrir er búinn að eiga sín í 8 ár! En viti menn við dettum niður á ein helvíti flott í Dolce og Gabbana og bara skelltum okkur á þau og hann hefur aldrei verið flottari og heldur höfum við aldrei keypt eins dýr föt! En samt sem áður fengum við fötin á 60% afslætti. Málið var að það var búið að dragast aðeins til í þeim( sem sést ekki neitt) og þetta voru síðustu fötin þannig að hún gaf okkur auka 10% afslátt ofan á 50% þannig að í rauninni fengum við skyrtuna(sem er líka DogG) fría. Fötin áttu upprunalega að kosta 140.000 kall!
En ég er mjög ánægð að hafa klárað drenginn og við næstum því fengum skó líka, nema hvað að þeir voru ekki til í hans númeri, það voru Prada skór sem áttu að kosta 12.000. Geðveikt flottir en það þýðir ekki að gráta það.
Við verðum flottasta parið í bænum, þ.e. ef kjóllinn minn kemst í hús. Hann er ekki ennþá kominn en ég held enn í vonina það var sagt 7-10 dagar og það eru 2 dagar eftir. Vonum það besta.
Hlynur vinur er kominn í heimsókn og gistir núna hjá okkur, greyið er bara inni í eldhúsi, en það er kannski bara best þá þarf hann ekki að vakna þegar við vöknum og svona, er bara með sitt eigið herbergi, þó að það sé eldhúsið!
En Dýrið mitt þú þarft nú ekki að bíða lengi eftir að komast á koju með hjónaleysunum því að við vorum að sjá að á netinu er hægt að fá miða fyrir bókstaflega skid og ingenting! Það var sem sagt hægt að fá far fyrir 0.1 evru +skattar þannig að í rauninni var maður bara að borga fyrir skatta! Ekki slæmt að fara til London fyrir 4000 kall á manninn, ha!
En nú ætla ég að fara að vinna í myndasíðunni okkar.

Hvernig finnst ykkur nefið? stórt þá eða???

Hvernig finnst ykkur nefið? stórt þá eða???

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Como

Við fórum upp að Clooney vatninu eða Como eins og það heitir víst. Ég var mjög svekkt þar sem við sáum bara eitthvað vatn og fjöll en engan George Clooney!
En annars var þetta alveg ótrúlega fallegt vatn og allt þar í kring. VIð fórum með Gunna og Höllu Báru. Við keyrðum mikið en stoppuðum svo á pizzastað og fengum mjög góða pizzu lögðum svo í hann á ný og fórum í Cittá di Como og þar stoppuðum við(eftir að hafa leytað að bílastæði í 30 mín.)og skoðuðum okkur aðeins um, m.a. fallega kirkju, fórum svo heim á ný. Þegar heim var komið fengum við okkur saman sushi og stelpurnar fengu að leika sér soldið saman, sem þær fá beisiklí ekki nóg af. Þetta endaði í smá drykkju hjá hjónaleysunum, hjónin sjálf héldu sér nett þurrum en við Svessi rokk erum soldið blaut þannig að við drukkum bara og drukkum.Fórum svo heim um 2 leytið og skildum dótturina eftir. Ekkert að óttast þar því að hún var svo fúl þegar við komum að sækja hana daginn eftir að það hálfa, vildi bara leika við hana Leu sína.
Þetta var allt saman alveg frábært, mjög skemmtilegt.
Ég ætlaði reyndar að segja frá því að ég og hinn helmingurinn fórum á koju á föstudeginum og grófum upp ýmsan skít um hvort annað, eða þannig, við nefnilega vissum ekki ALLT um hvort annað áður en við fórum að vera saman, einmitt!
Það er alltaf svo gaman að fara með Sverri mínum á koju, við erum nefnilega svo skemmtileg með víni, sjáiði til!
Í gær gerðum við hins vegar reginmistök! Við fórum í IKEA, ég meina hvað á maður annað að gera þegar sólin skín og það er svo hlýtt að maður er bara á peysunni!
En annars var nett þörf á þessu, mig langaði nefnilega helst til að æla á baðherbergisgólfið þegar ég gekk þar inn. Ég held að þegar ég flyt inn í nýja íbúð þá fari einhver varnarstarfsemi í gang hjá mér og mér finnst bara allt svooo fínt, já-já-þetta-er-allt-í-lagi fílíngur fer í gang og ég sætti mig við ótrúlegustu hluti eins og t.d. þetta baðherbergi sem er mesti viðbjóður og ég fékk nóg í gær. En við erum núna búin að bæta allt saman og líka aðeins að bæta eldhúsið og þetta er allt að koma. Ég meina ef við ætlum að vera hér í 2 ár í viðbót þá bara verðum við að vinna í íbúðinni. Ég ætla að reyna að dobbla Sverri til að fara í vinnugallann næstu helgi og jafnvel hóa í Gunna og mála skrímslið! Það er sko þörf á því þar sem það hefur ekki verið málað hér síðan 1973(án gríns!Jole sagði mér það) og það er mesti viðbjóður hér, svona til að lýsa þessu nánar þá get ég ekki strokið með rökum klút af veggjum hér(ekki einu sinni þurrum) því að þá fer málningin bókstaflega af! og þegar maður strýkur eftir veggjunum með höndunum þá er maður með kalk á höndunum eins og eftir krít! En hingað og ekki lengra við förum með þetta alla leið og lögum þetta!
Ég held að ég hafi komist að niðurstöðu í mínu vandamáli að geta ekki skilið eftir einn bita á disknum mínum! Ég vorkenni honum! Mér finnst hann eitthvað svo einmana þarna að ég bara verð að gera eins við hann og vini hans og fjölskyldu.....borð'ann.
Ég var rosalega dugleg á föstudaginn og tók bílinn í gegn, skipti um peru í honum og þvoði hann og bónaði og svo í dag er hann næstum því jafn skítugur og hann var áður.Það er svo skemmtilegt að þrífa eitthvað hér í þessari borg því að það verður allt skítugt aftur eftir 2 daga.
Hvílík geðsýki sem var í IKEA í gær, við fórum þangað um 13 leytið en svo þegar við vorum á leiðinni heim um 17.00 þá var röð inn á svæðið frá hraðbrautinni! Ítalirnir fara nefnilega þangað á sunnudagskvöldum til að fá sér sænskar kjötbollur og versla í leiðinni!
Ég keypti mér naglaþjalir, óójá naglaþjalir ég er nefnilega að undirbúa mig fyrir brúðkaup sko.... Þeir sem þekkja mig vita að ég er líklegast með ógeðslegustu neglur sem fyrirfinnast þar sem ég er alltaf að skera af þeim helminga og toppa o.s.frv. þá líta þær síður en svo vel út! En nú er ég ekki að vinna á veitingastað og get loksins haft þær fínar, mér finnst ég svo konuleg þegar ég er að þjala, það er mjög gaman. Loksins get ég farið í pæjuföt á hverjum degi og gert mig fína, það er mj0g indælt að vera ekki alltaf geðveikt sveitt og morkin í galla fullum af matarslettum og ógeði með hníf í hendi og plástur á öllum puttum!
Ég gerði rosalega gott pastasalat í gær með fullt af góðgæti í. Í því voru : túnfiskur, ólífur, tómatar, harðsoðin egg, döðlur, parmesanostur, mozzarellaostur og ristaðar pecanhnetur. Dressingin var: hálf tsk dijon sinnep,1 msk hvítvíns edik og 2 msk ólífuolía(extra virgin). Þetta var algjört sælgæti!

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Aldrei að baka súkkulaðiköku aftur!!!

Hekla hefur ekki borðað neitt af henni, Sverrir eins og t.d. 3 sneiðar og ég restina og get ekki hætt. ÉG GET EKKI HÆÆÆÆÆTTT!!!!!

Aukahendur, auglýsi eftir aukahöndum....

Fór í lestina í dag og sá móður í sömu aðstöðu og ég er í á hverjum degi.....ekki með nógu margar hendur, svo einfalt er það. Mér finnst að þegar maður fæðir barn eigi að fylgja með aukahendur sem maður getur sett á sig og tekið af að vild og þær fúnkera fullkomlega eins og venjulegar hendur!
Ég er að verða jafnfræg og systur mínar, ha! Ég var í bænum í dag og var nokkuð vel klædd, þó ég segi sjálf frá, það var ekki nógu mikið horft á eftir mér, var nett komin með nóg þegar ég kom heim og þá var einn maður búinn að elta mig heim úr lestinni! En hvað um það, það sem ég ætlaði að segja var að þegar ég var að labba niðri við Duomo þá koma að mér tveir skælbrosandi Japanir og spyrja mig hvort þeir megi taka mynd af mér fyrir japanskt tískublað og þau tóku nokkrar myndir og svo tóku þau niður nöfnin á merkjunum sem ég var í sem voru mjög mikilvæg og stór merki eins og t.d.HogM og útimarkaður hér við húsið mitt og verlsanir með notuðum fötum. Ekkert Armani þar get ég sagt ykkur!

Ég reyndi í annað sinn að fara í vintage búðina sem ég er búin að sjá hér og það tókst jafnvel og síðast, hún var aftur lokuð! En ég mun reyna aftur og það mun takast að koma mér þarna inn.
Ég fór svo í HogM við San Babila(rétt við Duomo) og þar var lítil geðsýki í gangi, allt allt of mikið af fólki. Fann mér pils og brjóstahaldara og gat ekki einu sinni mátað. Ég komst svo reyndar að því hvers vegna fólk var eins og geðsjúklingar þarna inni og var það útaf einhverjum hönnuðum sem heita Victor og Rolf eru að selja HogM línuna sína í þessari verlsun. Ég er að sjálfsögðu mikið inni í tískuheiminum og veit allt um þessa menn, eða þannig!
Ég er farin að borða salat í hádeginu núna og það samanstendur af: salati(rucola/babyspínat), döðlum,ólífum,túnfisk, ristuðum pecanhnetum,tómötum og mozzarella, og ef einhver dirfist að segja mér að það sé örugglega jafnmikil fita í þessu og í samloku með prociutto,osti, majó og sinnepi þá á sá hinn sami ekki sjö dagana sæla héðan í frá,OK!
Ég hef ekki fengið mér bjór eða vín í viku núna og ég sé engan mun ennþá á húðinni í fésinu, ekki sátt.
Hekla er orðin svo dugleg í leikskólanum, ég er alveg rosalega stolt af henni, nú þarf ég bara ð sitja hjá henni í 10 mínútur korter og fer svo og kem og sæki hana klukkan 15.30. Ég held að þetta fyrirkomulag sé miklu betra en að hafa hana bara til klukkan 13.00 því að svona lærir hún meira. Það tekur á að læra, maður!
Hekla er núna að leika einleik fyrir mig, hún er Solla stirða og Halla hrekkjusvín þegar þær eru í fangelsinu og fer með þetta allt saman orðrétt, bæði hlutverkin. Ekkert smá sætt!!!
Ég ákvað að reyna að fita dóttur mína með súkkulaði köku, en allt kom fyrir ekki hún hefur ekki tekið einn bita af kökunni og ég er búin að borða hana alla. Hún er ekki með venjulega bragðlauka, þetta barn!

mánudagur, nóvember 06, 2006

fita barn, grenna mig... hvernig fer ég að???

Tengdamóður minni tókst með eindæmum vel að fita dóttur mína í sumar og svo um leið og ég fæ hana til mín byrjar hún að horast niður, ég bara skil þetta ekki. Ég held að ég verði bara að hafa tvíréttað á hverjum degi, kjötbollur og sósu og smjör í matinn fyrir Heklu og Sverri og salat fyrir mig. Maður verður nú að líta vel út fyrir brúðkaupið. Ég held reyndar að ég sé haldin einhvers konar syndromi,því að í hvert skipti sem ég segi við sjálfa mig,, nú ferðu í megrun og hættir þessu áti,, þá fer ég að éta helmingi meira en áður.
Ég hef versnað til muna í andlitinu og lít ég núna út eins og híena eftir slag við ljón, enda var drukkinn bjór og hvítvín um helgina, en á föstudaginn var ég næstum orðin góð og hafði þá haldin bjór og vín bindindinu í 2 vikur. Ef ég lagast ekki eftir 2 vikur þá fer ég til læknis.
Sjónvarpið er reyndar alveg að gera sig, núna getum við horft á almennilegar bíómyndir, á ensku, en ekki einungis það heldur líka eru allar ítölsku stöðvarnar orðnar skýrar og fleiri þannig að við getum líka horft á fréttir og ljóshærðar, barmastórar lítalæknisstelpur. Æði!
Ég hef núna klárað bæði Paulu og Fridu, eftir Bárbara Mujica. Mér fannst Paula algjör snilld, enda er Isabel Allende ein af mínum uppáhaldsrithöfundum en hins vegar var ég ekki eins hrifin af Fridu. Mér fannst hún alltaf út alla bókina,sem er ekki stutt, vera að tönnlast á sama hlutnum. Hins vegar er þetta náttúrulega hrífandi persóna og gaman að lesa um hana og hennar líf en svo aftur á móti er þetta skáldsaga þannig að það er náttúrulega takmarkað sem er satt í bókinni. Mér fannst hún ekkert rosalega skemmtileg sem sagt. En nú er ég að verða uppiskroppa með bækur og er aðeins ein eftir og er það Violets are Blue eftir James Patterson. Sjáum hvernig hún er....
Hekla var ekki alveg nógu dugleg í leikskólanum í gær, litla greyið, hún er svo hryllilega feimin. Ég vona að það gangi betur í dag. Við erum nefnilega að prófa að hafa hana allan daginn. Ég held að það flýti líka fyrir tungumálinu hjá henni að vera lengur á daginn, frekar en þessa 4 tíma sem hún er búin að vera hingað til.
Ég gerði kjötbollur í gær, en það er hennar uppáhald, þar sem hún borðaði ekki neitt í leikskólanum(gaman.. eða þannig) og hún borðaði alveg heilmikið sem betur fer, og svo sá ég til þess að það yrði afgangur svo að hún gæti farið með í leikskólann. Það má nefnilega koma með nesti handa krökkunum ef maður vill, þannig að héðan í frá fær hún kjötbollur,fiskibollur, pasta pesto og allt sitt uppáhald til þess að hún hverfi ekki bara með einu og öllu.
Hún kom til mín í gær þegar ég var fyrir utan skólastofuna hennar og sagði ,, ohhh mamma það eru svo mikil læti þarna inni, í leikskólanum hjá ömmu Margréti eru ekki svona mikil læti!" Já Ítalirnir eru svo sannarlega með meiri læti en Íslendingarnir og það er bara eins gott að hún fari að venjast því, held ég bara.
Mér finnst ég bókstaflega vera með rýting í hjartanu allan daginn á meðan hún er í leikskólanum og kennarnarnir hennar eru sko ekkert að reyna að láta manni líða betur. Þegar maður kemur horfa þær á mann eins og ég sé versta mamma í heimi og lýsa deginum á þennan hátt með mikilli dramatík í röddinni ,, guð, ertu komin, það gekk sko ekki vel í dag, hún grét og grét og borðaði ekki neitt og vildi ekki fara út að leika og vildi ekki sofa og ég þurfti að vera með hana í allan dag, þetta var sko ekki góður dagur fyrir hana!!!" Ekki skemmtilegt, ha? Mannig líður andskoti nógu illa að hafa hana þarna, en að fá svona móttökur er sko ekki auðvelt að höndla.
Þetta kemur allt saman, ég verð að vona það besta, það gekk mjög vel í fyrra og það hlýtur að gera það núna líka. Tekur bara smá tíma, verð að vera róleg!
Það er svo falleg veður hér í Mílanó, það er alveg yndislegt. Dag eftir dag er sól og blíða, það hefur reyndar kólnað mikið en samt sem áður er það í lagi því að sólin skín og vermir manns kropp.
Öll góð megrunarráð eru vel þegin!!

laugardagur, nóvember 04, 2006

Lostæti!

Máltíðin í gær var með eindæmum glæsileg.
Hátíðin byrjaði með appiritivo þar bauð ég upp á : ricotta-og gorgonzola kampavínsblöndu, andapaté,trufflusalsiccia, prociutto cotto og crudo(á íslensku kallast það eðalskinka og prosciutto), 2 tegundir af marineruðum ólífum og lítil kringlótt chillialdin fyllt með túnfisk, lögð í olíu. Allt saman æðislegt. Með þessu drukkum við stelpurnar prosecco og strákarnir bjór.
2.réttur: Jerúsalem ætiþistlasúpa með stökku beikoni
3.réttur: Graskersfyllt ravioli með púrtvínsrjómafroðu og trufflum.
4.réttur: Kahlúa-og púrtvínsmarineraður kjúklingur borinn fram með rauðrófu-epla-og b eikonchutney og ofnbökuðum kartöflum.
5.réttur: Hvítsúkkulaði-og vanilluparfait borið fram með karamelliseraðri mjólk

Þetta var algjört sælgæti!

Gagnrýni frá mínumvangefna matreiðslumannshuga: súpan var of þykk :(, sósan með raviolíinu er betri með sherrýi og alvöru soði trufflan ekki jafn bragðmikil og franska trufflan, kjúklingurinn var þurr og eftirrétturinn var ekki nægilega frosinn!
Ég var ekki sátt við sjálfa mig. En allir nutu matarins og ég að sjálfsögðu líka og þetta var alveg rosalega gott það er bara alltaf hægt að gera betur! Ég verð að fullkomna mig þetta gengur ekki svona!
Það var líka frábært að ég hringdi og fékk fleiri sjónvarpsstöðvar frá internetfyrirtækinu okkar eða þannig, við erum sem sagt núna að borga 14 evrur á mánuði fyrir ekki neitt nema cartoon network, sem var að sjálfsögðu ekki tilgangurinn með þessum kaupum!
Við vorum í allan dag að labba í bænum eða réttara sagt í nákvæmlega 7 tíma, enda erum við örþreytt þessa stundina að reyna að kreista einhvern andsk. út úr þessu blessaða sjónvarpi!
Best að fara á ebay það gæti verið að maður sé bara komin með kjól!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Get ekki beðið!

Nei ég get ekki beðið þar til á morgun... shit er föstudagur á morgun!!!!
Ég mun nefnilega gæða mér á trufflunni á morgun og er orðin svo stressuð að hún sé að missa bragðið í ískápnum hjá mér. Ég er samt að geyma hana rétt og allt ég er bara eitthvað að stressa mig á þessu.

Ég er núna á blæðingum og get ekki hugsað um neitt annað allan daginn en hnausþykka, mjúka, heita, dökka súkkulaði köku gerða úr 70% súkkulaði með unaðslegu súkkulaði kremi mmmmm.....
Ég er líka svo uppstökk allan daginn að ég er að bilast á sjálfri mér. Í hvert einasta skipti sem ég stekk uppá nef mér fatta ég það og verð svo pirruð á sjálfri mér fyrir að hafa stokkið yfir bókstaflega engu! ohhh AF HVERJU! AAAF HVERJUUHUUHU! Þurfum við að fara á túr af hverju gat ég ekki fæðst sem karlmaður? Hvílíkur galli á likama að þurfa að ganga í gegnum þetta MÁNAÐARLEGA!
Ég er líka með í maganum allan morguninn yfir Heklu minni, litlu sætu Heklu minni sem er svo dugleg að vera í leikskóla þar sem hún skilur ekki neitt. Mér finnst eins og það sé verið að toga í hjarta mitt í hvert einasta skipti sem ég segi við hana ,, nú þarf mamma að fara og ég sé þig á eftir". Þegar hún horfir á mig með þessum biðjandi augum eins og hún sé að segja,, í guðanna bænum,mamma, ekki skilja mig eftir hjá þessum geðsjúku kyssandi krökkum sem strjúka á mér hárið í tíma og ótíma, babblandi eitthvað bullmál!". En þetta verð ég víst að gera ef ég ætla mér að gera eitthvað úr mínu lífi eftir áramótin.
Ég er búin að senda frá mér fullt af uppskriftum á síðustu dögum og nú er bara að pressa á píurnar og sjá hvað þær segja, vonandi verður nú eitthvað úr þessu. Vaknaði eldsnemma í gærmorgun til að klára eina grein ég var orðin svo stressuð yfir henni að ég gat ekki sofið, þá er bara best að fara fram úr og skrifa eins og brjálæðingur ekki satt??
Ég gerði risotto í gær úr þurrkuðum Porcini sveppum, sem ég hafði keypt á truffluhátíðinni um síðustu helgi, og helltum við svo truffluolíu yfir ásamt nýjum parmesan osti, hvílíkur unaður! Ég gerði fyrir okkur 3 úr 300 gr. af hrísgrjónum og Sverri fannst þetta svo gott að hann át næstum allt saman! 300 gr eru fyrir ca.4.
En nú líður að því að fara að sækja Heklu.
Lifið heil!

mánudagur, október 30, 2006

Trufflur og aftur trufffffflur

ohh það var sko himnaríki matgæðingsins í gær, það var í bæ sem heitir Moncalvo í Piedmont, Ítalíu.
Truffluhátíðin mikla!
En það voru ekki bara ómótstæðilegar trufflur, heldur einnig pulsur,ostar, brauð, kökur, sælgæti.. það bókstaflega flæddi um allt gómsætar kræsingar. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér eina trufflu nokkur grömm á heilar 5000 kr. En þetta var það sem mig hafði dreymt um svo lengi, þ.e. að kaupa mér trufflu. En við létum okkur það sko ekki nægja heldur voru keyptir ostar, pulsur,ólífuolía,truffluolía, sveppir, jerúsalem ætiþistlar, trufflumauk og fleira góðgæti. Við fengum okkur öll saman hádegisverð á einum af veitingastað þarna í bænum og þar var matseðill sem vorinn var fram með trufflum á hverjum einasta rétti. Þetta var hreinn unaður, vægast sagt.
Við eyddum þarna deginum með Jole og Piero, Gunna og Höllu Báru, Guðmundi, Leu og Heklu alveg hreint frábær dagur í alla staði.
Annars fórum við líka í mat til Gunna og Höllu Báru á föstudeginum og þar fengum við Raclette, gómsætur réttur ættaður frá Sviss. Þar héngum við Sverrir yfir greyið Gunna og Höllu Báru til klukkan 5 um nóttina, röflandi fyllerísröfli út í eitt þar til þau bóktaflega sögðu okkur að drulla okkur heim! NNNNNeeeeeeei bara djók.... Við skemmtum okkur konunglega við frábært spjall til klukkan 5 um nóttina, alveg hreint frábært kvöld! Takktakktakk fyrir mig!

Hekla fór í leikskólann í morgun og hún var svo rosalega dugleg að hún kom bara einu sinni fram til að kyssa mig og svo fór hún aftur inn að leika sér og La maestra sagði að hún hefði verið allt önnur í dag. Vonandi heldur þetta svona áfram.
Ég þurfti að fara frá henni klukkan 11 og Sverrir átti að koma klukkan 12.30. Ég þurfti að fara í brúðarkjólamátun nefnilega..... óóójá ég fór í brúðarkjólamátun!
Ég sá nefnilega guðdómlegan kjól í Vogue sposa og fór þangað. Þar fékk ég mjög persónulega þjónustu en ég var ein á svæðinu og þær voru tvær að hjálpa mér. Málið var að hún sagði mér það að hún gæti einungis selt mér kjól sem myndi passa á mig þar sem hún hefði ekki tíma til að breyta og bæta fyrir 22.des. Ég sýndi henni kjólinn sem mig langaði í og var bókstaflega með hjartað í brókunum því að ég var svo ofboðslega hrædd um að hún segði að hann myndi örugglega ekki passa á mig eða að hann væri seldur eða eitthvað í þeim dúr. Nema hvað að hún dró andann djúpt og sagði hratt ,, já ég á hann og hann passar örugglega fullkomlega á þig!" Ég hélt ég myndi pissa á mig ég var svo spennt! Hún leyddi mig í fallegasta mátunarklefa sem ég hef séð og ég klæddi mig úr og hún kom með kjólinn, hann var nákvæmlega jafn fallegur og í blaðinu og mig hafði dreymt. Ég fór í hann og hún lét mig hafa skó við og leiddi mig að speglinum og ég missti andann í eitt andartak. Svo ótrúlega fallegan kjól hef ég ekki augum litið! Þær voru líka mjög uppnumdar og spurðu mig hversu há ég væri eiginlega og að ég væri fullkomin stærð 42(veit ekki alveg hvað það er en þóttist ánægð með það)og voru greinilega mjög ánægðar með kjólinn á mér. Eftir dálitla stund sagði hún með æstri röddu,, heyrðu bíddu aðeins. ég ætla að ná í svolítið" og þá kom hún með rúsínuna í pylsuendanum(finnst þetta orðatiltæki reyndar ekki passa hér en ég mundi ekki hitt sem passar betur),Kápa, svo undurfögur hvít,skósíð, þunn ullarkápa fóðruð með hvítu silki. Hún var með stórum kraga sem hægt var að setja upp, hún var þröng að ofan og kom aflíðandi út að neðan, ég dó næstum!
Ég táraðist og gat ekki haldið tárunum aftur, ekki bara gleðitár því að ég er að fara að taka þetta stóra skref heldur líka örlaði á sorgartárum því að ég vissi að ég myndi aldrei hafa efni á svo fallegum kjól og kápu. Mér fannst ég vera að leiða þær á villigötur og fékk samviskubit og ákvað að halda mína leið en spyrja þó fyrst um verð á dýrðlegheitunum. Hún hló við og sagði 1900 evrur(163.500 ísl.kr) og ég skal láta þig hafa kápuna með á 2500 evrur(215.000 ísl.kr). Ég fékk mitt síðasta svita og hjartakast inni í þessari verslun og hraðaði mér út með tárin í augunum.
Nú er bara að komast í saumamann/konu og reyna að immitera drauminn.......

fimmtudagur, október 26, 2006

Opnum kampavínið og skálum!

já Ég held það bara! Ég fór í morgun til Joia til að aðstoða hann við myndatökuna og var ekki einu sinn i í búning eða neitt bara eitthvað að dúlla mér þarna með þeim þarna og eftir smá tíma fer yfirmaður minn að spyrja ljósmyndarann hvort að ég ætti einhvern séns í að skrifa uppskriftir fyrir blöð hér og ljósmyndarinn segir að það sé nú örugglega hægt að redda því og sagðist vera með sambönd við Marie Claire, Flair og eitt enn sem ég man ekki nafnið á. Eftir nokkra stund kemur hann til mín og segist hafa talað við þá á Flair og að þeir væru mjög spenntir fyrir því að fá nokkrar íslenskar uppskriftir frá mér og að ég ætti bara að senda nokkrar til þeirra og ýta svo á eftir því í símann. Hann gaf mér líka nafnspjaldið sitt og nöfn og e-mail hjá þessu blaði. Síðan kom blaðamaðurinn sem ætlaði að taka viðtal við yfirmann minn og hann segir henni frá mér og hún segist ætla að hringja í kollega sinn á matreiðslublaði hér sem heitir Sale e Pepe og gerir það, þá kemur í ljós að þeir höfðu ekki mikinn áhuga á íslenskri matreiðslu(hmmm....skrítið) en að þau vanti kvenkokk og hafði einmitt áhuga á mér(blaðamaðurinn sagði reyndar í símann að ég væri bæði með meðmæli frá Pietro Leemann og væri mjög sæt!) og að ég ætti að hafa samband við hana á þriðjudag eða miðvikudag til að komast eitthvað áfram með þetta og ætti að hafa tilbúinn grænmetismenu fyrir þau sem væri svo undirbúinn og teknar myndir af á blaðinu sjálfu! Ja hérna þið getið rétt ímyndað ykkur spennuna hjá minni á þessum tímapunkti! Þetta er að sjálfsögðu allt saman óráðið en ég verð að vona og biðja og gera matseðla og uppskriftir eins og brjálæðingur næstu dagana!!!!
Eftir þetta allt saman segir Pietro mér að hann væri nú alveg til í að fá mig svona auka einn og einn dag ef ég væri til í það og að ég mætti nota eldhúsið hans fyrir myndatökur og myndi borga honum til baka með því að vinna fyrir hann. Ég játti því að sjáfsögðu!
Ég var svo spennt þegar ég kom til Höllu Báru og Gunna(þar sem Hekla var í pössun) að ég varð að fá mér bjór!
Ég er reyndar búin að vera gerlaus í 5 daga núna og ekkert breytist í feisinu á mér ég held að ég verði að fara til læknis útaf þessu, ég meika ekki að vera svona útlítandi á brúðkaupsdaginn minn.
Ég svaf ekkert í nótt þannig að ég er að spá í að loka aðeins augunum og fara svo í að finna íslenskar uppskriftir! Gangi mér vel, ef það er eitthvað sem er erfitt að finna í matreiðslu og gera það massa girnó þá er það íslenskur matur! Og grænmetisréttir..... Díses ég ræðst á garðinn þar sem hann er lægstur..... eins og venjulega!!!..........

miðvikudagur, október 25, 2006

Opinberlega EKKI starfsmaður á Joia

já ég fór og talaði við yfirmann minn á Joia í gær og hann virtist í fyrstu vera mjög jákvæður og allt í góðu en svo sagði ég honum að ég þyrfti að taka það að mér þetta árið að vera heima með Heklu ef hún yrði veik og þá fór allt í baklás. Hann tjáði mér það að það væri ekki séns fyrir hann að taka manneskju sem þyrfti að vera heima hjá veiku barni einhvern tímann og einhvern tímann þannig að því miður yrði ekki meira samstarf hjá okkur. Hann var reyndar alveg elskulegur kallinn svo sem og lagði höfuðið í bleyti hvort að ekki væri hægt að finna eitthvað að gera fyrir mig en benti mér á það að aðrir veitingastaðir myndu heldur ekki ráða mig af sömu ástæðu. Blessaðir Ítalirnir, ha! En svo fór ég að segja honum frá því að ég hefði verið að skrifa greinar fyrir blöð heima og þá sagði hann mér að prófa að skrifa greinar og fá ítalskan ljósmyndara og svo selja greinina þannig sem pakka. Ég tók svo sem ágætlega í það og hann sagði mér frá því einnig að hann væri að fá ljósmyndara til sín frá blaði á morgun og hvort það væri ekki góð hugmynd ef að ég væri að aðstoða hann við myndatökuna og tala svo við ljósmyndarann um þessa hugmynd og hvað hann tæki fyrir hverja mynd. Ég er skeptísk á þessa hugmynd en það er þess virði að tékka á þessu svo sem og ég geri það að sjálfsögðu. Ég er skeptísk þar sem ég veit að þeir heima hjá þessum blöðum borga ekki skít fyrir þetta en við sjáum til, ætla ekki að útiloka neitt ennþá.
Ég fer sem sagt í vinnuna klukkan 9.30 í fyrramálið!
Ég var soldið gáfuð að samþykkja þetta þar sem Hekla er enn í aðlögun á leikskólanum og ég þarf að vera með henni meiri hluta dagsins, en guði sé lof fyrir Gunna og Höllu Báru!

Fékk í dag sendingu frá Nýju Lífi, nýjasta heftið. Endilega kaupið blaðið og tékkið á matnum hann er unaðslegur. En ef þið ætlið að gera eftirréttinn þá mæli ég með að setja meiri sykur í jógúrtina.

Ég var líka með hamborgara í Mogganum síðasta föstudag og guð hvað þeir eru guðdómlegir!

Það eru hundrað spurningar sem fljúga gegnum huga minn þessa dagana, sérstaklega eftir samtal mitt við Joia. Er ég á réttri braut í lífinu? Er það virkilega mín örlög að vera í vinnu þar sem ég get hvorki verið með fjölskyldu minni né séð fyrir henni. Mér líst satt best að segja ekkert á blikuna. Ég hef því beðið Jole um aðstoð við að finna ítölskunám fyrir útlendinga sem er í háskóla þannig að ég þurfi ekki að borga morðfjár í skólagjöld. Námið þarf að vera soldið intensívt til að fá lán fyrir því og einnig þarf ég að vera skráð í annað nám eftir að ítölskunáminu lýkur. Ég hef því tekið til greina tillögur frá Ólu systur og ætla að athuga hvort að ég geti farið í markaðsfræði. Ég tel að það geti verið gagnlegt að vera með matreiðslumenntun og markaðsfræði, það er hægt að nota það á ýmsa vegu, ekki satt??
Ég hlakka samt alveg rosalega til sunnudagsins því þá förum við upp í sveit á truffluhátíðina sem ég hef minnst á hér áður nema hvað að við förum líka á veitingastað sem er með hefðbundinn mat, og það elska ég að smakka!

sunnudagur, október 22, 2006

Prump

Díses, ég var með partýskinku og kartöflusalat í gærkvöldi og öll fjölskyldan er búin að vera að prumpa síðan og Hekla litla mús þoldi þetta verst af öllum og er bún að vera að drepast í maganum og æla og allan pakkann, skemmtilegt. Ég held að það sé langt í næsta svínakjötsát!
Við erum búin að koma okkur fyrir og til í slaginn. Við vorum aðeins að hjálpa Gunna og Höllu Báru að koma sér fyrir líka og þetta lítur alveg hreint rosalega vel út hjá þeim, þau eiga eftir að ílengjast hér það er á hreinu!
Hekla stóð sig einstaklega vel á föstudaginn í leikskólanum hún lék sér með krökkunum allan fyrri hluta dags alveg sátt, ég reyndar sat fyrir utan stofuna hennar og hún kom og tékkaði á mér svona annað slagið en annars var hún alveg að leika sér með krökkunum. Þau koma og kyssa hana og knúsa og eru mestu dúllur í heimi. Hekla veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið þegar þau eru kannski 3 að kyssa og knúsa. Íslensku krakkarnir eru jú aðeins öðruvísi!
Ég held að ég sé búin að komast að húðvandamáli mínu,... gerofnæmi.... þannig að ég ætla núna að athuga hvort þessi útbrot fara ef ég hætti að borða ger.... einmitt gangi mér vel.... uppistaðan í fæði mínu er einmitt ger.... oh men eruði alveg viss um að það sé ger í bjór?????
Er ekki best að klára greinarnar fyrir blöðin núna svo að þetta sé bara búið?!
Við förum á truffluhátíð næsta sunnudag, endilega fylgist með, það verður spennandi.
Over and out.......

miðvikudagur, október 18, 2006

aahahhh skokk!

Ljúft ég gat farið út að skokka í morgun í garðinum mínum, yndislegt!
Við erum sem sagt komin á leiðarenda í bili og munum vera hér á Ítalíu næstu 2 mánuðina og svo koma heim og gera eitthvað skemmtilegt með vinum og ættingjum.
Hekla er í miklu stuði og vildi ólm sofa í rúminu sínu en kllifrar þó niður á nóttunni og kúrir hjá mömmu og pabba.
Sverrir er alveg að drepast í fætinum, búinn að ofgera sér algerlega, einstaklega skemmtilegt að koma til Ítalíu og þurfa að hanga inni í íbúð:)
En ferðalagið gekk alveg hreint ótrúlega vel. Ég millilenti í Kaupmannahöfn og var yfir nótt. Ég fékk gistingu hjá Önnu Helgu og Írisi og naut samveru þeirra allan daginn. Þær eru yndislegustu stelpur, svo gestrisnar og nenntu að vera með mér allan sunnudaginn. Við fórum að sjálfsögðu á Bankeraat og fengum okkur brunch, svo lá leiðin á næsta bar og drukkum við nokkra bjóra og spjölluðum og spjölluðum, færðum okkur svo yfir á sushi stað á Nörregade og borðuðum yndislegt sushi og fórum svo heim og drukkum smá meiri bjór og fórum svo bara snemma í ból. Þetta var alveg yndislegur dagur og þakka ég kærlega fyrir það.
Daginn eftir fór ég í leiðangur um Kaupmannahöfn að skoða og kaupa föt og hnífa(besta blanda í heimi!) Ég sem sagt skemmti mér konunglega þá. Svo um 2 leytið komu Sverrir og Hekla og fórum aftur á Bankeraat og borðuðum og drukkum og gengum um og slöppuðum af. Yndislegur dagur. Þá var liðið að heimferð og við komum okkur í flugvélina. Hekla er yndislegasta stelpa í heimi, hún var eins og engill alla leiðina og Sverrir sagði mér að hún hafi líka verið það á leiðinni frá Íslandi.
Þegar við lentum á Ítalíu kom Jole að sækja okkur á flugvöllinn og keyrði okkur heim, alltaf jafn góð hún Jole.
Þegar við komum heim var búið að gera allt svo fínt og æðislegt, nýumbúið rúm með nýjum rúmfötum og bjór og matur í ísskápnum, það bara gat ekki verið betra að koma heim í bólið sitt.
Það verður nú barasta mjög ljúft að hafa Gunna og Höllu Báru hér, þau komu í gær og við spjölluðum saman heillengi og nutum samverunnar, stelpurnar léku sér saman mjög góðar og Guðmundur virtist vera sáttur með video.
Síðan við komum erum við búin að vera að borga reikninga og redda netinu og svo næst á dagskrá verður að koma Heklu inn á leikskólann og mér í vinnu.
Veðrið gæti ekki verið betra, sól og um 20 stiga hiti, fór meira að segja út að skokka á stuttbuxum.
Við förum í kvöld í mat til Gunna og Höllu Báru, ætlum bara að fá okkur pizzu og drengirnir eru að fara að horfa á fótbolta, ég veit reyndar ekki hvort að Halla Bára horfir á boltann, tja ef svo er þá bara læt ég mig hafa það og horfi líka á boltann.

Kláraði Alkemistann eftir Paolo Coehlo, snilldarlesning, mæli með henni. Var að byrja á Paula eftir Isabel Allende, hún er algjör snillingur þessi kona, hvernig hún fangar mann með hverju orði, ótrúlegt. Maður hættir heldur ekkert að hugsa um söguna þegar maður lokar bókinn, maður heldur áfram að hugleiða hitt og þetta sem fram hefur komið. Hlakka til að lesa meira.

þriðjudagur, október 10, 2006

Ennþá styttra???

Já ég er að spá í að ganga með þetta alla leið og klippa ennþá styttra, hvað finnst ykkur???

Ljúft, ljúft bíllinn minn er tryggður!!!!
Gunni og Halla Bára redduðu tryggingunum á bílnum mínum í dag svo að þau geta náð í hann á morgun, jessssss........
Ég er búin að vera að rembast á minni glæsilegu ítölsku í dag og í gær að reyna að redda tryggingunum og nettengingu á heimilið aftur þar sem það virðist liggja niðri :( Gengur ekkert alltof vel með Fastweb vini mína, sérstaklega þar sem þeir eru með einhvers konar frítt símanúmer og get ég því ekki hringt frá öðru landi en Ítalíu, frekar súrt, vonandi get ég reddað þessu á morgun.

Veislan á laugardaginn tókst alveg hrikalega vel, reyndar svo vel að einni sósunni var rænt, hvorki meira né minna. Ég viðurkenni það að þessi sósa er alveg hreint hrikalega góð og að ræna henni af mér ásamt tupperware dollunni fannst mér aðeins of langt gengið. Ég held samt að ég taki þessu bara sem hrósi. Ætli einhver ætli ekki að herma eftir henni.... Múhahaha þið náið henni aldrei..... múhahaha.......

Fór í dag að tékka á kuldagöllum á stúlkuna og kuldaskóm og fékk nett fyrir hjartað. Það er dýrt get ég sagt ykkur, en ef að stúlkan á að vera þurr í ölpunum í vetur þá er eins gott að hún fái ..aðeins það besta...

Það er nokkuð brjálað að gera svona síðustu vikuna eins og við var að búast. matarboð, heimboð, vinna og alls konar læti og skemmtilegheit. Maður er alltaf jafn sniðugur að geyma ýmsar heimsóknir fram á síðasta dag, ekki satt??!!

Best að fara og sækja hana Heklu mína.

þriðjudagur, október 03, 2006

Nýtt Líf

Ég gerði jólaþáttinn fyrir Nýtt Líf í gær og það heppnaðist svona líka glimrandi vel. Ég var svoleiðis slefandi yfir þessum rétt sem ég gerði og allir hinir líka,mmmmmm........ namminamm.
Ég er að sjá um veislu á laugardaginn, 55 manns, hefði viljað hafa þau fleiri en jæja það verður bara að hafa það.
Vorum að kveðja Gunna og Höllu Báru í gærkvöldi með lasagna og rosalega góðum eftirréttum sem Erna frænka Svssa töfraði fram, ásamt köku sem ég gerði fyrir myndatökuna. Ef þið viljið fá bestu uppskrift ever þá verðið þið bara að kaupa Nýtt Líf um miðjan nóvember.

Hekla sofnaði í gær klukkan 22.30 og vaknaði í morgun 7.30, ég var eins og gefur að skilja einstaklega ánægð og hoppaði dansandi fram úr rúminu, eða þannig! Eftir að Hekla var búin að reyna eins og hún gat að fá mig til að syngja með henni þá sagði hún ,, æ, mamma ég vil fara í leikskólann núna!" Greinilega orðin pirruð á mygluðu mömmu sinni.
En best að hætta þessu bulli og fara að vinna!

sunnudagur, október 01, 2006

Takk takk

Já ég þakka kærlega allar hamingjuóskirnar sem rigndi hér inn á kommentakerfið þar til það hreinlega hrundi! Gott að sjá að ykkur er svona líka NÁKVÆMLEGA SAMA um það að Sverrir sé loksins kominn með bílpróf aðeins 12 árum og 140.000 krónum seinna!
Skilaboð til allra unglinga :

Í guðanna bænum takið bílprófið áður en þið flytjið að heiman og áður en þið farið að vinna fyrir ykkar eigin peningum!!!

Það verður brjálað að gera þessa vikuna, er með eina grein og eina veislu og það lítur út fyrir að ég fái enga hjálp við veisluna, þar sem Sverrir er að fara á árshátíð með strákunum um næstu hlegi sem að sjálfsögðu tekur ALLAN daginn og peningar hafa náttúrulega aldrei skipt okkur neinu máli og eigum við víst nóg af þeim. Gullkistan kemur oft að góðum notum. Ég tala um peninga í þessu samhengi þar sem ég fæ víst borgað fyrir þessa veislu og væri að sjálfsögðu gott að hafa 2 aukahendur sem ég þarf ekki að borga fyrir. En nei ég þarf víst að gera þetta ein og yfirgefin og vil ég vorkenna mér aðeins meira hér á þessu bloggsvæði mínu,búhúhú!
Ég rumpa þessu af að sjálfsögðu og geri það með glæsibrag... who needs Sverrir anyways....

ok ég er sem sagt ekki í nýjasta hefti Nýs Lífs og ekki var ég heldur á föstudaginn í Mogganum eins og ég hélt, en við vonum þó að ég komi í næsta skipti.

Við fórum í Ítalíupartý á föstudaginn og var alveg rosalega skemmtilegt,drukkið og spjallað fram á nótt! Svo fórum við í matarboð til Þorgerðar á laugardaginn og bar hún á borð miklar kræsingar fyrir 12 manns, hún kann þetta stelpan! 4 rétta máltíð allt hvert öðru betra.
Til hamingju með nýju íbúðina sös!
Hekla fór í leikhús á laugardaginn með ömmu sinni og langömmu á Ronju ræningjadóttur og skemmti sér rosalega vel, var víst eins og engill allan tímann, þessi elska.
Best að fara að vinna.

fimmtudagur, september 28, 2006

Sverrir og bílprófið

Ég hugsaði svo mikið um þessa blessuðu samloku í morgun að ég gleymdi að segja frá því að Sverrir mun loksins vera kominn með bílprófið!!!!
Við skáluðum fyrir því í gær með Kjöt í karrý, mama style, með tengdó......
Sverrir var að keyra í allan gærdag og hann stóð sig bara helvíti vel drengurinn, ég er stolt af honum!

miðvikudagur, september 27, 2006

mmm samloka!

Ég get ekki beðið eftir að fá mér samlokuna sem ég er búin að hugsa um að gera í hádeginu. Það mun vera ristaðar brauðsneiðar smurt með ricotta,sólþurrkuðum tómatmauki,pestó(heimatilbúnu)mozzarellaosti,tómötum og rucolasalati, ohhhahhhh(greddustunur)!!!!!

sunnudagur, september 24, 2006

Afsakaðu Langi Seli!

Engar útskýringar fáiði með þessari fyrirsögn!

Ég fór á föstudaginn til að kveðja Ásu vinkonu og nú er hún farin :( En ég býst nú við því að sjá hana jafnvel í Mílanó, ég meina maður getur fengið far til frá London á skid og ingenting!

Fór svo á laugardaginn í brúpkaup hjá Einari Sigurðssyni og Völu Pálsdóttur, þetta var allt saman hið glæsilegasta brúðkaup og vel dekrað við mann allan tímann, þjónustan frábær, félagsskapurinn og maturinn allt saman í hæsta gæðaflokki. Mjög skemmtilegt og ég verð að segja að það var þarna einn skemmtikraftur sem bókstaflega fór á kostum. Það var frændi Einars, skildist mér, og ætli hann hafi ekki verið milli 10 og 12 ára og söng ofur fallega og svo skemmtilegur textinn hjá honum að maður lá í hláturskasti. Mjög skemmtilegt.
Eftir brúðkaupið fórum við á tónleika á Þjóðleikhúskjallaranum og þar spiluðu: Langi Seli og Skuggarnir, Ske og Jeff Who. Þar var sko skemmtilegt! Ég var náttúrulega orðin ansi skrautleg en hélt þó andliti, held ég alveg örugglega og ætla ekki að fá helvítis daginn eftir-bömmerinn yfir smávægilegum hlutum! Við vorum þó komin heim á svona nokkurn veginn skikkanlegum tíma eða um 4 leytið, reyndi að borða pulsu sem ég eldaði mér sjálf en það var bara ekki eins þannig að hún endaði í ruslinu.
Við skriðum því seint og síðar meir úr bóli í gær vel timbruð og fín. Ég fór svo að telja upp áfengistegundirnar sem ég lét ofan í mig um kvöldið og nóttina og voru þær 6 talsins og er því ekki furða að maður gat vart staðið í lappirnar af þynnku.
OKOK það var smá skandall hjá stelpunni þar sem hún er líklegast mesta grúppía í heimi þegar bakkus kemur í heimsókn en þið fáið ekki að vita hvað ég gerði þó svo að það hafi verið mjög lítilvægt og varla til að tala um, en ég tala ekki meir um það!
Ljósmyndari Moggans kemur á morgun og ætla ég því að fara að vinna og hætta þessu blaðri endalaust.
P.s. vinir okkar úr Ske og Jeff Who stóðu sig frábærlega og skemmtu fólki út í eitt!

þriðjudagur, september 19, 2006

mmmmm......... matur!!!!

Ég er svo svöng og ég get ekki hætt að hugsa um indverska lambakjötsréttinn sem ég fékk hjá Sigrúnu og Árna á sunnudaginn! Eru ekki til einhverjir afgangar???
Það var mjög skemmtilegt hjá þeim í mat eins og alltaf og Salka og Hekla léku sér eins og englar saman. Yndislegt kvöld.
Ég fór svo á ballettsýningu í gærkvöldi eða kannski öllu heldur danssýningu. Þessi sýning var alveg hreint ótrúleg, maður var alveg dolfallinn frá fyrsta spori til hins síðasta! Hló og grét til skiptis eins og mér einni er lagið, frábær kvöldstund og vil ég þakka Þorgerði systur fyrir að draga mig með á þetta.
Mig langar í kjól fyrir brúðkaupið sem við erum að fara í á laugardaginn. Ætla samt að hitta Ásu á föstudaginn, er nett sama hvort ég verð þunn á laugardeginum eða ekki, þetta er síðasta kvöld mitt með Ásu í smá tíma og ég ætla að njóta þess hvort sem það verður með edrúskap eða æluskap!
'Ich ég verð að fara og fá mér að borða, ég er líka búin að vera að skoða hamborgara uppskriftir á netinu og jesús minn það er ekkert skrítið að kanarnir séu svona feitir þessar uppskriftir eru bara æla! En samt langar mig í hamborgara núna, æ nei mig langar í salat, ohh byrja ég enn og aftur með þessa óákveðni í hvað mig langar að borða, get aldrei ákveðið mig.
Ég keypti Bónus brauð um daginn og var bara helvíti ánægð með það, fann beisiklí engan mun á því og Heimilisbrauðinu, nema hvað að 2 dögum seinna ætlaði ég að fá mér meira og þá var það svo myglað að það hefði getað labbað uppúr skúffunni. Heimilisbrauðið dugar út vikuna. Þá er mér spurn, eru Bónusbrauðin þá bara gömul Heimilisbrauð?
Aldrei að vita!
Mér fannst mjög skrítið að hafa ekki fengið nein komment á slef lýsingar mínar. Veit reyndar ekki hvort að trúlofaði gaurinn sé búinn að sjá þetta.
Ég er núna að vinna að uppáhaldstegund minni af eldamennsku og þið sjáið það annað hvort á morgun eða næsta föstudag í mogganum, mmmm.......
Stutt hár eða ekki???
Hvað segið þið?

mánudagur, september 18, 2006

paprika eða grilluð paprika/Leiðrétting!

Ég tók eftir því í Fréttablaðinu að þar stóð að ætti að vera paprika í kartöflustöppunni en að sjálfsögðu á þar að vera grilluð paprika(afhýdd). Þar sem mér finnast hráar paprikur mesti viðbjóður í heimi, þegar maður bítur í hráa papriku erhún römm, sæt, beisk og leiðigjörn. Þegar þessi aumingjalegi vökvi spýtist upp í munninn á manni eins og slef úr manni sem maður hélt að væri góður kyssari en er svo massa lélegur og maður vill bara hætta, fara, beila, bless! O nei hráar paprikur fáið þið aldrei að sjá í minni matargerð og það er á hreinu. Hins vegar eru grillaðar paprikur svo unaðslega sætar og ljúfar, þær leika við munninn eins og virkilega góður kyssari og maður vill bara alls ekki að hann hætti, aldrei og jú kannski bara trúlofast honum!
Nóg um paprikur!
Ég fékk sem sagt fleiri verkefni bæði frá Mogganum og Nýju Lífi og er í skýjunum yfir því en hins vegar þá tók yfirmaðurinn minn ekki nógu vel í tilboðið mitt, ég bara skil ekki af hverju, ég meina hvaða yfirmaður hafnar svona tilboði, minni vinna og meira kaup, ég meina það sko, hver getur neitað! Annars kom ég með móttilboð um að lækka launin mín og hann sagðist ætla að skoða málið og ef að ég fengi ekki vinnu hjá honum þá gæti hann auðveldlega reddað mér vinnu annars staðar og ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, við reddum þessu, sagði kallinn!
Hann er greinilega ánægður með mig kallinn og er ég því í skýjunum nú í dag.
Ég fór áðan að leita að smá heimildum og fá hugmyndir og bara svona kveikja á uppskrifta heilanum mínum. Ég geri þetta iðulega þegar mig vantar hugmyndir að nýjum réttum, þá fer ég annað hvort á bókasafnið, í mitt bókasafn eða á netið og fer í gegnum hundruði uppskrifta og út úr því fæðast alltaf nýjar hugmyndir hjá mér að nýjum réttum. Þegar ég tala um bókasafnið og bókasafnið mitt eða mömmu er ég að sjálfsögðu að tala um matreiðslubækurnar.
Þannig að ég er komin á fullt með nýjar hugmyndir og nýja rétti það verður eitthvað spennandi annað hvort næsta föstudag eða þarnæsta.
Kannski verð ég líka komin með einhverja týpuklippingu næst þegar þið sjáið mig, það er aldrei að vita.
Best að hella sér í uppskriftagerð!

laugardagur, september 16, 2006

Morgunblaðið, Fréttablaðið og Nýtt Líf

Já það er allt að verða vitlaust hérna maður! Ég var sem sagt í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í gær og kem í október hefti Nýs Lífs. Ég var með veislu fyrir Árna Þór vin minn í gær og heppnaðist alveg rosalega vel og það var rosalega gaman.
Reyndi að ná í yfirmanninn í gær og í dag en án árangurs þannig að ég veit ekki enn hvernig verður með mig þegar við komum aftur út, en ég ætla ekkert að stressa mig á því.
Við kvödddum KogK í fyrradag með tárum, en þær verða reyndar styttra frá okkur þennan veturinn en síðustu þannig að kannski verður eitthvað um heimsóknir á milli, aldrei að vita!
Næst verður Ása kvödd líka með tárum! Allir á leið til London, það er greinilegt að þessi vinahópur verður ekki leiður á að ferðast og búa í öðrum löndum.
Annars er massa þreyta í stelpunni í dag og er ég mjög heppin að Hekla hefur fengið að leika við Hörð Sindra í allan dag mest megnis úti í garði, og svo smávegis niðri heima hjá Ólu og Gumma.
Sverrir er nefnilega að steggja Einar Sigurðsson vin sinn og verður líklegast í allt kvöld líka.
Góða Skemmtun Sverrir!

fimmtudagur, september 07, 2006

EKKI NÆLA ÞÉR Í VATNSBERA!

Þegar ég las Birtu í morgun og rak augun í stjörnuspána mína fyrir daginn stóð þetta orðrétt ,,Ekki næla þér í vatnsbera, þið eigið ekki vel saman. Tunglið togar á undarlegan hátt í fiska í vikunni sem þýðir að allt geti gerst og það þola vatnsberar ekki. Þeir vilja ekki láta toga í sig því þá halda þeir ekki vatni."
Já þá var nú gott að minn maður er vatnsberi,ha!

Annars stóð ég ráða-og hugmyndalaus fyrir framan ískápinn áðan í miklum hugleiðingum, einu sinni sem oftar. Af hverju verð ég að borða þegar ég verð svöng, ég er komin með nett leið á því að borða og langar ekki í neitt sérstakt, af hverju er ég þá að fá mér að borða? Mig langar bara helst að sleppa því. Þetta er eins og að verða að fá sér kærasta vegna þess að maður er bara kominn á nippið, ég meina af hverju borðar maður ekki bara eitthvað sem er þess virði að borða og það sem mann virkilega langar í að borða??? Ég nenni þessu ekki lengur.... rútína Sigurrósar: stend fyrir framan ísskápinn, svöng að sjálfsögðu, og glápi á allt sem til er og langar ekki í neitt en þar sem ég er að ,deyja úr hungri' verð ég að fá mér substitute og fæ mér þá samloku með osti.. borða hana með hálfum huga því að mig langaði barasta ekkert í hana og fæ svo sammara á eftir því að ,,oj ostur er svo ógeðslega fitandi''.
Ég er komin með aðra sýn á sjálfa mig allt í einu, ég held að ég sé eitthvað sick! Ímyndunarafl mitt er svo gríðarlegt. Ég sef nefnilega í ,,draumaherberginu'' núna þessa dagana en það er herbergi hjá mömmu og pabba sem mann dreymir eitthvað mikið á hverri nóttu og ég er bara komin með nóg af þessu ímyndunarafli mínu, algjört nóg! Þeir eru svo fokked up að ég bara get ekki farið með þá hér á þessari síðu!
Hekla mín er með Leikskólavörtur og við erum á þessum dögum að vinna í að taka þær af henni og gengur það mjög misjafnlega. Málið er að ég þarf að taka þetta af henni sjálf með einhverri græju,s em sagt kippa einni af á viku og eftir á fær hún ein verðlaun. Nema hvað að ég var að telja þær og þær eru 14 sem þýðir 14 vikur, sorry ég er ekki að fara að leggja þetta á barnið í 14 vikur þannig að í gær voru teknar 2 og 1 á þriðjudaginn og það gekk bara fínt í gær og ég held það hafi verið vegna þess að hún fékk glæsilega prinsessu inniskó, sem er líklegast mesti viðbjóður sem ég hef séð. Þetta er eitthvað sem ég keypti í Tiger eða Allt á 100 kall eða hvað sem þessi búð heitir og þeir eru svo harðir að, já þeir eru beisiklí úr hörðu plasti. En hún var alveg í skýjunum yfir þessu þannig að ég ætla að reyna að bæta mig í verðlaunakaupum héðan af. Sleikjóinn var greinilega ekki alveg að gera sig.
Ég var að lesa fáránlegustu veitingahúsagagnrýni sem ég hef lesið. Hún var í síðasta tölublaði Gestgjafans og ég held að eigandi staðarins hafi mútað gagnrýnanda. Málið var að þessi staður er á Húsavík og máltíðin var að mér fannst heldur dýr miðað við að gagnrýnandi sætti sig við PESTÓ ÚR KRUKKU,sem er by the way mesti viðbjóður og hann segir virkilega í greininni mjög sáttur innan sviga ,, enda nennir enginn að gera slíkt frá grunni)hvað er veitingahús að bjóða uppá svoleiðis? Fyrir veitingahús er örugglega ódýrara að vera með ferskt pestó þar sem það væri gert svo mikið af því og það tekur kokkinn svona ca.2 mínútur. Hvað er svona maður að gagnrýna spyr ég? Hann kann greinilega ekki að elda eða hefur aldrei unnið í eldhúsi!
'eg horfði á Hells kitchen í gærkvöldi, ég á greinlega ekki að horfa á þetta. Ég hélt að ég myndi halda með nemunum eða kokkunum í þessu tilfelli en endaði á því að halda geðveikt með Gordon Ramsey og næstum því öskra með honum á þessa ILLA sem greyið maðurinn var búinn að koma inn í eldhúsið hjá sér. Hvaða eldhúsum hefur þetta lið eiginlega unnið í, guð minn góður, aular bjánar og letihaugar sem svitna í matinn! Sko ef ég fer til USA einhvern tímann þá skal ég ávallt elda heima ef þetta er það sem er að vinna á fínu veitingahúsunum þarna úti. Eru einhverjar reglugerðir þarna sem standast EU standarda??? Eina manneskjan sem gat eitthvað þarna var einhver sem heitir Heather og á mér líklegast eftir að líka best við hana í framhaldinu, hehe sjáum hvernig fer. En ég kom sjálfri mér á óvart, er ég virkilega orðinn svona mikill kokkur?
Jæja best að fara og taka þvottinn, kallinn vantar nærbuxur.

miðvikudagur, september 06, 2006

Magnaður Magni? eða mögnuð þjóð?

Er það ekki spurningin í dag? Magni reyndar stendur sig helvíti vel þó að mér finnist að hann megi líta aðeins meira á áhorfendurna og hreyfa sig meira á sviðinu, án þess þó að gera eins og hinir þ.e. ofleika. Annars er ég stolt af Íslendingnum og Íslendingum sem standa greinilega saman!
Ég gerði matinn fyrir Nýtt Líf í gær og í dag var það Morgunblaðið, allt gekk mjög vel og maður bara rumpaði þessu af. Það voru líka teknar myndir af mér, ég tók mig voða fínt til í gær en mín var ekki alveg í stuði fyrir shower og hárblásun klukkan 7.00 í morgun þannig að ég skellti einhverju á feisið á mér og setti hárið í hátt tagl henti mér í bol af systur minni og brosti framan í myndavélina. Ég var reyndar ekki alveg með það á hreinu hvort að það yrði tekin mynd af mér fyrir Moggann þannig að ég var ekkert að stressa mig neitt rosalega á útlitinu, en svo kom í ljós að hann vildi hafa mig með þannig að ég verð bara að biðja og vona að ég hafi litið þokkalega út!
Þið getið sem sagt séð greinarnar eftir mig í Nýju Lífi í októberblaðinu en ég er ekki alveg með það á hreinu hvenær það kemur í Mogganum. Vonandi bráðlega þar sem ég er með snemmhaustsumarmat(hvernig fannst ykkur þetta orð???).
Annars sakna ég dóttur minnar alveg hreint hræðilega, hún nefnilega gisti úti á nesi í nótt þar sem ég þurfti að byrja að vinna í morgun klukkan 7.00. Ég er held ég komin með einhvers konar fóbíu eftir þetta ævintýri í Mílanó, ég fer í tómt rugl þegar Hekla er í pössun, eitthvað sem ég hef verið alveg einstaklega afslöppuð yfir hingað til.
æ hvað maður á eftir að sakna allra. Þetta verður erfiðara núna en nokkru sinni fyrr,þ.e að fara aftur út. Þó að okkur líði mjög vel þarna úti og allt alveg hreint yndislegt, þá finnst mér svo mikilvægt að Hekla kynnist fjölskyldunni sinni. Þegar ég kemst í þennan ham þá reyni ég alltaf að hugsa til Hrafnhildar og Sóleyjar því að þær voru úti til 5 ára aldurs(þ.e.Sóley og Hrafnhildur þá 3ja) vonandi fer ég með rétt mál. Ekki var þeirra samband við ömmu og afa eða skyldmenni sín neitt minna en hjá okkur hinum! Er það ekki rétt hjá mér, stelpur?
Ég held að ég fari og sæki Heklu mína snemma í dag og fari með hana í sund.
Ég var að fá aðra veislu, líst mjög vel á hana, það er hjá Árna Þór vini mínum, það verður gaman.
Ég fékk smá sjokk yfir forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag, sem segir frá lítilli stelpu sem fékk mikil brunasár eftir vatn úr krana heima hjá sér. Ég vil núna að mamma og pabbi fái einhvers konar vörn fyrir þessu. Það munaði mjóu um daginn þegar Hekla var í baði og allt í einu var skrúfað frá heita krananum með sjóðandi vatni og beint á lærið á Heklu, sem betur fer var hún fljót á sér og fór ofan í baðið þannig að ekkert alvarlegt gerðist en hún fann til í smá tíma eftir á. Hræðilegt þegar svona gerist.
Mikið ofboðslega er gott og endurnærandi að fara í göngutúr uppá Valhúsahæð eða í fjörunni þar sem engin umhverfishljóð eru, alveg hreint unaðslegt.
En nú ætla ég að leggja mig því að ég vaknaði allt of snemma, finnst ykkur ekki!?

mánudagur, september 04, 2006

Hugsið ykkur hvað lífið væri ljúft ef kryddjurtir væru ódýrar!!

Ég fór í morgun og ætlaði að fá vinnu hjá Fíton í eldhúsinu, bara í þennan mánuð sem ég er á landinu en komst að því að þeir ætluðu að borga mér frekar lítið og ég barasta gat ekki tekið þeim launum sem þau buðu mér, I'm getting expensive! Eða svona þannig ég er bara lærð og verktaki þannig að þetta var ekki hægt fyrir mig. En ég er að sjálfsögðu með massívt samviskubit yfir að segja nei við vinnu, hvað er það eiginlega???? Af hverju fæ ég alltaf sammara yfir að segja nei við einhverri vinnu sem mér býðst??? Algjör hálfviti!
Ég er núna á fullu aðundibúa 2 greinar sem ég á að skila í vikunni og svo líka veislan sem verður haldin í Keflavík fyrir vini pabba. Þannig að ég þarf svo sem ekki að vera með neitt samviskubit yfir að hafa sagt nei við Fíton.
Var að prófa soldið mjög fyndið, það verður gaman að sjá hvernig fólki finnst sá réttur vera það er brasserað saltkjöt. Það er nefnilega til klassískur danskur réttur sem er með léttsöltuðum svínaskönkum og það var einn af bestu réttum sem ég hef smakkað, nema hvað að íslenska saltkjötið er soldið mikið saltað og er lambakjöt þar að auki en sjáum hvort þetta verði ekki bara gott.
Ég fór á fyllerí fimmtudag,föstudag og laugardag! Ég er ekki í lagi!
Við fórum í mat til Guðbjargar og Bigga á fimmtudaginn og skemmtum okkur rosalega vel. Á föstudeginum fór ég með konunum í fjölskyldu Sverris og þar var ekkert smá mikið stuð maður. Takk stelpur!
Á laugardeginum var humarveisla hjá tengdó og alveg hreint geggjaður humar var í gangi og svo á eftir fórum við heim til Ernu og hittum þar Ernu,Kötu og Kristínu og Ásu og drukkum alveg hreint endalaust og spjölluðum og skemmtum okkur langt fram á nótt, alveg geggjað gaman. Takk stelpur!
Var að fá aðra veislu sjáum á morgun hvort við komumst ekki að einhverju skemmtilegu launasamkomulagi ;-)
Gaman gaman að hafa svona mikið að gera,,, jesss....

sunnudagur, ágúst 27, 2006

ahh mömmur(sagt í mæðutón)

Hvað gerir maður án þeirra og hvernig í ósköpunum á maður að þola afskiptasemi þeirra???

að öðru:

Brúðkaup aldarinnar var haldið á laugardaginn og öll jákvæðustu orð sem til eru um það passa eins og flís við rass.(hálfasnaleg setning, kannski).
Kata og Kristín gengu í hjónaband og þær voru svo fallegar og athöfnin svo falleg að ég grét vandræðalega mikið í kirkjunni. Ég gleymdi tissjúi þannig að hor, tár og slef lak niður kinnar mínar óáreytt og rústaði svona skemmtilega klukkustundar meikupi! Mér var alveg drullusama ,þetta var eitthvað það fallegasta sem ég hef séð. þær voru svo uppábúnar og í alveg ótrúlega fallegum kjólum og í gullháæluðum skóm og svo ótrúlega hamingjusamar.
Svo kom að veislunni. Ég sá um matinn og hann heppnaðist alveg hreint ótrúlega vel og var nóg af öllu og meira en það. Bára vinkona frá Mílanó sá um þjónustuna með tveimur unglingsstúlkum og stóðu þær sig ágætlega en Bára þó frábærlega. Þarna voru 76 manns og allir alveg hreint einstaklega skemmtilegir. Athyglisjúkt fólk að sjálfsögðu og ræðurnar voru margar en hver annarri skemmtilegri. þarna voru framdir skemmtilegir gjörningar og dansatriði og eins og ég segi, hvert öðru skemmtilegra. Þegar maturinn var búinn tók við dýrindis kaka og kaffi. Vel var veitt af víni og bjór og gat maður því drukkið eins og mann lysti. Eftir kökuna tók við dansiball með Geysi í fararbroddi og stýrði hann dansi frábærlega. Ég dansaði og dansaði og drakk og drakk þangað til það komst ekki meiri bjór ofan í vömbina mína. Þannig að mín bara fór inná klósett og losaði aðeins uppúr vömbinni en skipti þó samt sem áður út bjórnum fyrir vatn. Þannig að maður var nú ekki dansandi uppá borðum eins og ég bjóst nú við af mér. Maður er orðinn svo dannaður eitthvað!
Við dönsuðum fram á rauða nótt(eða til 2) og löbbuðum svo í bæinn sem þýddi það að ég var að sjálfsögðu svoleiðis að drepast í tánum, þar sem ofurölvun kom ekki í veg fyrir að ég fyndi fyrir þeim eins og vaninn er(eða svona nokkurn veginn). Þannig að við drifum okkur bara heim í ból. Ég vaknaði svo klukkan 11.30 til að koma mér upp í sal og taka saman afganga og diska og föt og þakka Díu og Oddi fyrir frábæra veislu, ég gat ekki þakkað móður hinnar brúðurinnar þar sem hún var ekki á staðnum.
Mér líður alveg rosalega vel eftir þessa veislu, hún var svo skemmtileg að hún vermir mitt hjarta og ég ætla ekki að vera í vondu skapi dag þó að Frú Morgunsól hafi reynt að rústa deginum, henni mun ekki takast það!!!
Við fórum í sund í gær systur, makar og börn í Hveragerðislaugina, mmm... alveg hreinn unaður þessi laug, það var meira að segja frítt inn; ,Blómadagur í dag' sagði afgreiðslustúlkan.

Ég var rétt í þessu að fá símtal frá ritstjóra Nýs Lífs og hún var að bjóða mér að vera með matarþáttinn í október!!!!! Ég er ekkert smá ánægð! Ég fæ algerlega að ráða þema og öllu alveg geggjað! Smá peningur, alltaf gaman að fá svoleiðis.
Best að hringja í Morgunblaðið og sjá hvað þær segja.

Ég var soldið mikið morkin í morgun þegar ég fór með Heklu í leikskólann, var nýskriðin úr rúminu með stýrur í augunum og í skíðaúlpunni hans Sverris, hitti ég ekki fyrrverandi kærasta minn hann Ingva, þá er hann með barnið/börnin sín á leikskólanum líka. Sko nú hefur þetta gerst tvisvar sinnum og í bæði skiptin var ég alveg hreint einstaklega morkin. Ég ætla að fara að hætta þessu og koma mér í að setja á mig maskarann á morgnana, tja eða kannski byrja á því að taka gamla maskarann af mér er það ekki góður staður???