miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Brasseraður kjúklingur með sveppum og beikoni

Mér finnst svo gott að brassera að ég er alveg hætt að setja það fyrir mig að það getur verið svolítið maus, tja fyrir suma ekki alla. Þegar kjúklingurinn er brasseraður á þennan hátt er best að vera með kjúkling með beinum, þ.e.a.s. bringur eru ekki besti kosturinn hér. Ég notaði heilan kjúkling og skar hann í bita en það var ódýrast, þó er auðvitað hægt að auðvelda sér starfið og kaupa kjúkling í bitum. Í þennan rétt er líka mjög gott að stökksteikja nokkrar beikonsneiðar til að bera fram með.

Brasseraður kjúklingur með sveppum og beikoni
f/4-6

1 kjúklingur um 1200 gr
3 gulrætur, skornar í bita(ca 1 cm)
4 meðalstórar kartöflur á mann, skornar í jafnstóra bita og hitt grænmetið eða örlítið stærri
1/4 partur af sellerírót eða 1 steinseljurót, skorinn í jafnstóra bita og gulrótin
1 1/2 laukur, sneiddur þunnt
1 hvítlaukshaus, skorinn til helminga
1 búnt af timían, jafnþykkt og flöskustútur
1 tsk piparkorn
9 beikonsneiðar
200 gr sveppir
250 ml hvítvín(úr beljunni góðu sem ég á ennþá eftir 4 vikur)
1 ltr vatn
1 kjúklingakraftsteningur
1 1/2 msk tómatpaste
smjör
hveiti

Aðferð:
1. steikið 3 beikonsneiðar og takið af pönnunni
2. Skerið og steikið grænmetið upp úr beikonfitunni þar til það fær fallega brúnan lit á sig og setjið í ofnfastan pott
3. Skerið og steikið kjúklinginn þar til hann fær á sig góðan og fallega brúnan lit
4. Setjið í pottinn með grænmetinu og beikoninu
5. Hellið hvítvíninu í pönnuna og látið sjóða niður um 30 prósent, ca 4 mín á fullu blússi og skrapið af pönnunni á meðan alla steikarskóf og blandið saman við hvítvínið.
6. Hellið í pottinn ásamt vatninu(það á að hylja að mestu allt saman)
7. Bætið öllu kryddi og tómarpaste-i. Lokið pottinum og setjið í ofn við 200°C í klukkustund
8. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er búin til smjörbolla úr 50 gr smjöri og svipuðu magni af hveiti og hún látin bakast örlítið í pottinum, hrært vel saman þar til myndast bolla.
9. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er allt tekið úr pottinum og sett í eldfast mót og álpappír settur yfir og inn í ofn til að halda hitanum í því, kryddinu hent og soðið sigtað í pott og látið sjóða niður um 30-40% á fullu blússi.
10. Sósan þykkt og allt saman borið fram. Athugið að hægt er að sleppa því að þykkja sósuna og láta hana þá sjóða aðeins lengur niður, en þá ætti hún að þykkjast örlítið. Ég veit það líka að margir eru hræddir við smjörbolluna og þá er alveg í lagi að nota maísenamjöl.