þriðjudagur, janúar 30, 2007

Handbolti, er það synd að þola'nn ekki?

Ég hef gert unaðslegan mat síðustu 2 kvöld og í bæði skiptin hefur þessi yndislegi handbolti eyðilagt stemninguna gersamlega! Aðallega samt í gærkvöldi. Ekki alveg það sem ég hafði í huga þegar ég var að leggja mig alla fram við matseldina, að eiginmaður minn myndi ignora mig gersamlega við matarborðið og aðeins pirra sig á handbolta! VIÐ MATARBORÐIÐ! Er það þetta sem gerist þegar maður giftir sig?
kvöldmatur 1:
INdverkskur Kóríander kjúklingur frá Kerala héraðinu, beint frá indversku heimili. með basmati hrísgrjónum og naan brauði

Kvöldmatur 2:

Gulrótar- og kartöflupönnukökur með indversku grænmeti og
gulrótar- og kartöflupönnukökur með villisveppum, sherry og geitaosti

Borið fram með fersku salati

Þetta var hvoru tveggja svo hrikalega gott, ég er ennþá slefandi.

Í kóríander kjúklingaréttinum voru karrýlauf, ég hef aldrei notað það áður þannig að ég fór á netið til að afla mér upplýsinga um þetta fyrirbæri og þar lenti ég aðallega á breskum og amerískum síðum og þar var mikið talað um að það væri mjög erfitt að ná í þessi lauf og það kæmi ekkert í staðinn fyrir þau og þess vegna væru þau mjög dýr. Ég fór að hafa áhyggjur af þessu og ákvað að fara hér í hinn svokallaða ,ethnic market' og viti menn þegar ég bað tortryggin um þessi lauf kom hann með þau með bros á vör og sagði 0,50 cent. HALLÓ ég fékk áfall, en svo þurfti ég að kaupa ansi mikið hjá honum til viðbótar og allt saman kostaði þetta 10 evrur, annað áfall. En svo fór ég að hugsa.. því miður eru þessir Ítalir svo hrikalega íhaldsamir í matargerð og reyna ekki einu sinni við svona matargerð og þess vegna er lítil eftirspurn eftir þessum vörum og þar af leiðandi lágt verð. Ég hálf vorkenni Ítölunum að vera svona, þeir eru að missa af svo miklu. Það er ekki gott að halda því alltaf fram að sitt sé það besta og ekkert annað komist nálægt því nokkurn tímann, þá verður aldrei nein framför.
Ég held að ég hafi oftar svona mat því að hann er svo ódýr.
Ég held að ég fari líka að leggja meira í matargerð og búa til fleiri uppskriftir eins og í gær, það var mjög skemmtilegt og maður þarf alltaf á nýjum uppskriftum að halda ekki satt??

sunnudagur, janúar 28, 2007

Tikka masala

Ég fékk beiðni um Tikka masala hér í kommentunum og að sjálfsögðu fékk hún svar innan 24 tíma um hvað það er og uppskrift fylgdi, að þessu sinni var það innan 24 tíma en það var vegna þess að það er helgi, venjulega liggur ekki á svari.
Ef þið eruð í vanda með eitthvað bara spyrja og ég svara um hæl, elskurnar mínar.

Annars átti að vera bílalaus dagur í dag en það voru svo margir svindlarar að það mátti varla sjá mun. Venjulega er borgin eins og draugaborg en ekki í þetta skiptið. Það var heldur ekkert að gerast á Buenos Aires þannig að ég og Hekla fórum netta fíluferð þangað. En við höfðum þá bara samband við Gunna og Höllu Báru og fórum í heimsókn til þeirra og eyddum deginum með þeim. Hekla og Lea skemmtu sér konunglega og við líka í fullorðinsspjalli og að sjálfsögðu fylgdi smá mönsj með.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Kjúklingur

Ég fór í gær á markaðinn og viti menn þessir Ítalir ná að koma mér á óvart enn og aftur. Ég man ekki hvort ég sagði ykkur frá því að síðasta fimmtudag þegar ég fór á markaðinn, bað ég kjúklingamanninn um lítinn kjúkling,svona eins og þeir nota á grillin sín, hann sagðist vera búin að nota þá alla og að hann ætti bara ekki svona lítinn kjúkling fyrir mig, ég spurði hann þá hvort ég gæti fengið hjá honum ef ég kæmi snemma á fimmtudögum, hann játti því. Ég mætti því snemma í gær og viti menn þegar ég gekk framhjá kjúklingamanninum þá var kallað á mig ,, joia,joia! vieni vieni" og viti menn hann hélt á undurfögrum kjúkling fyrir mig sem hann var búinn að taka frá. Svona á þetta að vera !
Ég gerði svo Marbella kjúklinginn í gærkveldi, mmm hann er alltaf jafnunaðslega góður.
Þessar nýju innkaupaaðferðir eru að svínvirka, við erum búin að eyða miklu minni pening í mat síðustu 2 vikurnar en venjulega.
Eftir að Cherioosið kláraðist hafa morgnarnir verið mun erfiðari hjá okkur mæðgunum, Hekla tekur óratíma í að ákveða hvað hún vill borða og svo aftur óratíma í að koma því ofan í sig. Þannig að við höfum komið of seint í leikskólann alla vikuna.
Ef einhver vill senda okkur cherioos veit ég að Hekla verður mjög ánægð.

Fyndnasti þátturinn...

Reno911, tékkið á því, þeir sem geta...... Hrikalega fyndinn þáttur!

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Baah

Það átti að snjóa í gær eða í dag en ekkert gerist og enn er 10 stiga hiti og næstum því sól.

Sósuráð 1. :
Ef þið eruð búin að gera sósu, þ.e. þykkja hana og ennþá er fitubrák ofan á henni er mjög gott ráð að strá varlega hveiti yfir fitubrákina og leyfa fitunni að sjúga í sig hveitið, hrærið þá í sósunni og þynnið ef þörf er á.

Ef þið eruð í vandræðum með sósur þá er ég orðin eins konar sósusnilli eftir þetta nám mitt í Danmörku, þannig að just try me og ég get svarað!

Sverrir er ennþá á fullu í skólanum og ég byrja líklegast ekki í ítölskunni fyrr en 12.feb. þannig að það er svo sem ekkert nýtt að gerast hjá okkur.
Ég byrjaði í gær að efast um þolinmæði mína og hæfni til að fara aftur í háskóla, er allt í einu ekki svo viss um þetta allt saman. Það er ekkert grín að byrja í svona bóklegu námi þegar maður er svona langt frá að vera með tungumálið á hreinu. Í þessu er engin alþjóðleg algebra eða eldhúsmál heldur bara orð sem maður kann ekki!
Hekla fílar sig alltaf betur og betur í leikskólanum, það fer náttúrulega eftir tungumálakunnáttu hennar, eftir því sem hún lærir meira því skemmtilegra er að vera þarna.
Kíkið í Nýtt líf, er með mjög góðan mat þar.

sunnudagur, janúar 21, 2007

Ég man!

Ég man þegar ég var nýskriðin úr menntaskóla fyrir jú u.þ.b. 10 árum, þá sagði ég við hvern sem vildi heyra að ég myndi aldrei nenna að fara í læknisfræði því að það þýddi næstu 10 árin í námi! He..Viti menn er ég ekki bara búin að vera í næstum því 10 ár í námi????
Hver nennir að fara að vinna og þykjast vera fullorðin? Ekki ég að minnsta kosti! Það er svo notalegt að vera námi, bara skrifa ritgerðir og taka próf og svona og vera alltaf með peninga á milli handanna, alveg eins mikla peninga og maður vill! Maður getur notið lífsins með öllum þessum peningum sem bara fljóta inná bankareikinginn eins og ég veit ekki hvað.
Já það er sko gaman að lifa í vellystingum.

Annars eru gróðurhúsaáhrifin búin að vera að láta á sér kræla síðustu daga og þá sérstaklega á miðvikudaginn. Ekki virðist fólk kvarta yfir því að það sé 18-20 stiga hiti í janúar, fer bara upp í bílinn sinn og kveikir á loftkælingunni vegna þess að það nennir ekki að fara úr ullarpeysunni.
Reyndar á að snjóa verulega á næstu dögum, sjáum hvort grænu áhrifin taki yfir og sendi okkur hitabylgju í staðinn.
Á laugarsaginn var íbúðin þrifin hátt og lágt og Sverrir skúraði í fyrsta sinn og varð á orði að það hefði ALDREI verið svona vel skúrað hér! Vegna þess að sko fyrst skrúbbaði hann og svo skúraði yfir. Einmitt Sverrir minn, það er nákvæmlega eins og ég geri í hvert skipti sem ég skúra! Skemmtilegt hvernig karlmenn hugsa ekki satt, bara vegna þess að hann fann hvað það er mikið maus að skúra hér þá hefur bara aldrei verið eins vel skúrað!
Hann hélt upp á þetta með því að kaupa blóm til skreytingar.
Við fórum svo í gær með Jole og Piero í hjólreiðatúr um Mílanó og skoðuðum 2 kirkjur. Önnur þeirra er helguð Maríu mey og það var hefð hér áður fyrr að nýgiftar konur fóru þangað með blómvöndinn sinn og gáfu Maríu mey til að fá hjá henni blessun.
Eftir þá kirkju fórum við í aðra mun eldri og þar inni voru freskur sem rétt sáust því þær voru svo gamlar, mjög falleg kirkja. Þetta var líka mjög skemmtileg leið sem við fórum, við fórum frá miðbænum og upp að Naviglio og svo niður meðfram ánni.
Það er svo merkilegt að áin sem rennur í gegnum Mílanó er í rauninni ferskvatn sem kemst aldrei í samband við skolp. Þarna voru áður fyrr menn sem þvoðu þvottana og það eru ennþá steinar við bakkana sem voru notaðir til þess arna. Mílanó er í rauninni byggð á votlendi og voru áður fyrr fullt af litlum tjörnum og ám sem runnu í gegnum alla borgina. Enda eru nöfn margra gatna sem vísa til þessa. Það er svo gaman að fara með þeim í hjólreiðatúra um borgina, maður fær að vita svo mikið um staðinn sem maður býr, það gerir þetta allt saman svo miklu áhugaverðara.
Eftir hjólreiðatúrinn héldum við heim í stutt stopp, því eftir það fórum við aftur heim til þeirra í mat. Þar var á boðstólum hinn hefðbundni áramótaréttur frá Lombardia héraðinu, eða Zampone con lenticche. Það er í rauninni svínalappir, nema að það er tekin svínalöpp og allt kjöt og bein tekið úr án þess að eyðileggja skinnið, það er allt saman hakkað(fyrir utan bein) og saltað og búin til nokkurs konar spægipylsa og því er svo troðið aftur inn í löppina og svo er þetta látið liggja í bleyti í 24 tíma og eftir það soðið eða brasserað í 5 tíma. Með þessu er haft grænar linsubaunir sem eru brasseraðar líka og einnig er haft með svokallað Mostarda, en það eru ávextir sem er búið að elda í sinnepi, þeir halda lögun sinni fullkomlega en eru orðnir harðir og bragðið er sætt og sterkt. Þetta finnst mér vera alveg frábær matur, Sverrir er ekki alveg kominn inn á þetta, sérstaklega ekki þegar honum var boðin nöglin á svínslöppinni!
Sem sagt frábær dagur.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Það er gaman að ,,verða" að fara í búðir og kaupa!

Við fórum í dag og í gær í bæjarferð til þess að kaupa brúðargjafir. Þetta eru búnir að vera einstaklega skemmtilegir dagar!
Við fórum t.d. í dag á tvo staði sem við höfum lítið sem ekkert farið á áður og þar römbuðum við inn í verslun sem var alveg frábær, ég hefði helst viljað búa þar inni. Þar var allt til milli himins og jarðar. Eftir það fórum við svo í flottustu concept verslun sem ég hef séð á ævinni, enda var lítið þar inni sem var undir 100 evrum. Við fengum nefnilega tilvísun frá vinum okkar í Danmörku í þessa búð. Þarna inni var hægt að finna Malono Blahnik skó, jimmi cho og polo boli á 300 evrur og klikkaða skó,föt og svo var þar líka að finna flottustu víbradora sem ég hef séð,ok hef reyndar ekki séð þá marga, held ég hafi séð 2 með berum augum en hina í Sex and the City þáttunum, fróðlegir þættir það. Látum það liggja á milli hluta.
Þarna voru líka hrikalega flottir lampar og ótrúlega fallegir hlutir. Við enduðum á að kaupa handa okkur Georg Jensen hitamælissystem, sem okkur er búið að langa í lengi. Takk Andrea og Gaui, Tina og Gunni.
Það gerðist nú soldið skemmtilegt áðan, það var kona sem kallaði á mig ,,hey! Modella!" ég leit við þá lét hún sig hverfa inná kaffihús. Ég veit ekki alveg hvað vakti fyrir henni, ætla bara að láta mig dreyma.
Ég var að gera mér grein fyrir því að ég er búin að týna einni grein fyrir Nýtt Líf, mjög skemmtilegt, þarf að gera þetta allt aftur, jeij!
Var að kaupa alveg frábæran disk áðan hann er með mjög skemmtilegri spænskri stelpu sem heitir Bebe og diskurinn heitir Pafuera Telaranas. Mæli eindregið með honum!

sunnudagur, janúar 14, 2007

Það lítur út fyrir meiri skólagöngu!

Allavegana eins og dagurinn byrjaði lítur út fyrir að ég geti komið mér í skóla hér. Ég þarf náttúrulega fyrst að fara í undibúningsnám í ítölsku, og ég get fengið lán fyrir því.
Þetta þýðir líka að við verðum þá að öllum líkindum heima í sumar til að vinna fyrir peningum. Þannig að ef þið eruð að fara að halda veislu í sumar, þá get ég verið kokkurinn ykkar! Látið orðið berast börnin góð!

Ég gerði dýrindismáltíð í gær á ca. 30 mínútum.
Grænmetis frittata

100 gr laukur
100 gr fennel
100 gr gulrætur
100 gr kartöflur
100 gr paprika
5 msk tómatar úr dós(eða einhvers konar tómatsósa úr krukku)

6 egg
3 msk mjólk
salt og pipar

ostur(má sleppa)

Grænmetið er skorið í mjög litla bita. Vatn sett í djúpan pott ásamt 1 msk salt, suðan látin koma upp. grænmetið sett útí og látið sjóða í nokkrar mínútur, eða þar til næstum meyrt(taka bara einn bita og smakka).Þá er það tekið upp úr eða hellt í sigti og látið kalt vatn renna á það í nokkrar mín.
Eggin eru hrærð saman og söltuð og pipruð ásamt mjólkinni.
smjörklípa sett á 2 pönnur og látið bráðna þá er grænmetið sett á aðra þeirra og steikt þar til tilbúið þá er tómatsósunni bætt útí og saltað og piprað.
Þá eru eggin sett á pönnuna og skafinn aðeins botninn til að brenni ekki botninn. þegar hún er alveg að vera tilbúin þá eru ostsneiðar settar útá og sett undir grillið í 2 mínútur eða þar til fer að bólgna og taka smá lit. þá er eggjakakan tekin út og grænmetið sett útá.
Berið fram með fersku salati.

Fyrirgefið krakkar stundum er bara þörfin til að búa til og skrifa nýja uppskrift of sterk. Þannig að ég verð að setja hana hér inn.

Að öðru.
Hekla er svo fyndin þessa dagana.... hún er núna alltaf að segja mér hvernig kúkurinn er sem hún kúkar. T.d. var einn í gær eins og stjarna???? Endilega segið mér hvernig það getur verið og hvort þetta sé möguleiki.

Hún segir okkur líka á hverjum degi hvað hana dreymdi. Þetta eru allt saman svo yndislega krúttulegir draumar, svo saklausir eitthvað. Ekki svona afbakaðir og klikkaðir eins og hjá okkur fullorðna fólkinu...... eða er það kannski bara ég ????'

Ég ætlaði að sofa út í morgun þar sem Hekla fór seint að sofa í gærkvöldi þá hélt ég að hún myndi sofa til 9.00 þannig að þegar klukkan hringdi þá sagði ég við Sverri að læðast því að ég ætlaði að leyfa okkur mæðgunum að sofa. Nei nei viti menn stúlkan vaknaði 8.07 sem þýddi að við vorum orðnar of seinar í leiksólann og gátum heldur ekki sofið út. Frekar lásí tilraun!

Það er svo yndislegt veður hér dag eftir dag, þannig að í gær fór ég með Heklu í garðinn okkar á hlaupahjólið nýja og skemmtum okkur mjög vel. Eftir það hittum við svo Gunna og Höllu Báru og co. í garðinum niðrí bæ. Þar gátu stúlkurnar leikið sér saman og við spjallað um daginn og veginn. Þær fengu líka að fara á hestbak, skemmtu sér mjög vel.
Síðan kom Simona að hitta okkur líka, en þá þurftu hin að fara heim þannig að ég, Simona og Hekla fórum og fengum okkur heitt kakó og spjölluðum um brúðkaup, erfiðleika sem ungir Ítalir þurfa að ganga í gegnum og barneignir.

P.s brúðkaup á Ítalíu kosta u.þ.b. 5 milljónir!
gestir eru að meðal tali 400

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Getraun!

Hvað borgaði Sigurrós fyrir þetta allt saman á markaðnum í dag?

Ómennsk?

Ég held að Ítalirnir telji mig vera ómennska þar sem ég er frá Íslandi. Í hvert skipti sem þeir koma til mín(sem vita að ég er íslensk) og segja,,brrr.. hvað það er kalt í dag" þá enda þeir iðulega setninguna ,, he, en þér er nú örugglega ekkert kalt, er það nokkuð?"
Nei einmitt mér er ekkert kalt vegna þess að í mér rennur kalt blóð! Hvað halda þeir eignilega að við séum??? Af því að við komum frá köldu landi, lengst í norðri þá finnum við ekki fyrir kulda??? Mjög lógískt ekki satt???

Ég er komin með mjög almennilega og vingjarnlega kunningjakonu hér. Hún er japönsk og á son í sama bekk og Hekla. Við sitjum oft soldið utangátta frá hinum ítölsku mæðrum þar sem þær eru mjög gamlar og mjög hallærislegar og viljum við flotta fólkið helst ekki láta sjá okkur með slíku fólki. Þannig að við sitjum og reynum að rembast við að halda uppi samræðum á ítölsku þar sem hún kann enga ensku. Þetta eru mjög skemmtilegar samræður með miklum villum en við erum báðar allar af vilja gerðar þannig að við skiljum hvor aðra bara ágætlega.
Mjög fyndið t.d. áðan sagði hún mér að maðurinn hennar hafi sagt við hana einn daginn að honum fyndist ég vera mjög falleg og að þau ættu að reyna að vingast við mig. Svo hló hún eins og vitleysingur á eftir og ég líka svo eftir ca.2 mínútur var eins og hún hafi séð eftir þessu og sagði í sífellu ,,Top secret, top secret" svo hló hún en frekar vandræðalega í þetta skiptið. En mér var svo sem sama og hló bara hjartanlega þannig að hún slakaði á. Hún er mesta dúllan.
Við erum að reyna að breyta innkaupum hjá okkur þannig að ég fór í mercato communale sem er hér rétt hjá og það munaði svo hrikalega miklu í verði að ég fékk hálfgert sjokk þegar hún sagði mér að allt sem ég keypti kostaði aðeins 39 evrur, full karfa! Miðað við að við fórum í Supermarkaðinn hér daginn eftir að við komum og keyptum fyrir 60 evrur og ísskápurinn var tómur eftir það og við bara horfðum á hvort annað og spurðum ,, hvað keyptum við eiginlega?". Þá ákvað ég að nú væri nóg komið af spreði og svínaríi og fór í ódýra markaðinn, beisiklí eins og Bónus nema 100 sinnum minna úrval. Þá fór ég á markaðinn í dag og ég ætla að láta fylgja hér mynd og getraun um kaupin mín þar.
Góða skemmtun!

mánudagur, janúar 08, 2007

sunnudagur, janúar 07, 2007

Búðkaup!

Við héldum brúðkaup okkar þ.30.Des. og það var fullkomið í alla staði. Nákvæmlega eins og ég hefði viljað hafa það og meira en það. Við fengum ómetanlega hjálp við þetta allt saman og viljum við þakka öllum sem komu að þessu. Takk Takk Takk Takk!
Við giftum okkur í neskirkju eins og flestir sem lesa þessa síðu vita og þar voru haldnir frábærir tónleikar og presturinn var í meira lagi frábær. Við skemmtum okkur mjög vel þar og allir tónlistarmenn stóðu sig frábærlega. Takk Kristín,Sindri, Orri, Hössi,Baddi og Halli!
Þá tók við veislan sem var hreint út sagt frábær, maturinn geggjaður, fólkið æðislegt og tónlistin geggjuð. Það var sko mikið drukkið, etið og dansað í þessari veislu! Frábært partý!

Maður er núna rétt að vakna úr dái. Það var svo mikið að gera hjá okkur fyrst í kringum brúðkaupið og svo eftir brúðkaupið vorum við með Ítalina og að reyna að ganga frá öllu. Ég náði að gera 2 þætti fyrir Nýtt Líf en mér tókst ekki að troða inn grein fyrir Moggann í þetta skiptið:( en vonandi get ég gert eitthvað seinna. Við vorum svoleiðis á hvolfi allan tímann! Okkur tókst t.d ekki að setjast upp í sófa og horfa á eins og einn þátt í sjónvarpinu allan tímann. En maður grætur það nú ekki, sérstaklega í ljósi þess hve skemmtileg dvölin var.

Það var mjög fyndið að fylgjast með Ítölunum í öllu þessu kjötáti. Þau voru alltaf að drepast í maganum greyin og við vorkenndum þeim svo mikið að í hvert skipti buðum við þeim meira kjöt og öskruðum upp í eyrun á þeim ,,ERUÐ ÞIÐ EKKI VÍKINGAR, HA?HA?HA?" og settum upp mikinn grimmdarsvip með kreppta hnefa.
Það var meira að segja einn daginn sem annar Ítalinn kom og sagði við mig ,, úff ég er alveg að drepast í maganum, ég held að ég hafi borðað of mikinn pipar" Ég hélt ég myndi deyja úr hlátri, þvílíkar veimiltítur(og þetta var karlmaðurinn!), og að sjálfsögðu sá mikið eftir því að hafa piprað laxinn svona mikið, EINMITT!
Þetta voru að öðru leyti hið yndælasta fólk og ef að ég og Sverrir getum massað ítölskuna meira þá held ég að við gætum átt þau sem ævilanga vini, þessar elskur. Býst reyndar ekki við því að þau(eða við) eigi eftir að borða meira kjöt í bráð.

Ég eyddi morgninum í að leita að skóla hér í borg. Ég er búin að finna einn en hann er svona í dýrasta lagi, þ.e. ef að ég fæ ekki að koma inn eins og venjulegur evrópubúi, ekki í Evrópusambandinu. Næ ekki í þá til að fá að vita hvort það er í lagi. Held áfram að reyna í dag.
Sverrir er kominn á fullt í skólanum.

Sverrir var mjög gáfaður í gærkvöldi þegar hann var að stilla klukkuna sína, hann var ennþá með á íslenska tímanum þannig að við vöknuðum klukkutíma of seint sem þýddi að ég þurfti að keyra hann í skólan, sem var svo sem í lagi, en hins vegar komst Hekla ekki í leikskólann. Fer með hana á morgun og ég býst við því að ég þurfi að byrja aftur með hana í aðlögun, eins og vanalega eftir frí hjá okkur.

Ferðalagið heim var langt en auðvelt þar sem ég á yndælustu stelpu í heimi. Hún lék sér mestallan tímann á leiðinni til London og svo á leiðinni til Mílanó svaf hún alla leiðina. mig langar nú ekkert sérstaklega að ferðast með Ryanair aftur þar sem þetta er allt saman hið óþægilegasta. Búið að lækka kílóafjöldann og sætin hræðileg, en það er samt kílóafjöldinn sem er mest böggandi. Það má bara vera 1 handtaska 10 kg og 1 ferðataska 15 kg á mann. Sem þýðir fyrir fjölskyldur fleiri töskur en færri kíló, skemmtilegt ha!? Við vorum sem sagt með 6 töskur og ein þeirra,stóra taskan, er 7 kg ein og sér þannig að hún var beisiklí tóm!
Við náðum að taka með okkur eitthvað af brúðargjöfunum OKKAR og svo fengum VIÐ draumagjöfina OKKAR þegar við komum heim....Kitchen Aid vél. Við fengum líka ísgerðarskál í það og pastvél og svo miklu miklu fleira Allar hver annarri flottari. Gestabókin var líka alveg hreint frábær. Fyrstu gestirnir sem skrifuðu í hana skrifuðu allt mjög pent og fínt, bara nafnið sitt og svona og svo var það frekar greinilegt þegar leið á kvöldið að fólk var aðeins komið í glas og ég get svarið það ég er hætt að vera með komplexa yfir lélegri skrift, allt sem var skrifað var mjög skemmtilegt og eiginlega, næstum því óskiljanlegt. Mjög fyndið.
Takk allir fyrir að gera þetta svona yndislega skemmtilegt!
Það er greinilegt að við eigum bestu og skemmtilegustu vini og fjölskyldu í öllum heiminum!