Ég man þegar ég var nýskriðin úr menntaskóla fyrir jú u.þ.b. 10 árum, þá sagði ég við hvern sem vildi heyra að ég myndi aldrei nenna að fara í læknisfræði því að það þýddi næstu 10 árin í námi! He..Viti menn er ég ekki bara búin að vera í næstum því 10 ár í námi????
Hver nennir að fara að vinna og þykjast vera fullorðin? Ekki ég að minnsta kosti! Það er svo notalegt að vera námi, bara skrifa ritgerðir og taka próf og svona og vera alltaf með peninga á milli handanna, alveg eins mikla peninga og maður vill! Maður getur notið lífsins með öllum þessum peningum sem bara fljóta inná bankareikinginn eins og ég veit ekki hvað.
Já það er sko gaman að lifa í vellystingum.
Annars eru gróðurhúsaáhrifin búin að vera að láta á sér kræla síðustu daga og þá sérstaklega á miðvikudaginn. Ekki virðist fólk kvarta yfir því að það sé 18-20 stiga hiti í janúar, fer bara upp í bílinn sinn og kveikir á loftkælingunni vegna þess að það nennir ekki að fara úr ullarpeysunni.
Reyndar á að snjóa verulega á næstu dögum, sjáum hvort grænu áhrifin taki yfir og sendi okkur hitabylgju í staðinn.
Á laugarsaginn var íbúðin þrifin hátt og lágt og Sverrir skúraði í fyrsta sinn og varð á orði að það hefði ALDREI verið svona vel skúrað hér! Vegna þess að sko fyrst skrúbbaði hann og svo skúraði yfir. Einmitt Sverrir minn, það er nákvæmlega eins og ég geri í hvert skipti sem ég skúra! Skemmtilegt hvernig karlmenn hugsa ekki satt, bara vegna þess að hann fann hvað það er mikið maus að skúra hér þá hefur bara aldrei verið eins vel skúrað!
Hann hélt upp á þetta með því að kaupa blóm til skreytingar.
Við fórum svo í gær með Jole og Piero í hjólreiðatúr um Mílanó og skoðuðum 2 kirkjur. Önnur þeirra er helguð Maríu mey og það var hefð hér áður fyrr að nýgiftar konur fóru þangað með blómvöndinn sinn og gáfu Maríu mey til að fá hjá henni blessun.
Eftir þá kirkju fórum við í aðra mun eldri og þar inni voru freskur sem rétt sáust því þær voru svo gamlar, mjög falleg kirkja. Þetta var líka mjög skemmtileg leið sem við fórum, við fórum frá miðbænum og upp að Naviglio og svo niður meðfram ánni.
Það er svo merkilegt að áin sem rennur í gegnum Mílanó er í rauninni ferskvatn sem kemst aldrei í samband við skolp. Þarna voru áður fyrr menn sem þvoðu þvottana og það eru ennþá steinar við bakkana sem voru notaðir til þess arna. Mílanó er í rauninni byggð á votlendi og voru áður fyrr fullt af litlum tjörnum og ám sem runnu í gegnum alla borgina. Enda eru nöfn margra gatna sem vísa til þessa. Það er svo gaman að fara með þeim í hjólreiðatúra um borgina, maður fær að vita svo mikið um staðinn sem maður býr, það gerir þetta allt saman svo miklu áhugaverðara.
Eftir hjólreiðatúrinn héldum við heim í stutt stopp, því eftir það fórum við aftur heim til þeirra í mat. Þar var á boðstólum hinn hefðbundni áramótaréttur frá Lombardia héraðinu, eða Zampone con lenticche. Það er í rauninni svínalappir, nema að það er tekin svínalöpp og allt kjöt og bein tekið úr án þess að eyðileggja skinnið, það er allt saman hakkað(fyrir utan bein) og saltað og búin til nokkurs konar spægipylsa og því er svo troðið aftur inn í löppina og svo er þetta látið liggja í bleyti í 24 tíma og eftir það soðið eða brasserað í 5 tíma. Með þessu er haft grænar linsubaunir sem eru brasseraðar líka og einnig er haft með svokallað Mostarda, en það eru ávextir sem er búið að elda í sinnepi, þeir halda lögun sinni fullkomlega en eru orðnir harðir og bragðið er sætt og sterkt. Þetta finnst mér vera alveg frábær matur, Sverrir er ekki alveg kominn inn á þetta, sérstaklega ekki þegar honum var boðin nöglin á svínslöppinni!
Sem sagt frábær dagur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
mmmmm hljómar girnilega, sérstaklega þetta með nöglina.
hehehe, þetta er í alvörunni mjög gott ;)
hey skvís, mátti til með að senda á þig línu til að láta þig vita af því hvað litla systir hefur lært mikið af þér þrátt fyrir hvað þú heldur;) ´þá er ég að vísa í kokkanámið þitt úti í DK þar sem þú varst á milljón að læra fyrir prófið og alltaf að brasa franskan mat. Um helgina fórum ég og Naldi í sumó og elduðum þessa dýrindis önd að frönskum hætti, hún heppnaðist líka svona endalaust vel og það þakka ég nokkrum tipsum frá þér í gegnum tíðina!! td. með hveitið útaf fitulaginu í sósunni... snilldarráð!
knús, Þorgerður
Anytime darling!
ha hveiti hvað? Deila ráðinu takk. Pant ekki borða þennan rétt hjá þér sem er hér fyrir ofan.
Skrifa ummæli