laugardagur, maí 26, 2007

Ítalskt hveiti!!

Er ekki alveg að gera sig í kökubakstri!! Þetta helvíti er bara gert fyrir pasta og þurrar kökur, alltof sterkt helvíti. Nú er ég að baka brauð fyrir veisluna á þriðjudaginn og það er ekki næstum því eins gott og heima á Íslandi. Ég get svarið það ég held að við séum alveg hreint svakalega heppin með hráefni heima. Það eru bara til svo hormónainspíttar paprikur hérna að það hálfa og chillipiparinn er eins og paprika og ekkert bragð af honum. Ég er alveg að fá nóg af þessu! Hvernig á maður að gera almennilegan mat þegar maður hefur úr svona rugli að velja. Kjúklingurinn er eins og hænur, það er bara til ein tegund af hveiti, það er ekki hægt að fá lyftiduft(nema hjá kínverjunum), það er bara til ein tegund af frosnum berjum og það eru blönduð skógarber, það er svo takmarkað úvalið af öllu hérna að það hálfa væri nóg!!!
Það var t.d. bara til ein tegund af litlum rækjum í frostinu og þær voru með görninni í!
GRRR....
Þetta blessast náttúrulega allt saman þar sem liðið veit ekki betur og þeim á eftir að finnast þetta vera hið mesta góðgæti, ég er viss um það!!
Annars rignir hjá okkur í dag og ég verð að segja að ég er guðs lifandi fegin þar sem þá kólnar aðeins, það er búið að vera 28 stiga hiti hérna inni í íbúðinni og 35+ úti í ansi marga daga, maður var alveg að kafna.
Jæja best að fara að tékka á paté-inu.

föstudagur, maí 25, 2007

Gelgjulegasti póstur hingað til!

Ég ætla sko ekkert að tékka á íslenskunni minni í þetta skiptið þar sem ég fór á tónleika með Chris Cornell í gærkvöldi og vávává, ég get svarið það að þessi maður er ROSALEGUR! æðislegur, geggjaður,massívur!!! Maður var alveg hreint heltekinn þarna! Hann er með svo massíva rödd þessi maður að það hálfa og ekki spillir útlitið fyrir!!! Þetta var haldið í frekar litlum sal þannig að maður var bara frekar framarlega og ég gat séð hann mjög vel þar sem Ítalirnir eru frekar lágvaxnir, sem betur fer! Hann tók beisiklí öll lögin sem maður dýrkar með honum og meira til. Núna ætlum við svo sannarlega að kaupa nýju sólóplötuna hans.Úff þetta var svo gaman!!
úff svooo heeeittt, er að kafna, aaa....
Jæja best að fara í kæfugerð. Annars var ég að prófa að setja risarækjur í staðinn fyrir kjúkling í unaðslega kjúklingasalatið og það var bara helvíti gott,það verður í veislunni á þriðjudaginn!!!

miðvikudagur, maí 23, 2007

Ja hérna hér...

Það er orðið verulega heitt núna! Hitinn er stiginn upp í 35 stig og á nóttunni er líka heitt, þannig að sænginni hefur verið pakkað niður og lakið tekið upp. Einnig urðum við að fara út og kaupa fleiri viftur.
Fór í gær á hjólinu mínu(sem er b.t.w. fast í 3ja gír)að útrétta ýmislegt og je minn eini hvað ég svitnaði, held ég haldi mig við loftkælinguna í bílnum héðan af.
Ég er að fara á eftir í mat til Natöshu vinkonu(sú rússneska)og ætlar hún að bjóða mér uppá Borsch súpuna frægu, mmmm get ekki beðið, mig hefur langað til að smakka hana í ansi langan tíma en aldrei einhvern veginn fengið mig til að búa hana til. Nú fæ ég að smakka og þarf ekki að elda hana sjálf, frábært!
Annars er skólinn orðinn svo strembinn að það hálfa. Ég ætla að hella mér útí lærdóminn á fimmtudaginn eftir veislurnar sem ég er með á þri. og mið. og bara læra og læra og læra!

mánudagur, maí 21, 2007

Skórnir bráðnuðu!

hahahaha já það er svo heitt hérna! Ég fór í skólann í dag í háhæluðu skónum mínum og þegar við stóðum úti í pásunni þá sökk ég alltaf í malbikið þar sem það var orðið mjúkt af hita. Eftir tímann fórum við svo og fengum okkur að borða og við fengum bara sæti í sólinni þannig að það var ansi heitt malbikið þar líka. Nema hvað, þegar ég er á leiðinni heim,sem betur fer bara hérna úti á horni, fór ég að finna fyrir því að annar skórinn var allt í einu ekki svo þröngur eins og hinn þannig að ég leit niður á fæturna mína og viti menn þeir einhvern veginn bráðnuðu þannig að leðrið losnaði frá botninum og tærnar voru farnar að stingast út, það var beisiklí eins og ég væri með MJÖG vanskapaðan fót!!! Ég get svarið það ég var í hláturskasti það sem eftir var leiðarinnar heim!
Annars fórum við í sólbað í garðinum á laugardaginn og við rákumst þar á par sem var að ríða, í miðjum garðinum einstaklega smekklegt, þurfti að labba einstaklega casual framhjá og halda nett fyrir augun á Heklu, smekklegt!
Í gær fórum við svo á ströndina og eyddum þar deginum með Gunna, Höllu Báru og co. og Guðrúnu ömmu Sverris. Þvílíkt ljúft maður! Hekla elskar ströndina eins og öll börn að sjálfsögðu og við erum álíka vitlaus í þetta allt saman. Sjórinn var alveg næglega ,,heitur" til að synda og busla. En núna erum við hjónin alveg svakalega brennd og mökum á hvort annað after sun í gríð og erg!
Jæja best að vinda sér í kæfugerð!

fimmtudagur, maí 17, 2007

Brjálað að gera

Já það er einhvern veginn búið að vera soldið mikið að gera hjá mér síðustu 2 daga, vaknaði klukkan 7.30 og gat fyrst hvílt mig þegar ég fór í ból um 23.00 leytið. Ég er að reyna að byrja með smá bisness en það koma upplýsingar um það seinna. Þannig að það er búið að vera skóli á morgnana og svo vinna á daginn ásamt því að reyna að minnka þvottafjallið mikla(allt að koma, allavegana er óhreinatauskarfan hætt að líta út fyrir að vera að æla óhreinum þvotti) og strauja skyrtur. Ég skil þetta ekki, einu sinni áttum við engar skyrtur en núna þarf ég að vera alltaf að strauja, æjá nú man ég, ég straujaði ekki áður fyrr það var Sverrir sem gerði það, híhíhí hvað maður getur verið fljótur að gleyma.
Skólinn gengur bara mjög vel, og þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Hvað gæti svo sem verið að því að læra ítölsku allan daginn? tja ekki neitt, þetta er yndislegt tungumál.
Veðrið hefur ekki verið beint að leika við okkur hér síðustu daga þannig að brúnkan er að fara og jakkinn kominn á herðarnar á ný, vonandi fer þetta að lagast.
Ég fór með Heklu í leikskólann á mánudag og þriðjudag og þurfti því að taka lestina en mér datt þó snilldarráð í hug, hlaupahjólið! Þar sem ég þarf að labba smá spöl frá lestinni í leikskólann hennar Heklu fór ég bara með hlaupahjólið og hún var framan á og ég aftan á og svo bara áfram renn... Ítölunum fannst þetta vægast sagt einkennilegt að sjá risastóra(í þeirra augum)hvíthærða, næstum miðaldra konu(í mínum augum) á hlaupahjóli og augun raunverulega stóðu á stilkum. En mér fannst það bara fyndið og hélt áfram á minni leið.
Við höfum því miður ekkert hitt á ömmu Sverris en vonandi rætist úr því á næstu dögum.
Er að fara að gera veislu þ.29.maí fyrir Jole, 50-60 manns. Þá verður sko gaman hjá minni! Get ekki beðið eftir að koma mér inní það verkefni. Aldrei að vita nema ég geti prangað inná þau einhverjum nýjum réttum. Þeir eru reyndar soldið íhaldssamir í matargerð þessir Ítalir en þessi eru soldið nýjungagjörn þannig að það er aldrei að vita.

mánudagur, maí 14, 2007

Ljúft maður!

Ég er byrjuð í ítölskunáminu aftur, ekkert smá gaman. Nú erum við að læra miklu meira og ég get ekki beðið eftir að mæta í tíma á morgnana!
Guðrún amma er mætt á svæðið, mikil hetja sú kona. Sem sagt amma Sverris, skellti sér upp í vél til að heimsækja, son, konu, barnabörn og buru...
Fórum í mat til Gunna og Höllu Báru á laugardaginn mjög fínt hjá þeim og Hekl og Lea skemmtu sér vel saman. Annars er maður bara búinn að vera að einbeita sér að því að taka þvott þar sem fjallið var orðið helvíti myndarlegt eins og ég hef minnst á nokkrum sinnum áður hér á þessu bloggi mínu.
Vinkonur mínar í bekknum voru mjög ánægðar að sjá mig aftur, og það er eins og það hafi eitthvað lækkað í rosta hinnar brasilísku eða ,,leiðréttarans" þar sem við vorum saman með sömu einkunn og hæstar í bekknum. Hún er allavegana hætt að leiðrétta mig og er orðin bara helvíti næs við mig.
Sverrir greyið liggur í ælupest í dag, ég vona bara að ég sleppi, aldrei að vita nema maður hafi heppnina með sér í þessum málum, ha!
Eldaði mér fisk í kvöld eftir að hafa dreymt fisk í nokkra daga og orðin alveg viðþolslaus af fiskskorti. Uppskriftin fylgir. Þetta var algjört lostæti! Annars er hægt að nota sósuna með öllum fjandanum, kjöti, grænmeti og fleiru..
ohh sorry eitthvað vesen á Blogger, set þetta inn á morgun. Hekla þarf að komast í ból og ekki er ælukallinn að fara að lesa fyrir einkadótturina. ójá ég gleymdi að segja ykkur frá nýjasta æðinu hjá henni: MAAAAMMMA ÉG VIL FÁ SYSTKIN!!! svo í örlítið minni frekjutón, viltu setja systkin handa mér í magann þinn, mamma mín?
híhíhí þessi elska...

fimmtudagur, maí 10, 2007

Lúxus eða fátækt!

Einn skrítnasti dagur sem ég hef lifað var í gær.
Ég fór í heimsókn til brasilísku stelpunnar sem var með mér í bekk. Hún býr í bæ sem heitir Carimate, klukkutíma akstur frá Mílanó. Hún býr í vernduðu hverfi þar sem maður þarf leyfi til að komast inní og er ekki einu sinni merkt inni á GPS systemið. Húsið er með alveg risastórum garði, ótrúlega fallegum, sundlaug(með sundlaugarbar)og tennisvelli. Lamborghini í bílskúrnum, garðyrkjumaður, þjónustustúlka. Húsið frekar stórt, hrikalega ljótt(mj0g ítalskt), með 6 baðherbergjum, jafnmörgum svefnherbergjum, 30 fm eldhús og fleira. Hvað er að þessu? Jú, hún er hrikalega einmana! Þetta var allt svo innantómt þarna, ég veit ekki hvað ég á að hugsa núna, þá er ég að meina að ég veit ekki hvort ég myndi vilja allt þetta, efast reyndar um það. Ég hélt alltaf að ég vildi hafa fullt af peningum, vera rík, en núna eru að renna á mig tvær grímur. Við eyddum þarna deginum í lúxus, syndandi í lauginni, lágum í sólbaði og lásum Elle og Vogue, kannski örlítið of mikið estrógen fyrir mig en ég ákvað að bara njóta. Hekla kom með mér og hún var alveg í skýjunum að fá að fara í laugina og leika sér í fótbolta á tennisvellinum. Rússneska stelpan var með okkur líka, þegar dagurinn var á enda keyrði ég hana heim til sín. Hún býr í frekar lélegu hverfi hér í Mílanó, í jafnstórri íbúð og við, nema hvað að þær eru 3 konur ásamt einni lítilli stelpu 2ja ára. Ég fór sem sagt úr gríðalegu ríkidæmi í mikla fátækt. Ég er að læra svo mikið á þessari Ítalíudvöl minni, maður þarf að opna huga sinn og læra að hvað sem dagurinn í dag ber manni á maður að meta til hins ýtrasta! Núna elska ég íbúðina mína meira en nokkru sinni og gvuð minn eini hvað ég er ástfangin af manninum mínum! Þær eru nefnilega báðar í sambandi við menn sem að mínu mati eru ekki að virða þær að verðleikum og koma fram við þær eins og hálfvitar. Það finnst mér ofboðslega erfitt að horfa uppá, ekki það að þeir séu að beita þær ofbeldi ekkert svoleiðis, heldur einhvern veginn binda þeir þær með peningum. Þannig að þegar þeir koma illa fram þá eru þær orðnar svo skuldbundar að þeim finnast þær lítið geta sagt eða gert á móti. Þetta gerir það að verkum að þær verða svo undirgefnar að það hálfa. Þessar stelpur eru að eðlisfari ekki undirgefnar, þannig að þær eru að breyta sjálfum sér til að þóknast einhverjum manni.
Mig grunar að í fyrstu hafi þessari brasilísku fundist ég vera ógnandi og verið með þessa stæla við mig,því að núna er hún mjög indæl og skemmtileg.
Mér líður svo skringilega eftir þennan dag,aðra stundina er ég hrikalega þung og vill helst bara fara að grenja og svo hina stundina er ég svo ánægð með allt sem ég hef.
Annars var ég og brasilíska hæstar í bekknum með sömu einkunn. Massa þessa ítölsku!!!

Að öðru:
Ég horfði á East-Eurovision í gær, Eiríkur mælir rétt eftir þessa keppni, hvaða möguleika eigum við Gaggó Vest gagnvart þessum skrilljónaþjóðum sem fjölga sér eins og maurar. Ég held að við hér í Vest verðum að fara að fjölga okkur meir. Tja eða bara fara að fordæmi Ítalanna og bara gefa þetta upp á bátinn og hætta! Maður nennir ekki að horfa á þetta væl í East lengur, þessi tónlist sem þeir flytja er bara grín fyrir okkur Vest, ætli það sé ekki vice versa.

Nú er baðherbergið loksins búið, þetta er búið að vera hið mesta maus fyrir drenginn, alltaf þegar hann var að verða búinn að mála þá flettist málningin upp og hann þurfti að fara að spasla og pússa allt uppá nýtt, magnað. Hann þurfti líka að hafa stóru viftuna okkar inni hjá sér allan tímann þar sem það er svo heitt núna þessa dagana, 32°C og rakinn er svo mikill að maður á erfitt með að anda, loftið er svo þykkt. Þannig að það var allt að fara til fjandans hjá honum áður en hann setti viftuna inn. En nú er þetta búið og ég er búin að vera að þrífa í allan morgun og get ekki beðið eftir að geta sett þvottavélina í gang. Manni finnst maður ansi fátækur af fötum, skiljanlega þar sem við höfum ekki getað þvegið í 2 vikur. En þetta reddast allt saman.

Við erum þessa dagana með algjört æði fyrir snarli í kvöldmatinn. Þá er það samansett af parmesanosti, skornum í bita, prociutto, skinku, ólífum, venjulegum osti í sneiðum, pecorino sardo(í bitum), gorgonzola og baguette brauði. Alveg hrikalega gott. Þannig að maður nartar endalaust, mmm... Ég gerði svo í gær Miðjarðarhafssósuna og var með crudité með(hrátt grænmeti) og svo var ég líka með beikonið sem var í brúðkaupinu mínu, með mjúkum geitaosti og peru.
Algjört sælgæti!

þriðjudagur, maí 08, 2007

Þynnka dauðans!

Já ég fór á mánudaginn að hitta stelpurnar úr bekknum og þvílíkir alkóhólistar maður. Ég verð barasta alltaf drukkin með þeim, og gleymi algerlega hvað tímanum líður. Þannig að við vorum að drekka og spjalla heima hjá einni þeirra frá klukkan 16.00 til klukkan 3.00 um nóttina! og það var grátið og það var hlegið og talað endalaust, náttúrulega allt á ítölsku þar sem aðeins ein önnur en ég talar ensku. Þetta var svakalega gaman.
En þetta varð til þess að gærdagurinn fór fyrir bí, algerlega! Ég gat ekki hreyft mig, bara ælt og sofið. Og hver fær ,,mamma ársins" verðlaunin??!!!
En ég komst á fætur í dag og er bara hin hressasta. Fór í morgun með hnífana mína í brýningu og láta tryggingafélagið hafa upplýsingarnar vegna ,,árekstursins" sem ég lenti í um daginn, eða það var nú meira keyrt á bílinn minn, ekkert alvarlegt.
Það var strax kominn 28 stiga hiti klukkan 10.00. Þannig að það er allt að fara í slow motion núna þessa dagana.
Mikið rosalega sakna ég þess að fara ekki í skólann á hverjum morgni!
Annars er þetta allt að koma með baðherbergið, Sverrir er að verða búinn að mála það. Það er bara búið að vera soldið maus að finna rétt spasl og svo þegar hann fór að mála þá brotnaði upp úr veggnum. En þetta kemur allt saman og verður bara fínt, segjum það bara.
Stelpurnar vilja hittast líka á morgun, ég bara held ég hafi ekki orku í það. Það er nefnilega ýmislegt sem þarf að gera, ég bara get ekki fundið uppá neinni afsökun þar sem ég var búin að segja að ég kæmi með. :-/
Hekla er greinilega hætt að vera ónæm fyrir flugnabitum og er núna öll í bitum og klæjar svakalega í þau, greyið litla. Hún er núna svo ánægð í leikskólanum að þegar ég fór með hana í morgun var hún svo æst að fara inn og leika að hún gleymdi að segja bless við mömmu gömlu. Það er svo heitt hjá þeim að maður er beðinn um að láta þau ekki í of mikið af fötum, bara stutterma eða nærbol og stuttbuxur eða pils. Ég fór með hana t.d. í morgun í pils og sokkabuxur(tók bara sokkana með) en hún sagði mér að gera það ekki aftur þar sem hún fer úr þeim eftir 10 mínútur. Maður er bara soldið óvanur svona, maður er alltaf svo hræddur um að henni verði kalt en fattar ekki að það að vera heitt í of miklum fötum er alveg jafn hættulegt og óþægilegt.
Hún er orðin svo dugleg í ítölskunni, ég er svo stolt af henni.
Hún er eins og lítill api núna og hefur verið í soldinn tíma, hún klifrar í kojunni sinni og hangir þar og sveiflar sér allan liðlangann daginn, fer upp og niður stigann og býr til alls konar leiki úr þessu, setur upp borð og stóla undir sem hún getur stokkið niður á eða klifrað upp af. Það er mjög gaman að fylgjast með henni.
Hvernig þrífur maður lyklaborð?

laugardagur, maí 05, 2007

Megrunarlaus dagur í dag!!!!!!!

Vúhúúúú jesssss....OSTUR.. HERE I COME!!!!

föstudagur, maí 04, 2007

Hundalíf!

jæja þá er þetta allt að koma með baðherbergið, nú eru komnar 5 mismunandi týpur af flísum þarna inn allt alveg svakalega flott, hipp og kúl og svo settu þeir nýjan sturtuhaus líka og hann er nú það flottasta sem ég hef séð, ég held barasta að svona hundar eins og við gætum bara sætt okkur við þetta, ha. Hann kostaði heilar 2 evrur og er svona 2 cm í radíus(eða hvað það er sem maður segir með hringi) og það lekur svona líka skemmtilega kraftlaust úr honum, en þar sem ég hef komist að niðurstöðu um það að leigusalarnir okkar haldi að við séum hundar sem þurfi ekki á því að halda að ná sjampói úr hári né þá heldur hárnæringu þá kom þetta mér ekki á óvart! Það er betri sturtuhaus á skrifstofu leigusalans, ef ske skyldi að hann þyrfti á sturtu að halda í vinnunni!
Ég fæ ekkert í magann af reiði og vonsvikni þegar ég hugsa um þessa hluti, neinei bara alltaf með bros á vör hún Sigurrós Pálsdóttir, svo glöð og ánægð með framgöngu mála!
Ég geng glöð til verks í dag að þrífa skítinn eftir þetta ævintýr, hlakka svo til að ég bara get ekki beðið! Enda sit ég hér enn uppi í rúmi klukkan 11:11 á laugardagsmorgni.
Við ákváðum að mála baðherbergið og fórum í verslun hér nálægt og keyptum spasl og fleira og svo var hann að spasla allt gærkvöldið og viti menn þegar hann var búinn þá var barasta hægt að fletta öllu af. þvílík vinna og spasl farið í þessa blessuðu kalkveggi hérna! Þannig að hann er núna farinn aftur í búðina til að finna grófara spasl og sjá hvort það festist við þessa undraveggi! Ég er komin með nóg af því að búa eins og hundur í búri í þessari íbúðarholu! Mig dreymdi í nótt að ég væri að skoða íbúð sem var um 500 fermetrar, klikkuð, tóm og svo þegar ég spurði um verðið á henni þá vaknaði ég, undirmeðvitundin eitthvað að láta í sér heyra greinilega!
Annars fór ég með bekknum mínum í appiritivo á fimmtudaginn og þar drukkum við ógeðslega mikið rauðvín og bjór og urðum vel léttar af því, mjög skemmtilegt. Ég komst að því að sú brasilíska er ennþá leiðinlegri með víni og hún er með manni sem á að vera einn sá ríkasti í heimi, einmitt trúi því nett, right! Sú rússneska er hin mesta snilld, hún er svo fyndin og skemmtileg og loksins hef ég hitt einhvern annan sem er með jafnmiklar klaufasögur og ég en hennar vandamál er að hún getur ekki sagt nei og því er þessi brasilíska alltaf að draga hana hingað og þangað þó að hún vilji ekki fara með henni. En svo kom mér mest á óvart að þessi japanska var verulega skemmtileg líka! Hún var svo miklu opnari en ég hélt og svo mikill húmoristi. En svo var síðasti dagurinn í skólanum í gær, ég er mjög leið yfir því en svona er þetta nú bara. Kennarinn minn kom til mín eftir tíma og sagði mér að henni fyndist mjög leiðinlegt að ég kæmi ekki aftur þar sem ég væri orðin svo góð í ítölskunni og talaði svo skýrt og að hún vildi að ég lærði meira til að tala fullkomlega. Þetta fannst mér mjög gaman að heyra og gerði mig ennþá leiðari að geta ekki tekið eitt námskeið til viðbótar. En svona er þetta nú bara.
Jæja Sverrir var að koma og er svakalega ánægður með dagsverkið mitt eða þannig, þannig að best að koma sér að verki og byrja að þrífa, jeessssss get ekki beðið, nei ég þarf ekkert að bíða, bara byrja!
Guð veri með ykkur

miðvikudagur, maí 02, 2007

Þetta verður bara betra og betra!

Meira um prump: ekki nóg með það að Sverrir hafi prumpað einni verstu fýlu,ever heldur vorum við með viftuna í gangi þannig að maður hafði engan tíma til þess að byrja að anda með munninum eftir að maður heyrði prumphljóðið, heldur kom prump og hálfri sekúndu síðar,...BÚMM!!! PRUMPSPRENGJA beint upp í nefið á manni. Þetta var svakalegt, en maður fékk líka gott hláturskast af þessu!

Nóg um prump í bili.

Að mikilvægari málum.
Nú komu pípulagningarmenn í morgun til að gera við vatnið hjá okkur og við erum svo heppin að það er allt í rúst inni á baðherbergi og klósettið var einnig tekið af okkur! þannig að ekkert baðherbergi yfir höfuð og lítla íbúðin okkar er full af ógeði og ryki!
Við höfum enn ekki fundið möntvask hér nálægt, því miður, þannig að enn þarf fjallið að bíða.
Ekki nóg með þetta heldur var okkur tjáð að það verði ekki skipt um neitt inni á baðinu, sem sagt við þurfum að vera áfram með þetta viðbjóðslega baðkar, sem er löngu orðið ónýtt, ég efast um að ég geti þrifið af blettina eftir píparana. Þar að auki þurftu pípararnir að brjóta upp fullt af flísum og í staðinn fyrir að nýta þetta tækifæri og skipta um flísar þá verður sett önnur týpa af flísum í sárin, mjög smekklegt! ojojoj þvílík fýla sem leggur um íbúðina núna maður! Ohhh í dag er ég pirruð, mig langar ekki að vera í þessari holu meir!!!
Sverrir fór þó sem betur fer í heimsókn til Gunna og Höllu Báru að horfa á boltann með honum og náði að taka 2 vélar þannig að allavegana þá eigum við hrein handklæði núna. Við getum nefnilega farið í sturtu á skrifstofu Paolo hér í húsinu við hliðina. En hann er náttúrulega að vinna á daginn, þannig að það er mjög þægilegt að fara þangað yfir til að taka skituna, jesss má ég?!
En best að fara og læra undir prófið sem er á morgun;)
ohh það er líka vibba ryk útum allt hérna, jess massapáskaþrif um helgina, hlakka geðveikt til!
Kveðja
Ein massareið og pirruð!