þriðjudagur, júlí 25, 2006

gullmolar!

Þessum er beint til þín Kata mín. Ég veit reyndar ekkert hvort þú lest þetta ennþá en þá er þetta bara svona svo að ég eigi eftir að muna þetta í framtíðinni.
Ég og Hekla vorum að lesa Fréttablaðið í morgun, þá sjáum við stærðarinnar mynd af Kötu á bls.15 of ég segi við Heklu ,Þetta er vinkona mömmu, manstu eftir henni?
Hekla: ,,VÁ! hvað hún er í flottum bol!!"
Ég: já alveg rosalega!
Hekla: Hún er rosalega sæt líka!

Svo, þar hefurðu það, kata mín, helvíti hefurðu litið vel út þennan daginn, ha!

mánudagur, júlí 24, 2006

já ég er trúlofuð!

Loksins bar drengurinn upp sspurninguna sem ég hef beðið eftir!
Hann fór með mig í gögutúr niður í fjöru hér úti á nesi, við settumst á steina og þá bað hann mig um að giftast sér. Hann gaf mér alveg ótrúlega fallegan hring, hvítagull með demant í miðjunni.
Ég er búin með uppskriftirnar í Kanada og sendi þær á morgun.
Fórum í alveg hreint frábært matarboð á laugardaginn hjá Kötu og Kristínu og hitti þar Ásu og Helgu Björt og við sátum og kjöftuðum til klukkan 6.00 um morguninn, það var ekkert smá gaman!

laugardagur, júlí 22, 2006

Knús og kysserí

Ég hélt að mínúturnar daginn sem ég var að ferðast myndu aldrei líða!
Ferðin gekk mjög vel. Sat fyrir aftan Bogomil Font og vini hans á leiðinni heim frá London og ætlaði að sjálfsögðu að þakka þeim fyrir hið frábæra lag ,, Veðurfræðingar ljúga" En þar sem ég er þekkt fyrir að gera mistök í þessum málum þá fór ég að efast um vitneskju mína og hugsaði að kannski voru þetta Baggalútur en ekki Bógómil Font sem gerðu þetta lag þannig að ef ég færi til Bogomil yrði það frekar vandræðalegt, þannig að ég sat hljóð í sætinu mínu og hlustaði á lagið í iPodinum mínum og hló með sjálfri mér.
Þegar ég kom heim hljóp ég í gegnum tollinn og knúsaði og kyssti Heklu alveg í kaf. Hún var alveg rosalega ánægð að sjá mig og er búin að vera að kyssa mig og knúsa síðan!
Ég er núna að vinna að uppskriftum fyrir kvöldverð í Toronto og eru það svo hryllilega girnilegar uppskriftir að ég er slefandi yfir þessu hérna!
En maður getur vonandi hitt einhverja vini sína í kvöld.
Ég var með einn af aðalréttunum í matinn í gær og er það Bláberjamarinerað lambalæri með bláberja og súkkulaði sósu, ofnbakaðar kartöflur með marineruðum sætum kartöflum og meðlætið er papriku og spínatsalat(þar sem eru notaðar rauðar,grillaðar paprikur)með vanillukeim. Þetta var alveg hrikalega gott!

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Dekurdrós

Já þá er liðin vika af dekri og rólegheitum. Mamma og pabbi voru að fara í dag og við höfum svo sannarlega komið miklu í verk á einni viku.
Við byrjuðum á því að fara á ströndina á Cinque terre og spókuðum og sóluðum okkur þar í 3 daga(2 nætur), það var alveg hreint yndislegt. Þegar við komum til baka var ýmislegt gert á daginn og svo á laugardeginum fórum við í hádegismat til Jole og Piero og vorum þar mestallan daginn og svo um kvöldið fórum við út að borða á veitingastaðnum sem e´g vinn á, Joia. Við fórum með Jole og Piero og Beu(dóttur þeirra) og skemmtum okkur konunglega, og borðuðum alveg hreint frábæran mat. Á sunnudeginum var slakað á fyrri partinn svo seinni partinn fóru mamma og pabbi með Jole og Piero í hjólreiðatúr um Mílanó og fannst það mjög gaman og ég var heima í hugmyndavinnu fyrir kvöldverð sem ég er með í Toronto í september, ég skrapp líka aðeins út að skokka og var dauð eftir 15 mínútur, jóga er ekki alveg að æfa lungun greinilega. Það er reyndar líka soldið mikið heitt, eða í kringum 35 gráður.
Svo á mánudeginum vorum við bara í afslappelsi fram að fyrri part kvölds, því þá fórum við í La Scala á sýningu sem heitir Dido and Aeneas eftir Henry Purcell, þetta er blanda af óperu og ballett sýningu á ensku. Frábær sýning! Við skemmtum okkur alveg ótrúlega vel. Eftir sýninguna fórum við á pizzeriu og fengum okkur pizzu, viti menn eftir nokkrar mínútur ganga inn stjörnurnar úr sýningunni! Við mönuðum pabba og Piero að fara til þeirra og fá eiginhandaráritanir sem þeir gerðu á endanum, pabbi var soldið vandræðalegur en okkur fannst þetta alveg frábært og jú soldið fyndið að sjá tvo gráhærða kalla biðja um eiginhandaráritanir frá óperusöngvurum!
En svo í morgun var gamanið búið eða þannig og þau fóru heim og ég fór í undirbúning brottfarar. Ég er sem sagt búin að vera á útopnu í allan dag á hjólinu mínu þar sem ég er búin að setja bílinn í geymslu hér bakvið húsið.
Ég hlakka svo til að sjá Heklu og Sverri að ég er alveg hreint í ruglinu!
Í kvöld þarf ég svo að fara á veitingastaðinn og tala við yfirmanninn og sjá hvort við getum komist að samkomulagi um áframhaldandi starf. Eftir það liggur leiðin til Jole og Piero því að ég þarf að láta þau fá lykla af öllu klabbinu.
Búin að panta leigubíl fyrir fyrramálið.
Ég er að sjálfsögðu búin að fylla nýju ferðatöskuna mína, troðfylla, vona bara að ég sé ekki með yfirvigt. Það tekur bara soldið mikið pláss svona hlutir eins og gönguskór og úlpur og fleira í þeim dúr.
Það verður ansi skrítið að ferðast ein með eina ferðatösku!
Jæja best að taka síðasta þvottinn úr vélinni. Það er svo heitt núna þessa dagana að allur þvottur er ca.2 tíma að þorna á slánni, bara alveg eins og þurrkari, lúxus líf.
Ég frétti af hitabylgju sem á að vera á leiðinni til Íslands, er eitthvað til í þeim sögusögnum???

föstudagur, júlí 07, 2006

Að nota heilann

Ég var að klára Veronika ákveður að deyja bókina, hún fær mann verulega til að hugsa. Ég er t.d. að hugsa núna hvað ég sé að spá að fara frá barninu mínu, hvað ef eitthvað kæmi fyrir og ég er þá búin að eyða þessum dýrmætu stundum frá henni í stað þess að vera hjá henni.
Ég fór líka að hugsa um hvað maður velur að berjast fyrir í lífinu, hvers vegna og hvort maður ætti að vera að því. Ég er t.d. búin að vera að berjast fyrir þessu kokkastarfi í meira en 4 ár. Í hvert skipti sem ég kem inn í nýtt eldhús hugsa allir þar inni ,, iss, hún endist ekki í viku þessi, hún á barn, hún er með brjóst og ekki nóg með það heldur er hún grönn og lagleg!" já ég sagði lagleg, þegar fólk er búið að vera að segja manni allt sitt líf að maður sé laglegur er þá svo hrikalega slæmt að maður fari að trúa því??? Er ég þá egóisti?? Nei það þykir mér ekki, raunsæi myndi ég frekar kalla það. En svo ég komi mér aftur að málinu sem ég byrjaði á.... En ég entist(í kokkinum) og ég píndi mig og ég næstum eyðilagði líkama minn með það eitt í huga að ef þessi strákur getur gert þetta af hverju þá ekki ég líka? Ég hugsaði ekki út í það að hver og einn er sérstakur, bæði líkamlega og andlega. Ég hugsaði heldur ekki út í það að þessir stóru og sterku strákar, sem ég hef verið að vinna með í gegnum tíðina, fara líka grenjandi heim í ból, grenjandi af þreytu á líkama og sál. Er þetta starf virkilega svona öðruvísi en á öðrum vígstöðvum eða erum við kokkarnir,þ.e. þeir sem hafa ástríðu á mat og uppskriftum, svona viðkvæmar og opnar sálir. Að þjást fyrir það eitt að sjá ánægjusvip eða jafnvel nautnasvip viðskiptavinar, ókunnugrar manneskju við það eitt að bragða á einhverju sem þú skapaðir og gafst frá þér. Er það þess virði að fórna öllu fyrir? Í fyrsta skipti vinn ég fyrir listamann, hann hefur gert þetta hann hefur fórnað öllu fyrir heimspeki sína og list, ekki hef ég hugmynd um hvort maðurinn sé hamingjusamur en það veit ég að ég er ekki hamingjusöm án fjölskyldu minnar og að ef þetta er fórnin fyrir að vera matreiðslumaður þá er ég ekki tilbúin til að vera matreiðslumaður.
Í allt of mörg ár hef ég sett heilan minn á hilluna og reynt að nýta mér það sem ég er góð í, þetta er eitthvað sem ég hef alltaf gert. Þegar ég var um 10 ára langaði mig til að vera rithöfundur, þetta er reyndar leynd ósk mín eitthvað sem mig langar enn að vera, en eftir fyrstu tilraun mína að sögu þá gafst ég fljótt upp, sagan sem ég hafði skrifað fannst mér vera svo hrikalega illa skrifuð og leiðinleg að ég lofaði sjálfri mér að skrifa aldrei neitt framar á blað nema að það væri ritgerð fyrir einhvern annan. En löngunin sækir enn að mér, en ég er hrædd um mistök og mest af öllu er ég hrædd um að mömmu finnist það vera svo léleg bók/saga að hún myndi aldrei gefa hana út og myndi líta á mig öðrum augum eftir lestur hennar. Ég er ekki sterk eins og allir halda, jú ég er sterk líkamlega en ég forðast það eins og heitan eldinn sem ég er ekki góð í eða þarf að vinna hart að og horfast í augu við mistök. Eins og t.d. að fara í skóla það hræðir mig meira en nokkuð annað, því það að mistakast í matreiðslu er eitthvað sem aðrir í kringum mig fengu aldrei að vita eða myndu aldrei fá að vita ef það gerðist en það að mistakast í háskóla þegar allir í kringum mig eru með háskólagráðu er eitthvað sem ég gat ekki horfst í augu við. Hvað langar mig að verða? Mig langar að verða læknir! Ósk sem ég á aldrei eftir að geta uppfyllt, þar sem ég get ekki reiknað. Það hefur þó læðst að mér svona í seinni tíð að kannski get ég alveg reiknað ég hef bara ekki þolinmæði í að komast ekki að almennilegri niðurstöðu í málinu á 10 mínútum. Ég man eftir að Þorgerður systir var stundum að glíma við eitt reikningsdæmi svo klukkutímum skipti, kannski get ég það alveg líka ég bara hafði aldrei þolinmæði til að komast að því. Heilinn getur þjálfað sig upp í allan andskotann, eða erum við hæfileikaskipt? Er okkur skipt niður í flokka eftir hvar hæfileikar okkar liggja og erum við takmörkuð við einn hæfileika kannski tvo?
Við Íslendingar erum fordekruð í seinni tíð, við erum alin upp í þeirri trú að við getum allt. Við getum farið í hvaða nám sem við viljum, hvort sem það er verkfræði eða listnám. Hvers vegna er þá svona erfitt fyrir okkur að meta það mikils? Hvers vegna er þá jafnvel erfiðara fyrir okkur að velja? Það er ekki litið niður á neitt nám á Íslandi, það eina sem er litið niður á er leti og ef þú ert ekki í námi eða búinn með nám ertu þá letingi? Nei, ekki ef þú vinnur þig hægt og bítandi óteljandi tíma á mánuði í einhvern virðulegan titil. Enda erum við orðin starfstitlaóð. Hreingerningarkona er orðin ræstitæknir og ætli gömlu góðu ruslakallarnir séu ekki komnir með einhvern fallegan titil líka.
Ég þoldi aldrei svona bækur eins og Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn og núna Veronika ákveður að deyja, því að þessar bækur þvinga mann til þess að líta í eigin barm og endurskoða þær ákvarðanir sem maður hefur tekið í lífinu og athuga hvort þær hafi verið réttar eða rangar. Lífið snýst um val og ef maður gerir sér grein fyrir röngu vali er erfitt að sætta sig við það og reyna að breyta rétt og eins og alltaf reynir maður að forðast það sem er erfitt að gera.
Í dag hef ég nægan tíma til að hugsa um líf mitt og val mitt í því hingað til. Ég er ánægð með flest fyrir utan það val mitt að hræðast að gera það sem mér þykir vera erfitt og það sem þarfnast þolinmæði,þ.e. að láta heilann vinna að einhverri gráðu, ekki bara taka það sem ég er þegar góð í og fullkomna það, heldur taka eitthvað sem ég þarf verulega að nota heilann og þolinmæðina.
Hvers vegna er ég þá búin að eyða öllum þessum tíma í kokkinn, jú ég er nefnilega alveg hreint ótrúlega þrjósk og ef ég bít eitthvað í mig þá stend ég og fell með því. Ég var búin að ákveða að sanna mig í þessu og við það stend ég. Ég er líka trú, ef ég vinn á einum stað er alveg ótrúlega erfitt fyrir mig að hætta og fara á annan stað, því að í mínum augum væri það uppgjöf og guð forði mér frá því að gefast upp!Aldrei!
Ég viðukenni að oft á tíðum á ég enga samleið með fólkinu sem ég vinn með, þau tala ekki um hlutina sem ég og vinir mínir og fjölskylda tölum um, ég lendi ekki oft í örvandi samræðum í eldhúsinu og þá sérstaklega ekki í matarhléum. Ekki misskilja mig, ég er ekki þar með að segja að þetta sé heimskt fólk heldur þvert á móti, allir sem ég vinn með og hef unnið með geta lagt á minnið ógrynnin öll af uppskriftum og þulið það upp að vild, alveg hreint ótrúlegur hæfileiki og þau geta töfrað fram dýrindis máltíð á hálftíma með lítið sem ekkert hráefni, það þykir mér einstakur hæfileiki og ekki heimska en að tala um heimsins mál eða bækur er ekki alveg að gera sig þarna. Í matarhléum er talað um síðasta djamm eða hvað hin eða þessi stelpa var flott eða hversu mikið maríúana á að kaupa næst. Ætli það sé ekki að fara svona í taugarnar á mér, það er engin örvun fyrir hinn hluta heila míns, sem er enn sprelllifandi, sem vill umræður og samræður um heima og geima.
Ég er orðin þyrst í þekkingu og komin með pirring í heilann.

Eins og þið sjáið þá mæli ég eindregið með þessari bók!
Ég er líka að hugsa hvort ég eigi að klikka á ,,save as draft" takkann eða raunverulega taka skrefið til fulls og klikka á ,,publish post". Skynsemin segir mér að ,,save as draft" sé betri möguleiki en hjartað segir að ,,publish post" sé eina leiðin.

Ég læt hjartað ráða för.

Of lár blóðþrýstingur

Já hann var svo lár þegar ég stóð upp að hann fann hann ekki í fyrsta og þurfti að taka aftur. Ég líka vissi ekki að þetta lyf sem ég er búin að vera að taka er líka blóðþrýstingslyf, við of háum blóðþrýstingi, þannig að hann sagði að ein tafla á dag í þessum hita væri allt of mikið, en að hætta á töflunum væri líka mjög hættulegt, þannig að ég yrði að taka hálfa töflu á dag(ég er búin að vera að taka 2 á dag til að reyna að losna við mígrenið!)og sjá í 3 daga hvort þetta lagaðist og ef ekki þá yrði ég að fara til einhversséfræðings(skildi ekki hvers lags) og taugasérfræðings. Jæja ég er ansi fegin að ég fékk einhver svör, ég var svo hrædd um að fá engin svör eins og venjulega þegar ég fer til læknis útaf þessu. En þetta er líka í fyrsta skipti(fyrir utan þegar ég fór í sjúkrabíl úr vinnunni) sem læknir er hjá mér þegar kastið er í gangi, ég fer alltaf til læknis þegar kastið er búið. Nei nú lýg ég ég fór í eitt skipti til taugasérfræðings í kasti, Óla man kannski eftir því og hann komst að því að ég væri með mígreni. Hingað til hef ég bara verið spurð hvort ég sé ekki ,,bara að byrja á túr vinan?" og svo horft á mig aumkunaraugum, grrr.. þoli ekki það look. Afsakaðu,en þó að ég væri að byrja á túr, sem er ekki tilfellið, þá er það ekki eðlilegt að heimurinn hringsnúist í 5 daga! Það hefur allavegana ekki lagað neitt hingað til að borða rauða, blóðuga steik! mmmmm.... rauða, safaríka ,blóðuga, þykka steik...... með brúnni unaðslegri þykkri soðsósu....... og og heitri, mjúkri kartöflu með drjúpandi smjöri og undur fögrum mildum saltflögum.......
Ég get svarið það ef ég sé kind á leiðinni heim frá flugvellinum í Keflavík, þá verðiði að spenna beltið mitt enn fastar því ef ekki mun hún eiga fótum sínum fjör að launa!

Veronika er soldið heimspekileg fyrir minn smekk en samt ágætis lesning, er rétt hálfnuð, sjáum hvernig restin er.....

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Veðurfræðingar ljúga!

hahaha ég var að heyra brillíant lag á Rás 2 og heitir Veðurfræðingar ljúga, textinn er alger snilld!!!

enn með kast, læknirinn kemur á morgun

Já ég er enn með svima, vonandi getur læknirinn séð eitthvað útúr þessu.
Annars var ég að klára bókina 4.Júlí eftir James Patterson og var hún bara ágætis afþreying, fíla ágætlega svona spennutrylli, það hefði reyndar alveg verið hægt að sleppa lögfræðiruglinu en, þrátt fyrir það fín bók. Fer næst í Veronika ákveður að deyja eftir Paulo Coelho. Vona bara að hún sé ekki of erfið.
Það er loks farið að rigna hér og fylgja því miklar þrumur og eldingar, mér finnst það æði og vildi ég helst fara út undir beran himinn og dansa í rigningunni, ef ég væri ekki svona hrædd um að vera nauðgað myndi ég gera það!
Ég verð að koma mér á einhvers konar sjálfsbjargarnámskeið til að geta hætt þessari eilífu hræðslu.
Simona vinkona mín er mesta dúlla í heimi. Hún er búin að hafa svo miklar ahyggjur af mér og er alltaf að hringja og tékka á mér. Svo segir hún alltaf,.. sko þú verður að vera heima og hvíla þig ekkert vera að koma í vinnuna, það er ekkert að gera og þú þarft bara að hugsa um sjálfa þig, ef þú kemur í vinnuna á morgun þá lem ég þig ,OK!.. Svo hlær hún háværum og miklum hlátri, hún er mjög ítölsk! En hún hefur rétt fyrir sér ég verð að hugsa um sjálfa mig núna, en helvíti er það erfitt!
Ég var að tala við Ásu í símann áðan æ hvað ég er farin að sakna vina minna. Hlakka mikið til að hitta alla.
Horfði loksins á Million Dollar Baby, helvíti góð mynd! Að sjálfsögðu var Swank framúrskarandi og mér finnst alltaf gaman að horfa á leik Clint Eastwood, snillingur maðurinn og ekki skemmir útlitið fyrir, þó að hann sé hundgamall er hann alltaf jafn flottur.
Horfði líka á The Way of the Gun, hvílíkt blóðbað, jesús minn mér fannst nú ekki mikill leikur vera í gangi í þeirri mynd og ekki hefur handritið verið í þykkari kantinum, en hún var svo sem vel tekin og flott, ágætis plott.
Maður kemur ýmsu í verk þegar maður situr einn heima og borðar frosnar pizzur og ístoppa, eða bara eitthvað sem er til í frystinum.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

ohhh ennþá með mígreniskast, dem!

Já hausinn er enn í ruglinu 3. daginn í röð. Ég fór í morgun á bílnum(ég veit, ekki mjög gáfulegt) í bankann ég varð að leggja inn ávísunina, launin mín koma í ávísun og það tekur 7 virka daga fyrir hana að fara í gegnum kerfið, þannig að það er eins gott að koma henni inn í bankann sem fyrst. svo var ég líka búin með vatn og frosnu pizzurnar þannig að ég varð að fara í búð líka, þetta var ekki þægilegt.
Ég var líka að fá sektir sendar heim vegna þess að hér eru nokkrar götur sem ekki má keyra á og þær eru illa merktar ,,Traffico Limitado" og fyrir ofan þetta skilti er myndavél sem tekur af þér mynd og þá færðu sekt senda heim uppá 80 evrur, ég var að fá 3 svoleiðis þar sem ég hafði ekki hugmynd um að ,,traffico limitado" þýddi að ekki mætti keyra þarna undir neinum kringumstæðum, ég hélt bara að þetta þýddi að þarna væri takmörkuð umferð þið vitið ,,limitado=limited=takmörkuð" en það verður að hafa það, ég borga!
já og Ítalir komnir í úrslit, geggjað stuð!
Horfði á V for Vendetta í gær, helvíti góð mynd, mjög sátt. Hún er svo góð leikkona, mér líkar alltaf svo vel við hana.
Það er loksins orðið aðeins kaldara það er núna svona 25-30 í staðinn fyrir 35-38 það er ágætt.
Ég hlakka svo til komu foreldra minna, get ekki beðið!

mánudagur, júlí 03, 2006

Líkaminn sagði loks ,,NEI takk!"

Já´eg ligg hér heima á þriðjudegi með mígreniskast. Það byrjaði í gær með því að ég hrundi niður í vinnunni(meiddi mig ekkert smá í hnéinu og mjöðminni) og var sett inn í búningsherbergi á stól, ældi smá og settist aftur og það leið yfir mig aftur, af stólnum. Yfirkokkurinn var mjög næs og var að hjálpa mér og setja á mig kaldann bakstur allan tímann og mér leið svo illa að það endaði á því að ég lagðist í gólfið(sem er vibbi)og beið eftir leigubílnum. Það reyndar kom enginn leigubíll þannig að einn af þjónunum keyrði mig heim og fylgdi mér inn, sem betur fer því ég gat varla gengið. Þeir hringdu svo í mig um kvöldið til að athuga hvort að ekki væri allt í góðu hjá mér og hvort að mig vanhagaði um eitthvað, mjög indælir. Ég hef ekki fengið svona massívt kast síðan árið 2000, sem þýðir að ég er greinilega undir of miklu álagi og ég fer á mánudaginn þegar yfirmaðurinn kemur úr fríi og læt hann vita að ég sé að hætta, vonandi skilur hann það.
Annars var helgin ágæt, ég var bara í afslöppun á laugardaginn, ákvað að gera ekki neitt, ekki einu sinni jóga, fór svo bara í vinnuna en eins og venjulega var ekki búin fyrr en um eitt leytið. Á sunnudeginum reif ég mig framúr um klukkan 7.30 kom mér í gírinn fór og náði í Simonu og við brunuðum á ströndina, svitnuðum þar til klukkan 17.00(reyndar er napólska stelpan ekki með neitt strandaþol þrátt fyrir uppruna) og þá drifum við okkur til Mílanó, lentum í röð þannig að heimferðin tók 3 tíma( á meðan ferðin á ströndina tók 1 1/2 tíma) en þegar við komum í bæinn fórum við á napólskan pizzastað og fengum okkur pizzu. Pizzan var hreint guðdómleg, ekta napólsk( fyrir þá sem ekki vita er uppruni pizzunnar í Napólí) og við borðuðum á okkur gat, fyrst í forrétt borðuðum við djúpsteikt fyllt zucchini blóm,mmmm... og svo pizza Parmigiana, mmmm svo hálfa pizzu á mann til viðbótar vegna þess að ,, ég bara varð að smakka þessa pizzu!" sem var með fyllingu inni í endunum ég gat ekki klárað ég var orðin svo södd en svo bara ,,varð ég að prófa þennan eftirrétt!" samkvæmt Simónu og þess vegna var pantaður eftirréttur til viðbótar. Ég get svarið það ég var að fara að æla ég var svo södd. Simona sagði að þegar hún væri heima þá væri sko borðað miklu meira og að ég yrði að koma til hennar í heimsókn, sem ég er fullkomlega sammála og ætla að gera vonandi sem fyrst.
Sko settu saman íslenska stelpu og napólska stelpu og þú ert komin með mjög fína og einstaklega líka blöndu. Við Íslendingarnir erum miklu líkari suður-Ítölunum heldur en norður ég er alveg búin að komast að því.
Ég á alveg rosalega mikið til í ísskápnum maður, það er núna ein pizza eftirog ég verð að skipta henni í tvennt og borða hálfa í hádeginu og hálfa í kvöld, þar sem ég get ekki farið í búðina og hef ekki haft tíma til að fara í búðina í 2 vikur. En mér finnst ég hafa verið alveg rosalega sniðug síðast þegar ég fór í búðina, að kaupa bara frosnar vörur því að annars hefði ég bara þurft að henda í ruslið.
Ég var að fá tilboð frá Kanada aftur að senda þeim uppskriftir, ég er rosalega ánægð með það. Það er Íslendingakvöldverður í september á kvikmyndahátíð sem hún vill að ég sjái um.
Ég vildi bara óska að ég gæti farið þangað og verið með í fjörinu, þ.e. að sjá um veisluna.
Ég þarf að fara að byrja á nýrri bók, mamma sendi mér nokkrar og ég ætla að fara næst í spennureyfara eftir James Patterson og heitir ,,4.Júlí".
Ég horfði á Basic Instinct og Domino í gær og Basic Instinct saug feitan ekkert smá léleg! Alveg sko VERULEGA léleg! Hins vegar var Domino ekkert smá góð, Mickey Rourke kom manni laveg rosalega á óvart, var hann ekki alltaf svo lélegur leikari? Jæja hann var það allavegana ekki í þessari mynd og Keira Knightley var ekkert smá góð, bara í alla staði mjög góð mynd.
Ég ætla að horfa á V for Vendetta í dag eða í kvöld og er það síðasta myndin sem ég á í safninu :-( þar sem dílerinn minn er í fríi þessa dagana. Ég skemmti mér yfir Kvikmynd.is í gærkvöldi í smá tíma, shit hvað sumt þarna er fyndið.
Ég fékk símhringingu í gærkvöldi frá dóttur minni og það var til að segja mér sérstaklega frá því að kötturinn Klara hefði verið að leika sér að mús og að pabbi hefði bjargað músinni og að núna skammaðist Klara sín voða mikið og lægi undir rúmi. Þegar búið var að segja mér frá þessu ætlaði ég að fara að spjalla við stúlkuna en þá fékk ég bara ,, mm.. ég nenni ekki að tala meira við þig!" og hana nú! Yndislegt hvað þessi börn eru hreinskilin.
Jæja best að fara og ná sér í einhverjar kræsingar úr ísskápnum.