þriðjudagur, nóvember 28, 2006

afmælisbarn

Sverrir að taka mynd af afmælisbarninu með afmæliskökunni, mjög góður ljósmyndari!

Eitt stykki afmæli að baki

Já við héldum upp á afmæli stúlkunnar í gær, í annað skiptið! Það var svaka fjör. Þröngt máttu sáttir sitja og allt það.
Ég ákvað að láta gesti veislunnar vera mín persónulegu tilraunadýr. Var búin að vera með nokkrar hugmyndir í hausnum fyrir brúðkaupið og ákvað að láta reyna á það í þessu afmæli. Ég var ekki alveg búin að móta allar hugmyndirnar en þær svona mótuðust eftir því sem leið á daginn, sem þýddi reyndar að ég þurfti að fara aftur í búðina 1 og hálfum tíma áður en gestirnir mættu á svæðið. En þetta var allt saman algjört sælgæti, heppnaðist rosalega vel og þá sérstaklega 2 hlutir sem ég að sjálfsögðu segi ekki frá fyrr en að loknu brúðkaupi, en mæli sterklega með. Kakan var nú ekki alveg eins glæsileg og í fyrra afmælinu, sem var Solla Stirða, en hún var þó alveg þokkaleg. Útaf því að ég hafði ekki gert neitt af þessu áður(í þessum búning) þá var ég allan daginn að þessu en fannst alveg rosalega skemmtilegt. Ég held líka að ég hafi aldrei haldið eins ódýrt barnaafmæli, það kostaði ekki nema 6000 kall og þá erum við að tala um að ég bauð uppá 4 rétti og eina köku og pönnukökur, ásamt því að vera með rauðvín, hvítvín,bjór,gos og kaffi. Helvíti vel sloppið. En um kvöldið þegar fólk var farið gat ég ekki hreyft mig af þreytu, mesti auminginn!
Sverrir náði í bílinn í gær úr skoðun og viðgerð eftir innbrotstilraun og viti menn það var alveg hreint ÓGEÐSLEGA dýrt! Við ákváðum að fara með bílinn í skoðun og viðgerð í umboðinu því að ef maður gerir það í hvert skipti þá fær maður betra verð fyrir bílinn í endusölu og þar sem ég á ekki bílinn þá ákvað ég að gera þetta. En það kostar mann helmingi meiri pening að gera þetta svona. En nú er hann allur yfirfarinn og fínn og við skulum vona að hann haldist bara svona í smá tíma í viðbót. Nú er búið að skipta um allt í honum og hann er eins og nýr. Ætla bara að vera ánægð með það!
Hekla greyið var sko ekkert á því að fara í leikskólann í dag, enda búin að vera í fríi síðan á föstudaginn. En ég ákvað að ég yrði að setja hana í dag því að með hverjum deginum verður erfiðara að dobbla hana inn í stofuna að leika sér. En krakkarnir tóku ekkert smá vel á móti henni, hlupu að henni og kysstu og knúsuðu og vildu ólm leika sér við hana. En hún tók ekkert vel í það og vildi bara vera frammi með fýlusvip. Hún lætur víst bara svona þegar ég er með henni, því að þegar ég er farin þá er hún brosandi og hlæjandi allan daginn, svo segir kennarinn hennar allavegana.
Brosum og verum glöð í dag, því að þetta verður yndislegur dagur, krakkar!

mánudagur, nóvember 27, 2006

skúra,skrúbba,bóna......

Ég er búin að vera svo hrikalega dugleg í dag að það hálfa væri nóg.
Ég byrjaði daginn á því að fara með bílinn í viðgerð í hinum enda borgarinnar, það tók 2 tíma! Því næst tók við alsherjarhreingerning. Ég er búin að gera jólahreingerninguna í ár! Ég tók eldhúsið svoleiðis í rassgatið, þreif alla veggi niður í gólf og tók líka alla veggi inni á baði.. já bara tók þetta allt saman í nefið! Enda var ég í 5 tíma að þessu, með 45 fm tel ég það ansi vel af sér vikið.
Eftir það fór ég til læknisins og fékk lyf fyrir þessum útbrotum í fésinu. Það tók 2 tíma! Nú er ég komin heim, loksins og nenni ekki að elda, enda ætlar drengurinn að gera það!
Hekla er búin að vera algjört englabarn í allan dag, alveg hreint yndisleg. Þegar við vorum að fara með bílinn í skoðun í morgun kom lag í útvarpinu sem heitir ,,I don't feel like dancing" með Scissor sisters, fólk þekkir líklegast þetta lag þar sem því er nauðgað í útvarpinu þessa dagana. Hekla sagði þegar hún heyrði það ,, Mamma, þetta er lagið hans pabba!" hahaha Sverrir HATAR þetta lag og finnst það hinn mesti viðbjóður, finnst hann aðeins rokkaðari heldur en þetta píkulag ársins. mér fannst þetta helvíti gott á hann.
Hekla er með gríðarlega þágufallssýki, hún segir í sífellu mér þegar það á frekar að segja mig og svo þegar ég leiðrétti hana og segi ,,Hekla, mig " þá segir hún alltaf, með mikilli áherslu ,,MICH" greinlega þýskutendensar hjá stúlkunni.
Ég verð aðeins að grobba mig á veðráttunni hér í þessari frábæru borg. Hér geng ég út úr húsi á degi hverjum í engu nema peysu og fer út með ruslið á stuttermabolnum, þvílíkur lúxus að fá svona veður langt fram eftir nóvember.

Annars er því frá að segja að á fimmtudaginn fórum við í appiritivo og fengum okkur aðeins neðan í því og átum á okkur gat og spjölluðum langt fram eftir kvöldi. Þetta fór allt saman fram rétt hjá Gunna og Höllu Báru og buðu þau okkur í eftirpartý heima hjá sér. Við ákváðum því að skilja bílinn eftir uppfrá og tókum leigubíl heim. Þegar ég kom svo daginn eftir að sækja bílinn hafði verið reynt að brjótast inn í bílinn(eða það gert en engu stolið???) því að það var búið að eiðileggja lásinn á hurðinni. En ég fór þó með ferilskrána mína á einn stað þar sem Jole var búin að hringja á undan mér. Fyrirtæki sem sér um mat í einkaþotur, ég hélt að þetta væri nú reyndar aðeins meira spennandi en raun bar vitni og vinnutíminn ekki alveg nógu skemmtilegur og um leið og ég sagði að ég væri með barn þá bakkaði pían þvílíkt. En hún sagði að ég gæti kannski hjálpað til á skrifstofunni þar sem þær væru ekki að leita að neinum í eldhúsið, þar sem ég tala ensku mjög vel og dönsku og er að verða fær í ítölskunni. Ég sagðist alveg vera til í skrifstofuna líka og að þær ættu bara að hringja ef þær vantaði einhvern. Ég var nú bara mjög jákvæð og svona en ég er ekki bjartsýn á þetta. En við bara sjáum til hvernig fer.
Á laugardaginn fórum við svo á jólabasar í skólanum hennar Heklu, eitthvað sem mér þykir mj0g skemmtilegt og Heklu líka en Sverrir er ennþá á móti þessari stefnu og ég skil ekki af hverju. Jújú þau eru pínu sérvitur en það er nú bara mjög fínt fólk sem er með Heklu í bekk og þau sem ég hef talað við þarna. Ekkert að óttast þar.
Á sunnudaginn fórum við svo enn eina ferðina í IKEA og eyddum enn meiri pening... en þetta var allt saman sem við þurftum á að halda og er íbúðin að verða mjög fín. Ég tók reyndar eftir því að það var að losna 3ja herb.íbúð í húsinu okkar og ég spurði að gamni húsvörðinn hvað hún kostar á mánuði og hún sagði 1000 evrur en að hún væri líka risastór. En ég ætti bara að vera róleg og bíða heldur eftir 2ja herb. íbúð hér því að þær eru kannski 100 evrum meira en okkar og við fáum á móti aukaherbergi. En ég ætla að hætta að láta mig dreyma um stærri íbúð.. Eins og Sverrir sagði... á meðan við erum í lítilli íbúð getum við leyft okkur aðra hluti! Rétt er það, ég nenni ekki að fara að elda baunir og hrísgrjón í hvert mál.
Svona leið helgin hjá okkur. Hvernig fór hún hjá ykkur? Einhverjar kojur teknar?

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Jólafiðringurinn!

Jæja krakkar mínir er jólafiðringurinn farinn að fara í ykkur, maður fær ekki eitt lítil, pínku,obbuponsu lítið comment.
Ég satt best að segja finn ekki fyrir jólafiðring,stressi eða neinu slíku, er barasta sallafokkingróleg!
Hekla var alveg rosalega dugleg í morgun, hún bað mig ekki um að sitja hjá sér og maðurinn með flauturnar kom og hún sagðist vilja vera með í dansinum með krökkunum. Til frekari skýringar þá er maðurinn með flauturnar einhvers konar danskennari, í Steiner reglunni er kenndur sérstakur dans, sem á að ráða sérstaklega við stress og kvíða og alls konar fleiri kvilla sem fylgja nútíma lífi, frá 4 ára aldri og upp í 19 ára. Hingað til hefur Hekla litla verið afar hrædd við þennan mann og ekki alveg skilið hvað var í gangi en í dag var hún til í tuskið og vildi vera með krökkunum. Ég var mjög stolt! Um helgina verður svo jólabasar og þangað munum við fara ásamt Jole og Gunna og Höllu Báru og krökkunum, það verður fjör. Svo á sunnudaginn förum við á antíkmarkað sem er haldinn síðasta sunnudag í hverjum mánuði rétt hjá þar sem þau eiga heima.

Ég gerði dýrindis hollustu mat í gærkvöldi og ef hann var ekki bara grennandi líka, ha.

Grillaður lax borinn fram með steiktum ananas og cilli, og linsubaunum

Lax fyrir 4
3/4 ananas(4 bollar)
2 hvítlauksrif
1 skallottlaukur
1-2 chillialdin(fer eftir hvað þið viljið hafa þetta sterkt)
1/3 bolli kóríander
1 tsk sykur(má sleppa, sérstaklega ef ananasinn er sætur)
salt og pipar

Ananasinn er skorinn í munnbita, skallottlaukurinn er skorinn í sneiðar og chillialdinið er saxað. Hvítlaukurinn, chilli og skallottlaukurinn er léttsteikt í smá olíu(ef notaður er teflonpottur þarf mjög litla) bætið svo ananasinum, sykrinum, saltinu og pipar og steikið við meðal hita þar til ananasinn hefur mýkst. Bætið söxuðum kóríander útí rétt áður en þetta er borið fram.

Linsubaunir með gulrótum og sellerírót(eða steinseljurót)
150 gr linsubaunir
1 meðalstór gulrót
1/2 lítill haus af annarri rót
1 meðalstór blaðlaukur(má sleppa)
2 msk gróft söxuð steinselja(má líka sleppa)
2 msk klassískt vinaigrette, sem er 1 msk balsamic edik og 3 msk olía)

Setjið baunirnar í sjóðandi saltað vatn og sjóðið í ca. 15 mínútur. Sigtið og saltið og piprið.
Skerið gulrótina og hina rótina og laukinn ef hann er notaður í mjög litla bita og léttsteikið þar til það er farið að litast örlítið 5-7 mín. Bætið linsubaununum útí ásamt steinseljunni og síðast 2 msk af vinaigrettinu.
Það er líka hægt að gera þetta einfaldara eins og ég gerði í gær og það tók mig ca. 5 mínútur allt saman.
1 dós soðnar linsubaunir
1/4 tsk rifinn engifer
gulrót og einhver önnur rót, skorið mjög smátt
salt og pipar.
Léttsteikið grænmetið þar til það hefur fengið á sig smá lit, bætið þá engiferinu útí og síðast linubaununum og hitið í nokkrar mínútur.
Síðast er laxinn skorinn í steikur og grillpannan smurð með olíu, þá er best að hella olíu í tissjú og láta það drekka í sig olíuna og smyrja svo pönnuna, setjið skinnið fyrst niður og steikið við meðalhita í ca.5 mín. eða þar til laxinn er orðinn fölbleikur næstum alveg upp að sárinu, smyrjið sárið með smá olíu og piprið og snúið honum þá við og steikið áfram í ca.3-4 mínútur. Takið hann af og berið strax fram ásamt hinu. Ég hafði líka ferskt salat en það þarf ekkert endilega, ég er bara háð því að fá ferskt salat með öllum mat.
mmmmm..........
delicious

3 færslur á einum degi,það er ágætt!

ég hefði alveg eins getað fengið mér extra stórann hamborgara frá Nonna bitum! Þetta salat sem ég var að borða í síðustu viku var soldið mikið fitandi ég veit það núna og geri mér grein fyrir því og einnig viðurkenni! DEM! Eftir frekari rannsóknir þá hef ég komist að þessari niðurstöðu og mun ég ekki aftur plata sjálfa mig á þennan hátt. Fékk ég mér því salat með tómötum,blönduðu salati, furu-og pecanhnetum ristuðum á teflon pönnu, rifnum gulrótum og ólífum(í vatni) með örlítilli olíu(ólífu) og balsamicediki og að sjálfsögðu salti(maldon) með þessu drakk ég sódavatn! Þetta var þrátt fyrir allt saman bara ágætis salat! Ég mun halda þessu áfram fram að giftingu! Ég er búin að setja allt nammi og snakk í poka, keypti engan bjór og ekkert vín og fullt af salati og babygulrótum, las yfir manninum mínum að ef hann hjálpaði mér ekki við þessa megrun að þá myndi ég fita mig sérstaklega mikið og hann myndi þurfa að giftast ofurfeitri konu!
Það kom reyndar ekkert mjög mikið við hann því að ég hef verið soldið feit og honum fannst ég alltaf jafn falleg, þessari elsku!
nei ég sagði honum að hann bara YRÐI að hjálpa mér, þetta gengi ekki lengur svona.... þetta sukk og svínarí á okkur. Fer á morgun að leita að jógastöð.... hmmm.. æ.. ætlaði ég ekki að gera það í dag??? getur verið! En nei það verður þá bara á morgun, því að þá verð ég með GPS tæki í láni og get því fundið þetta án vandræða!
Á morgun segir sá lati!!!! Ég segi á morgun án leti!

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Tölum aðeins um Heklu

Heklu litlu líður mjög vel hér, Sverrir var að taka upp úr kassa gamla dúkkuhúsið hennar og hún var alveg í skýjunum yfir því.
Hún er enn í því að búa til leikrit allan daginn og fer með öll hlutverk í leikritinu. Sme fer yfirleitt þannig fram að hún kallar ,,Ronja,Ronja komdu, já hoppaðu bara!" svo kemur ,, Já Borki ég er að koma!" og þannig heldur þetta samtal áfram í ca.30 mín. eða stundum jafnvel lengur. Hún ruglar líka soldið textum í lögum t.d. er hún núna búin að líma inn í heilann sinn að Guttalagið sé svona: .....Hvað varst þú að gera Gutti minn reifstu svona jakkann þinn og nýja jakkann þinn, ræningjarassinn þinn......
og svo segir hún þessa setningu aftur og aftur og aftur þar til ég og pabbi hennar getum ekki meir og biðjum hana vinsamlegast að syngja eitthvað annað lag.
Hún er ennþá, sem betur fer, algjört kelidýr og knúsar mig og kyssir allan daginn. Hún er líka hin mesta svefnpurka eins og faðir sinn og að koma þeim tveimur á fætur á hverjum morgni er ekkert smá mál, það tekur vekjaraklukkuna og mig a.m.k. 40 mínútur að vekja, svo er restin eftir að klæða, borða og koma sér út. Þannig að þetta tekur allt saman dágóðan tíma.
Hún getur líka dundað sér í baði í 1 1/2 klukkutíma, ég þarf að fara á 15-20 mín. fresti til að hita baðið upp fyrir hana svo að hún forkalist ekki.
Hún sagði við mig um daginn ,, mamma þetta er alveg ómögulegt!"
,, nú?" segi ég, þá sagði hún ,, já að hafa rúmið ennþá og það er kominn dagur, það er alveg ómögulegt!"
Já ætli hún hafi ekki haft rétt fyrir sér enda hef ég haft það fyrir reglu að hafa aldrei rúmið yfir daginn, aðeins á nóttunni.
Já það er sko gaman að vera mamma!

Er tími til að elska?

Þegar maður leggst upp í rúm á kvöldin af hverju tekur maður sér ekki eina mínútu í það að gefa elskhuga sínum(eiginmanni,eiginkonu, rekkjunauti.... hvernig sem þið viljið hafa þetta) einn unaðslegan koss. Einbeita sér að fullum og þrýstnum vörum hans(hennar), gefa frá sér örlítið votann koss, stuttann en heitann og fullann af ást og unaði. Strjúka vangan örlítið og horfa djúpt í falleg augun og steypa sér á bólakaf í hafsjónum og hugsa hversu ofboðslega þú elskar þessa manneskju og jafnvel koma því í orð.
Bara svona í staðinn fyrir að snúa sér á hina hliðina og bjóða góða nótt.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Svoooo veeeik

Ég er með alveg hrikalega mikla flensu og allt sem henni fylgir.
Líkamlega líður mér hörmulega en andlega er ég í skýjunum! Brúðarkjóllinn var að koma í hús og hann er fullkominn.... Hann er alveg ofboðslega fallegur og vel með farinn og mikið í hann lagt og ég fékk hann á algjört BARGAIN! Bara svona til að nota góða íslensku.... Annars þarf aðeins að víkka hann um rifbeinin(ekki hægt að grenna mig þar :(, samt nett fegin því þá þarf ég ekki að fara í megrun!) og það ætti að vera hægt, vona ég, húsvörðurinn ætlar að fara með mér í kvöld til saumakonu sem hún þekkir til að athuga hvort það sé hægt. Ég bjóst nú alveg við því að það myndi þurfa að laga hann aðeins, ég meina ég keypti jú án þess að máta! Það sést ekki á honum að hann sé gamall og það er bókstaflega ekkert að honum, engir blettir, engin lykt ekkert að....bara fullkominn!
Helgin var mjög skemmtileg, við vorum að passa 2 börn, eða einn 11 ára og eina 3 1/2 árs og það var bara mjög skemmtilegt! Hlynur var líka hér og það var mjög gaman að fá svona gest, lífgar aðeins upp á tilveruna..... það var sem sagt mikið spjallað og mikið hlegið þessa helgina. Við erum jú mestu sullarnir með myndavélina og tókum held ég bara engar myndir! En ég tékka á eftir hvort ekki sé eitthvað nýtt inni á henni.
Það er svo fyndið kvefið sem ég fæ alltaf... það sem sagt rennur stanslaust þunnt hor(eins og vatn eða tár)úr nefinu mínu þegar ég stend upp! Þannig að ég þarf beisiklí að troða klósettpappír upp í nefið á mér því að kitlið sem myndast við þetta rennsli er gjörsamlega óþolandi! Sverri finnst ég gjörsamlega ómótstæðileg svona, hann er alltaf að nudda sér upp við mig þegar ég er svona með klósettpappírinn í nefinu og tárin flæða úr augunum, exemið helmingi verra en áður og til að toppa allt saman, beit mig fluga í nótt á mitt ennið þannig að ég er með nett einhyrningshorn þar.
Lífið er gott!!!

föstudagur, nóvember 17, 2006

Nýjar myndir

jæja
Ég hef sett nokkrar nýjar myndir inn á myndasíðuna, ég ætlaði að reyna að gera svona skemmtilega flott hér en allt kom fyrir ekki og ég gafst upp og gaf tölvunni leikinn! Ef einhver kann að gera svona frá photobucket endilega deilið með mér.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

yoyo

Vikan er búin að ganga bara sinn vanagang. Ég er byrjuð að prófa ýmsa rétti fyrir brúðkaupið, þar sem ég ætla að gera matinn sjálf(nema á laugardeginum að sjálfsögðu!). Prófaði einn í gær sem er algjört sælgæti en er soldið erfitt að borða, en ég ætla að reyna að redda því einhvern veginn. Segi að sjálfsögðu ekki hvað er í honum, því ég vil ekki að allir komi í brúðkaupið og segi ,, já þessi ég var með þetta um daginn, rosalega gott!" fólk á frekar að segja ,, nei vá hvernig datt henni þetta í hug, aldrei smakkað þetta áður, algjört sælgæti, ha!" Nei nei smá spaug, það verður ýmislegt gamalt og gott og svo eitthvað nýtt inn á milli. Er ennþá að vandræðast með köku samt. Það reddast, nægur tími!
Sverrir var hinn gáfaðasti í gær, hann stilti vekjaraklukkuna eins og venjulega og við vöknuðum við hana nema hvað að við söfnuðum öll aftur og svo segir Sverrir við mig að klukkan sé að verða 8 og við förum á fætur og gerum okkur til eins og venjulega, nema hvað að klukkan var að verða 9 ekki 8 þannig að við vorum öll orðin of sein! En við ákváðum að gera bara gott úr þessu og fórum yfir til Sviss í stórt outlet þar sem er með öllum helstu merkjavörunum eins og , Valentino,Armani, DogG o.s.frv.(okok ég veit að það er nett halló að fara yfir til Sviss fyrir þetta en við þurftum að kaupa giftingarföt á Svessa minn!) Nema hvað að þetta var allt saman frekar lummó en við vorum að leita að jakkafötum sem breytast ekki mikið og er mér nett sama hvort að þau séu ,,last season" eða ekki, sérstaklega þegar Sverrir er búinn að eiga sín í 8 ár! En viti menn við dettum niður á ein helvíti flott í Dolce og Gabbana og bara skelltum okkur á þau og hann hefur aldrei verið flottari og heldur höfum við aldrei keypt eins dýr föt! En samt sem áður fengum við fötin á 60% afslætti. Málið var að það var búið að dragast aðeins til í þeim( sem sést ekki neitt) og þetta voru síðustu fötin þannig að hún gaf okkur auka 10% afslátt ofan á 50% þannig að í rauninni fengum við skyrtuna(sem er líka DogG) fría. Fötin áttu upprunalega að kosta 140.000 kall!
En ég er mjög ánægð að hafa klárað drenginn og við næstum því fengum skó líka, nema hvað að þeir voru ekki til í hans númeri, það voru Prada skór sem áttu að kosta 12.000. Geðveikt flottir en það þýðir ekki að gráta það.
Við verðum flottasta parið í bænum, þ.e. ef kjóllinn minn kemst í hús. Hann er ekki ennþá kominn en ég held enn í vonina það var sagt 7-10 dagar og það eru 2 dagar eftir. Vonum það besta.
Hlynur vinur er kominn í heimsókn og gistir núna hjá okkur, greyið er bara inni í eldhúsi, en það er kannski bara best þá þarf hann ekki að vakna þegar við vöknum og svona, er bara með sitt eigið herbergi, þó að það sé eldhúsið!
En Dýrið mitt þú þarft nú ekki að bíða lengi eftir að komast á koju með hjónaleysunum því að við vorum að sjá að á netinu er hægt að fá miða fyrir bókstaflega skid og ingenting! Það var sem sagt hægt að fá far fyrir 0.1 evru +skattar þannig að í rauninni var maður bara að borga fyrir skatta! Ekki slæmt að fara til London fyrir 4000 kall á manninn, ha!
En nú ætla ég að fara að vinna í myndasíðunni okkar.

Hvernig finnst ykkur nefið? stórt þá eða???

Hvernig finnst ykkur nefið? stórt þá eða???

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Como

Við fórum upp að Clooney vatninu eða Como eins og það heitir víst. Ég var mjög svekkt þar sem við sáum bara eitthvað vatn og fjöll en engan George Clooney!
En annars var þetta alveg ótrúlega fallegt vatn og allt þar í kring. VIð fórum með Gunna og Höllu Báru. Við keyrðum mikið en stoppuðum svo á pizzastað og fengum mjög góða pizzu lögðum svo í hann á ný og fórum í Cittá di Como og þar stoppuðum við(eftir að hafa leytað að bílastæði í 30 mín.)og skoðuðum okkur aðeins um, m.a. fallega kirkju, fórum svo heim á ný. Þegar heim var komið fengum við okkur saman sushi og stelpurnar fengu að leika sér soldið saman, sem þær fá beisiklí ekki nóg af. Þetta endaði í smá drykkju hjá hjónaleysunum, hjónin sjálf héldu sér nett þurrum en við Svessi rokk erum soldið blaut þannig að við drukkum bara og drukkum.Fórum svo heim um 2 leytið og skildum dótturina eftir. Ekkert að óttast þar því að hún var svo fúl þegar við komum að sækja hana daginn eftir að það hálfa, vildi bara leika við hana Leu sína.
Þetta var allt saman alveg frábært, mjög skemmtilegt.
Ég ætlaði reyndar að segja frá því að ég og hinn helmingurinn fórum á koju á föstudeginum og grófum upp ýmsan skít um hvort annað, eða þannig, við nefnilega vissum ekki ALLT um hvort annað áður en við fórum að vera saman, einmitt!
Það er alltaf svo gaman að fara með Sverri mínum á koju, við erum nefnilega svo skemmtileg með víni, sjáiði til!
Í gær gerðum við hins vegar reginmistök! Við fórum í IKEA, ég meina hvað á maður annað að gera þegar sólin skín og það er svo hlýtt að maður er bara á peysunni!
En annars var nett þörf á þessu, mig langaði nefnilega helst til að æla á baðherbergisgólfið þegar ég gekk þar inn. Ég held að þegar ég flyt inn í nýja íbúð þá fari einhver varnarstarfsemi í gang hjá mér og mér finnst bara allt svooo fínt, já-já-þetta-er-allt-í-lagi fílíngur fer í gang og ég sætti mig við ótrúlegustu hluti eins og t.d. þetta baðherbergi sem er mesti viðbjóður og ég fékk nóg í gær. En við erum núna búin að bæta allt saman og líka aðeins að bæta eldhúsið og þetta er allt að koma. Ég meina ef við ætlum að vera hér í 2 ár í viðbót þá bara verðum við að vinna í íbúðinni. Ég ætla að reyna að dobbla Sverri til að fara í vinnugallann næstu helgi og jafnvel hóa í Gunna og mála skrímslið! Það er sko þörf á því þar sem það hefur ekki verið málað hér síðan 1973(án gríns!Jole sagði mér það) og það er mesti viðbjóður hér, svona til að lýsa þessu nánar þá get ég ekki strokið með rökum klút af veggjum hér(ekki einu sinni þurrum) því að þá fer málningin bókstaflega af! og þegar maður strýkur eftir veggjunum með höndunum þá er maður með kalk á höndunum eins og eftir krít! En hingað og ekki lengra við förum með þetta alla leið og lögum þetta!
Ég held að ég hafi komist að niðurstöðu í mínu vandamáli að geta ekki skilið eftir einn bita á disknum mínum! Ég vorkenni honum! Mér finnst hann eitthvað svo einmana þarna að ég bara verð að gera eins við hann og vini hans og fjölskyldu.....borð'ann.
Ég var rosalega dugleg á föstudaginn og tók bílinn í gegn, skipti um peru í honum og þvoði hann og bónaði og svo í dag er hann næstum því jafn skítugur og hann var áður.Það er svo skemmtilegt að þrífa eitthvað hér í þessari borg því að það verður allt skítugt aftur eftir 2 daga.
Hvílík geðsýki sem var í IKEA í gær, við fórum þangað um 13 leytið en svo þegar við vorum á leiðinni heim um 17.00 þá var röð inn á svæðið frá hraðbrautinni! Ítalirnir fara nefnilega þangað á sunnudagskvöldum til að fá sér sænskar kjötbollur og versla í leiðinni!
Ég keypti mér naglaþjalir, óójá naglaþjalir ég er nefnilega að undirbúa mig fyrir brúðkaup sko.... Þeir sem þekkja mig vita að ég er líklegast með ógeðslegustu neglur sem fyrirfinnast þar sem ég er alltaf að skera af þeim helminga og toppa o.s.frv. þá líta þær síður en svo vel út! En nú er ég ekki að vinna á veitingastað og get loksins haft þær fínar, mér finnst ég svo konuleg þegar ég er að þjala, það er mjög gaman. Loksins get ég farið í pæjuföt á hverjum degi og gert mig fína, það er mj0g indælt að vera ekki alltaf geðveikt sveitt og morkin í galla fullum af matarslettum og ógeði með hníf í hendi og plástur á öllum puttum!
Ég gerði rosalega gott pastasalat í gær með fullt af góðgæti í. Í því voru : túnfiskur, ólífur, tómatar, harðsoðin egg, döðlur, parmesanostur, mozzarellaostur og ristaðar pecanhnetur. Dressingin var: hálf tsk dijon sinnep,1 msk hvítvíns edik og 2 msk ólífuolía(extra virgin). Þetta var algjört sælgæti!

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Aldrei að baka súkkulaðiköku aftur!!!

Hekla hefur ekki borðað neitt af henni, Sverrir eins og t.d. 3 sneiðar og ég restina og get ekki hætt. ÉG GET EKKI HÆÆÆÆÆTTT!!!!!

Aukahendur, auglýsi eftir aukahöndum....

Fór í lestina í dag og sá móður í sömu aðstöðu og ég er í á hverjum degi.....ekki með nógu margar hendur, svo einfalt er það. Mér finnst að þegar maður fæðir barn eigi að fylgja með aukahendur sem maður getur sett á sig og tekið af að vild og þær fúnkera fullkomlega eins og venjulegar hendur!
Ég er að verða jafnfræg og systur mínar, ha! Ég var í bænum í dag og var nokkuð vel klædd, þó ég segi sjálf frá, það var ekki nógu mikið horft á eftir mér, var nett komin með nóg þegar ég kom heim og þá var einn maður búinn að elta mig heim úr lestinni! En hvað um það, það sem ég ætlaði að segja var að þegar ég var að labba niðri við Duomo þá koma að mér tveir skælbrosandi Japanir og spyrja mig hvort þeir megi taka mynd af mér fyrir japanskt tískublað og þau tóku nokkrar myndir og svo tóku þau niður nöfnin á merkjunum sem ég var í sem voru mjög mikilvæg og stór merki eins og t.d.HogM og útimarkaður hér við húsið mitt og verlsanir með notuðum fötum. Ekkert Armani þar get ég sagt ykkur!

Ég reyndi í annað sinn að fara í vintage búðina sem ég er búin að sjá hér og það tókst jafnvel og síðast, hún var aftur lokuð! En ég mun reyna aftur og það mun takast að koma mér þarna inn.
Ég fór svo í HogM við San Babila(rétt við Duomo) og þar var lítil geðsýki í gangi, allt allt of mikið af fólki. Fann mér pils og brjóstahaldara og gat ekki einu sinni mátað. Ég komst svo reyndar að því hvers vegna fólk var eins og geðsjúklingar þarna inni og var það útaf einhverjum hönnuðum sem heita Victor og Rolf eru að selja HogM línuna sína í þessari verlsun. Ég er að sjálfsögðu mikið inni í tískuheiminum og veit allt um þessa menn, eða þannig!
Ég er farin að borða salat í hádeginu núna og það samanstendur af: salati(rucola/babyspínat), döðlum,ólífum,túnfisk, ristuðum pecanhnetum,tómötum og mozzarella, og ef einhver dirfist að segja mér að það sé örugglega jafnmikil fita í þessu og í samloku með prociutto,osti, majó og sinnepi þá á sá hinn sami ekki sjö dagana sæla héðan í frá,OK!
Ég hef ekki fengið mér bjór eða vín í viku núna og ég sé engan mun ennþá á húðinni í fésinu, ekki sátt.
Hekla er orðin svo dugleg í leikskólanum, ég er alveg rosalega stolt af henni, nú þarf ég bara ð sitja hjá henni í 10 mínútur korter og fer svo og kem og sæki hana klukkan 15.30. Ég held að þetta fyrirkomulag sé miklu betra en að hafa hana bara til klukkan 13.00 því að svona lærir hún meira. Það tekur á að læra, maður!
Hekla er núna að leika einleik fyrir mig, hún er Solla stirða og Halla hrekkjusvín þegar þær eru í fangelsinu og fer með þetta allt saman orðrétt, bæði hlutverkin. Ekkert smá sætt!!!
Ég ákvað að reyna að fita dóttur mína með súkkulaði köku, en allt kom fyrir ekki hún hefur ekki tekið einn bita af kökunni og ég er búin að borða hana alla. Hún er ekki með venjulega bragðlauka, þetta barn!

mánudagur, nóvember 06, 2006

fita barn, grenna mig... hvernig fer ég að???

Tengdamóður minni tókst með eindæmum vel að fita dóttur mína í sumar og svo um leið og ég fæ hana til mín byrjar hún að horast niður, ég bara skil þetta ekki. Ég held að ég verði bara að hafa tvíréttað á hverjum degi, kjötbollur og sósu og smjör í matinn fyrir Heklu og Sverri og salat fyrir mig. Maður verður nú að líta vel út fyrir brúðkaupið. Ég held reyndar að ég sé haldin einhvers konar syndromi,því að í hvert skipti sem ég segi við sjálfa mig,, nú ferðu í megrun og hættir þessu áti,, þá fer ég að éta helmingi meira en áður.
Ég hef versnað til muna í andlitinu og lít ég núna út eins og híena eftir slag við ljón, enda var drukkinn bjór og hvítvín um helgina, en á föstudaginn var ég næstum orðin góð og hafði þá haldin bjór og vín bindindinu í 2 vikur. Ef ég lagast ekki eftir 2 vikur þá fer ég til læknis.
Sjónvarpið er reyndar alveg að gera sig, núna getum við horft á almennilegar bíómyndir, á ensku, en ekki einungis það heldur líka eru allar ítölsku stöðvarnar orðnar skýrar og fleiri þannig að við getum líka horft á fréttir og ljóshærðar, barmastórar lítalæknisstelpur. Æði!
Ég hef núna klárað bæði Paulu og Fridu, eftir Bárbara Mujica. Mér fannst Paula algjör snilld, enda er Isabel Allende ein af mínum uppáhaldsrithöfundum en hins vegar var ég ekki eins hrifin af Fridu. Mér fannst hún alltaf út alla bókina,sem er ekki stutt, vera að tönnlast á sama hlutnum. Hins vegar er þetta náttúrulega hrífandi persóna og gaman að lesa um hana og hennar líf en svo aftur á móti er þetta skáldsaga þannig að það er náttúrulega takmarkað sem er satt í bókinni. Mér fannst hún ekkert rosalega skemmtileg sem sagt. En nú er ég að verða uppiskroppa með bækur og er aðeins ein eftir og er það Violets are Blue eftir James Patterson. Sjáum hvernig hún er....
Hekla var ekki alveg nógu dugleg í leikskólanum í gær, litla greyið, hún er svo hryllilega feimin. Ég vona að það gangi betur í dag. Við erum nefnilega að prófa að hafa hana allan daginn. Ég held að það flýti líka fyrir tungumálinu hjá henni að vera lengur á daginn, frekar en þessa 4 tíma sem hún er búin að vera hingað til.
Ég gerði kjötbollur í gær, en það er hennar uppáhald, þar sem hún borðaði ekki neitt í leikskólanum(gaman.. eða þannig) og hún borðaði alveg heilmikið sem betur fer, og svo sá ég til þess að það yrði afgangur svo að hún gæti farið með í leikskólann. Það má nefnilega koma með nesti handa krökkunum ef maður vill, þannig að héðan í frá fær hún kjötbollur,fiskibollur, pasta pesto og allt sitt uppáhald til þess að hún hverfi ekki bara með einu og öllu.
Hún kom til mín í gær þegar ég var fyrir utan skólastofuna hennar og sagði ,, ohhh mamma það eru svo mikil læti þarna inni, í leikskólanum hjá ömmu Margréti eru ekki svona mikil læti!" Já Ítalirnir eru svo sannarlega með meiri læti en Íslendingarnir og það er bara eins gott að hún fari að venjast því, held ég bara.
Mér finnst ég bókstaflega vera með rýting í hjartanu allan daginn á meðan hún er í leikskólanum og kennarnarnir hennar eru sko ekkert að reyna að láta manni líða betur. Þegar maður kemur horfa þær á mann eins og ég sé versta mamma í heimi og lýsa deginum á þennan hátt með mikilli dramatík í röddinni ,, guð, ertu komin, það gekk sko ekki vel í dag, hún grét og grét og borðaði ekki neitt og vildi ekki fara út að leika og vildi ekki sofa og ég þurfti að vera með hana í allan dag, þetta var sko ekki góður dagur fyrir hana!!!" Ekki skemmtilegt, ha? Mannig líður andskoti nógu illa að hafa hana þarna, en að fá svona móttökur er sko ekki auðvelt að höndla.
Þetta kemur allt saman, ég verð að vona það besta, það gekk mjög vel í fyrra og það hlýtur að gera það núna líka. Tekur bara smá tíma, verð að vera róleg!
Það er svo falleg veður hér í Mílanó, það er alveg yndislegt. Dag eftir dag er sól og blíða, það hefur reyndar kólnað mikið en samt sem áður er það í lagi því að sólin skín og vermir manns kropp.
Öll góð megrunarráð eru vel þegin!!

laugardagur, nóvember 04, 2006

Lostæti!

Máltíðin í gær var með eindæmum glæsileg.
Hátíðin byrjaði með appiritivo þar bauð ég upp á : ricotta-og gorgonzola kampavínsblöndu, andapaté,trufflusalsiccia, prociutto cotto og crudo(á íslensku kallast það eðalskinka og prosciutto), 2 tegundir af marineruðum ólífum og lítil kringlótt chillialdin fyllt með túnfisk, lögð í olíu. Allt saman æðislegt. Með þessu drukkum við stelpurnar prosecco og strákarnir bjór.
2.réttur: Jerúsalem ætiþistlasúpa með stökku beikoni
3.réttur: Graskersfyllt ravioli með púrtvínsrjómafroðu og trufflum.
4.réttur: Kahlúa-og púrtvínsmarineraður kjúklingur borinn fram með rauðrófu-epla-og b eikonchutney og ofnbökuðum kartöflum.
5.réttur: Hvítsúkkulaði-og vanilluparfait borið fram með karamelliseraðri mjólk

Þetta var algjört sælgæti!

Gagnrýni frá mínumvangefna matreiðslumannshuga: súpan var of þykk :(, sósan með raviolíinu er betri með sherrýi og alvöru soði trufflan ekki jafn bragðmikil og franska trufflan, kjúklingurinn var þurr og eftirrétturinn var ekki nægilega frosinn!
Ég var ekki sátt við sjálfa mig. En allir nutu matarins og ég að sjálfsögðu líka og þetta var alveg rosalega gott það er bara alltaf hægt að gera betur! Ég verð að fullkomna mig þetta gengur ekki svona!
Það var líka frábært að ég hringdi og fékk fleiri sjónvarpsstöðvar frá internetfyrirtækinu okkar eða þannig, við erum sem sagt núna að borga 14 evrur á mánuði fyrir ekki neitt nema cartoon network, sem var að sjálfsögðu ekki tilgangurinn með þessum kaupum!
Við vorum í allan dag að labba í bænum eða réttara sagt í nákvæmlega 7 tíma, enda erum við örþreytt þessa stundina að reyna að kreista einhvern andsk. út úr þessu blessaða sjónvarpi!
Best að fara á ebay það gæti verið að maður sé bara komin með kjól!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Get ekki beðið!

Nei ég get ekki beðið þar til á morgun... shit er föstudagur á morgun!!!!
Ég mun nefnilega gæða mér á trufflunni á morgun og er orðin svo stressuð að hún sé að missa bragðið í ískápnum hjá mér. Ég er samt að geyma hana rétt og allt ég er bara eitthvað að stressa mig á þessu.

Ég er núna á blæðingum og get ekki hugsað um neitt annað allan daginn en hnausþykka, mjúka, heita, dökka súkkulaði köku gerða úr 70% súkkulaði með unaðslegu súkkulaði kremi mmmmm.....
Ég er líka svo uppstökk allan daginn að ég er að bilast á sjálfri mér. Í hvert einasta skipti sem ég stekk uppá nef mér fatta ég það og verð svo pirruð á sjálfri mér fyrir að hafa stokkið yfir bókstaflega engu! ohhh AF HVERJU! AAAF HVERJUUHUUHU! Þurfum við að fara á túr af hverju gat ég ekki fæðst sem karlmaður? Hvílíkur galli á likama að þurfa að ganga í gegnum þetta MÁNAÐARLEGA!
Ég er líka með í maganum allan morguninn yfir Heklu minni, litlu sætu Heklu minni sem er svo dugleg að vera í leikskóla þar sem hún skilur ekki neitt. Mér finnst eins og það sé verið að toga í hjarta mitt í hvert einasta skipti sem ég segi við hana ,, nú þarf mamma að fara og ég sé þig á eftir". Þegar hún horfir á mig með þessum biðjandi augum eins og hún sé að segja,, í guðanna bænum,mamma, ekki skilja mig eftir hjá þessum geðsjúku kyssandi krökkum sem strjúka á mér hárið í tíma og ótíma, babblandi eitthvað bullmál!". En þetta verð ég víst að gera ef ég ætla mér að gera eitthvað úr mínu lífi eftir áramótin.
Ég er búin að senda frá mér fullt af uppskriftum á síðustu dögum og nú er bara að pressa á píurnar og sjá hvað þær segja, vonandi verður nú eitthvað úr þessu. Vaknaði eldsnemma í gærmorgun til að klára eina grein ég var orðin svo stressuð yfir henni að ég gat ekki sofið, þá er bara best að fara fram úr og skrifa eins og brjálæðingur ekki satt??
Ég gerði risotto í gær úr þurrkuðum Porcini sveppum, sem ég hafði keypt á truffluhátíðinni um síðustu helgi, og helltum við svo truffluolíu yfir ásamt nýjum parmesan osti, hvílíkur unaður! Ég gerði fyrir okkur 3 úr 300 gr. af hrísgrjónum og Sverri fannst þetta svo gott að hann át næstum allt saman! 300 gr eru fyrir ca.4.
En nú líður að því að fara að sækja Heklu.
Lifið heil!