fimmtudagur, september 24, 2009

Gulrótarkaka

Þetta er án efa besta gulrótarkaka sem ég hef smakkað, hún er svo safarík og mjúk og yndisleg eitthvað, enda er hún frá mömmu sem er að sjálfsögðu besti kokkur í heimi.
Ég helmingaði uppskriftina í þetta skiptið og setti í lítið hringform og svo afganginn í muffins form og það kom bara rosalega vel út.
Ég er þessa dagana meira fyrir að baka en að elda mat þannig að ég hendi í köku og eiginmaðurinn sér okkur fyrir næringu á kvöldin og er bara búinn að standa sig með prýði.
En hér er uppskriftin af bestu gulrótarköku í heimi

Gulrótarkaka

400 ml hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 tsk matarsódi
1,5 tsk salt
2.5 tsk kanill
400 ml sykur
300 ml matarolía
4 egg
600 ml rifnar gulrætur(ég ríf þær gróft)
1 stór appelsína skorin í litla bita
100 ml saxaðar valhnetur
200 ml kókosmjöl

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið hringsmelluform, gott að setja smjörpappír í botninn.
2. Hrærið saman sykri,eggjum,hveiti,lyftidufti,matarsóda,salti,kanil og matarolíu
3. Bætið svo við gulrótum,appelsínu,valhnetum og kókosmjöli
4. Hellið í formið og bakið í 1.5 klst. Látið kólna alveg áður en kremið er sett á.

Krem
100 ml smjör, við stofuhita
200 ml rjómaostur
4-5 msk flórsykur
smá vanilludropar

Aðferð:
1. Hrærið saman smjöri,rjómaosti,flórsykri og vanillu og smyrjið á kökuna.

mánudagur, ágúst 31, 2009

Sinneps-og hunangsgljáður kjúklingur með ratatuille

Ég var að nýta afgangana af grænmetinu frá grænmetislasagnainu sem ég gerði í síðustu viku. Þannig að uppskriftin er soldið lituð af því og gæti kannski verið betri en mér fannst þetta koma mjög vel út. Það gæti hins vegar verið betra að grilla grænmetið fyrst áður en maður steikir allt saman á pönnu og setur tómatsósuna saman við en ég hafði ekki tíma í það þannig að svona er uppskriftin að þessu sinni.

Sinneps-og hunangsgljáður kjúklingur
f/2
1 bakki af kjúklingabitum(blönduðum)
5 tsk Dijon sinnep
2 tsk hunang
salt og pipar

Aðferð:
1.Hrærið saman sinnepi og hunangi í skál. Saltið og piprið kjúklingabitana og spyrjið svo sinnepsblöndunni ofan á og bakið í ofni við 200°C í 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og hefur fallega gullinbrúna húð.

Ratatuille
f/4
1/2 laukur, skorinn í sneiðar og svo helmingaðar
1/4 af púrrulauk, skorinn í sneiðar
1/2 eggaldin, skorið í 2 cm bita
1/2 zucchini, sorið í 2 cm bita
3/4 paprika, skorin í 2 cm bita
2 hvítlauksrif, skorin í sneiðar
4 greinar timían
1 msk rósmarín
basilíka eða 3 tsk pestó
2 greinar steinselja
1 dós niðursoðnir tómatar, hakkaðir eða heilir
1 tómatur, skorinn í 2 cm bita

Aðferð
1. Skerið allt grænmetið og hitið olíu á pönnu
2. Steikið við meðalháan hita allt grænmetið fyrir utan hvítlaukinn og tómatinn og gott er að byrja á lauknum og paprikunni og bæta svo restinni saman við. Steikið rólega og hrærið oft í þar til allt grænmetið er orðið vel meyrt(gæti tekið um 15 mínútur, þá er tómötunum og hvítlauknum bætt saman við og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar.
3. Bætið þá tómötunum úr dósinni og hellið smá botnfylli af vatni í dósina til að hreinsa hana vel af tómatsafanum og hellið saman við. Bætið þá öllum kryddjurtunum saman við og sjóðið við lágan hita í ca 5-10 mínútur.

Þetta er gott með pasta, fiski og kjúklingi eða bara eitt og sér með grilluðu brauði. Það er hægt að bera þetta fram heitt, kalt eða við stofuhita(best þannig) og geymist í kæli í nokkra daga í lofttæmdum umbúðum

Gott er að setja kjúklinginn inn um leið og grænmetið fer á pönnuna, þannig er þetta tilbúið á nokkurn veginn sama tíma.

fimmtudagur, maí 28, 2009

Grillaður kjúklingur með indverskri kryddblöndu

Ég hef mikið lesið af amerískum matartímaritum og þar hefur hefur mikið verið talað um ,,spice rub" sem er blanda af kryddum og engu öðru, ég hef oft velt því fyrir mér hvort það gæti verið of þurrt en kryddblöndurnar eru alltaf svo girnilegar að ég hef ekki getið hætt að hugsa um þetta fyrirbæri.
Ég ákvað því í kvöld að láta verða af þessu og bjó til mína eigin blöndu og ég varð svo sannarlega ekki svikin! Ég geri þetta aftur það er á hreinu. Ég hafði kjúklinginn í þetta skiptið á beinunum á grillbakka í ca 40 mínútur á grillinu við meðal hita og svo síðustu 10 mínúturnar setti ég hann á húðhliðina til að fá hann örlítið brenndan, eins og grillmatur á að vera.
Kjúklingurinn er skorinn eftir endilöngu á undirhliðinni og svo þvingaður út þannig að hann sé tiltölulega flatur.

Grillaður kjúklingur nuddaður með indverskri kryddblöndu
F/4-5
1 kjúklingur
1 msk sinnepsfræ(ég notaði dökk þar sem ég átti þau til)
1/2 msk mulin kóríanderfræ(ég nota kaffikvörn)
1/2 msk múlin kardimomma
1/2 msk anísstjörnur(muldar)
salt og nýmulinn pipar(ég er nú svo heppin að luma á sýrlenskum pipar)
3 msk púðursykur

Aðferð:
1.Skerið kjúklinginn og hitið grillið
2.Setjið þurrkryddið á litla pönnu og hitið þar til það byrjar að lykta unaðslega
3.Blandið því svo saman við púðursykurinn og nuddið vel skinnið á kjúklingnum og saltið og piprið yfir hann allan.
4.Setjið hann með beinahliðina á grillbakkann og grillið við meðalhita í 40 mín(athugið kjúklinginn á 20 mín. fresti, grill eru mjög misheit og ef hann byrjar að brenna er um að gera að lækka hitann örlítið). Snúið kjúklingnum svo við síðustu 10 mínúturnar til að fá fallega rétt brennda húð á hann. Athugið hvort hann er tilbúinn með að stinga með beittum hníf í þykkasta hlutann(bringuna) og athugið hvort vökvinn sem kemur úr er á litinn, ef hann er glær er hann tilbúinn(allt sem hefur smá roða í vökvanum þýðir að hann er ekki tilbúinn).

Mjög gott er að bera fram með tatziki sósu eða hvers kyns jógúrtsósu og ofnbökuðum kartöflubátum krydduðum með hvítlauk og engifer, salti og pipar.

fimmtudagur, apríl 30, 2009

Matseðill fyrir vikuna 27.04-03.05

Ég var búin að skrifa heilmikið en svo varð tölvan batteríslaus, það er nú alltaf jafn skemmtilegt.
Ég er núna alveg komin í vorgírinn og er í vorstuði. Vikan hefur einkennst af afgöngum og auðveldum mat, sem er jú ekki slæmt.
Best að henda því inn sem hefur verið á borðum þessa vikuna.
Við ákváðum að fara út í lambið að þessu sinni í búðinni enda er mikið af því á tilboði þessa dagana, og ekki kvarta ég yfir því. Mér finnst einhvern veginn lambið fylgja sumrinu og vorinu, maður er svo vanur því að henda lambi á grillið í öllum útilegum og grillveislum enda get ég ekki beðið eftir því í kvöld.

Mánudagur
pizza

Þriðjudagur
afgangar af pizzu

Miðvikudagur
Afgangar af lasagna frá því í síðustu viku, sem ég frysti og á enn í einn kvöldverð til viðbótar

Fimmtudagur
lambaprime með grillsósu og bökuðum kartöflum, gæti ekki verið einfaldara

Föstudagur
Við fáum litla vinkonu í heimsókn þannig að það verður krakkamatur, Pasta fer alltaf vel í krakkana

laugardagur
Fiskurinn, þá er það fiskur með léttsteiktu spínati með chilli, engiferi og grænum baunum borið fram með kotasælu með ólífum og graslauk og kartöflum

Sunnudagur
Það er mánaðarlegt hamborgarakvöld hjá fjölskyldunni og nú er komið að mér að halda boðið. Hingað til hefur verið ágætis fjölbreytni í borgurunum og er því komin nett pressa á mann að gera eitthvað skemmtilegt úr þeim. Best að leggja höfuðið í bleyti...

föstudagur, mars 20, 2009

Nokkurs konar Stroganoff

Ég ætlaði að fara eftir uppskrift að þessum rétti en viti menn ég átti lítið sem ekkert af hráefninu til í skápnum þannig að ég notaði bara það sem var til og bjó til mitt Stroganoff og það kom alveg sérstaklega vel út.
Storganoff á strangt tiltekið að innihalda lauk, kjötstrimla/teninga, sveppi, tómata og sýrðan rjóma, en ég átti lítið sem ekkert af þessu þannig að mitt varð eftirfarandi:

Nokkurs konar Stroganoff eða það sem er til í skápnum stroganoff
f/4
2 bakkar af svínagúllas kjötteningum eða nauta(svína var ódýrara)
3 gulrætur
3 sellerístönglar
1 laukur
3 litlir skallottulaukar
2 tómatar
2 tsk tómatpúrra
10 timíangreinar
2 nautakjötskraftteningar
vatn
hveiti til að velta uppúr
salt og pipar
vænar smjörklípur
2 msk balsamic edik
150 ml hvítvín, rauðvín væri betra en ég átti bara hvítvínsbelju í skápnum
Aðferð:
1. skerið allt gærnmetið og steikið þar til það brúnast fallega
2. Setjið hveiti í poka ásamt salti og pipar og jafnvel paprikudufti og veltið kjötinu uppúr því, takið kjötið upp úr og hristið aukahveiti af og steikið þar til það brúnast fallega, blandið þá öllu saman í stóran pott og hellið edikinu og víninu yfir og sjóðið létt niður, hellið þá vatni í pottinn þannig að fljóti yfir. Bætið þá kraftinum, tómatpúrrunni og kryddinu saman við og látið suðu koma upp. Sjóðið svo varlega við vægan hita í ca klukkutíma, athugið þá hvort kjötið sé orðið meyrt með því að taka einn stóran bita og smakka, ef hann er enn seigur þarf að sjóða lengur og takið þá lokið af pottinum og leyfið að sjóða niður.
3. Þegar kjötið er svo tilbúið er mjög gott að sigta sósuna frá og sjóða niður á meðan kartöflurnar eru soðnar og búin til kartöflumús.
4. Þegar músin er tilbúin er kjötið sett saman við sósua og allt borið fram saman

fimmtudagur, mars 19, 2009

Skyndibiti

Við fórum á bekkjarkvöld hjá einkadótturinni í kvöld þannig að það varð lítið úr eldamennsku en ég mun hér og nú mun ég upplýsa hver skyndibiti fjölskyldunnar er.
Samloka með dijon sinnepi, majónesi, skinku og osti og ef við eigum afganga af kartöflum þá verður kartöflusalat fyrir valinu. Þetta er eiginlega alveg frábær skyndibiti og mun ódýrari en nokkur sem keypt er úti á einhverjum stað.
Við ristum og smyrjum brauðið fyrst og setjum skinku undir og ost ofan á eina sneiðina og svo er hún sett inn í ofn og þegar osturinn er bráðnaður er hin sneiðin sett ofan á. Einfalt og gott.
Við tókum svo afganginn af salatinu frá í gær og bættum majónesi og sýrðum rjóma saman við og þá var miðjarðarhafssalatinu breytt í mjög skandinavískt kartöflusalat.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Brasseraður kjúklingur með sveppum og beikoni

Mér finnst svo gott að brassera að ég er alveg hætt að setja það fyrir mig að það getur verið svolítið maus, tja fyrir suma ekki alla. Þegar kjúklingurinn er brasseraður á þennan hátt er best að vera með kjúkling með beinum, þ.e.a.s. bringur eru ekki besti kosturinn hér. Ég notaði heilan kjúkling og skar hann í bita en það var ódýrast, þó er auðvitað hægt að auðvelda sér starfið og kaupa kjúkling í bitum. Í þennan rétt er líka mjög gott að stökksteikja nokkrar beikonsneiðar til að bera fram með.

Brasseraður kjúklingur með sveppum og beikoni
f/4-6

1 kjúklingur um 1200 gr
3 gulrætur, skornar í bita(ca 1 cm)
4 meðalstórar kartöflur á mann, skornar í jafnstóra bita og hitt grænmetið eða örlítið stærri
1/4 partur af sellerírót eða 1 steinseljurót, skorinn í jafnstóra bita og gulrótin
1 1/2 laukur, sneiddur þunnt
1 hvítlaukshaus, skorinn til helminga
1 búnt af timían, jafnþykkt og flöskustútur
1 tsk piparkorn
9 beikonsneiðar
200 gr sveppir
250 ml hvítvín(úr beljunni góðu sem ég á ennþá eftir 4 vikur)
1 ltr vatn
1 kjúklingakraftsteningur
1 1/2 msk tómatpaste
smjör
hveiti

Aðferð:
1. steikið 3 beikonsneiðar og takið af pönnunni
2. Skerið og steikið grænmetið upp úr beikonfitunni þar til það fær fallega brúnan lit á sig og setjið í ofnfastan pott
3. Skerið og steikið kjúklinginn þar til hann fær á sig góðan og fallega brúnan lit
4. Setjið í pottinn með grænmetinu og beikoninu
5. Hellið hvítvíninu í pönnuna og látið sjóða niður um 30 prósent, ca 4 mín á fullu blússi og skrapið af pönnunni á meðan alla steikarskóf og blandið saman við hvítvínið.
6. Hellið í pottinn ásamt vatninu(það á að hylja að mestu allt saman)
7. Bætið öllu kryddi og tómarpaste-i. Lokið pottinum og setjið í ofn við 200°C í klukkustund
8. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er búin til smjörbolla úr 50 gr smjöri og svipuðu magni af hveiti og hún látin bakast örlítið í pottinum, hrært vel saman þar til myndast bolla.
9. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er allt tekið úr pottinum og sett í eldfast mót og álpappír settur yfir og inn í ofn til að halda hitanum í því, kryddinu hent og soðið sigtað í pott og látið sjóða niður um 30-40% á fullu blússi.
10. Sósan þykkt og allt saman borið fram. Athugið að hægt er að sleppa því að þykkja sósuna og láta hana þá sjóða aðeins lengur niður, en þá ætti hún að þykkjast örlítið. Ég veit það líka að margir eru hræddir við smjörbolluna og þá er alveg í lagi að nota maísenamjöl.