mánudagur, október 30, 2006

Trufflur og aftur trufffffflur

ohh það var sko himnaríki matgæðingsins í gær, það var í bæ sem heitir Moncalvo í Piedmont, Ítalíu.
Truffluhátíðin mikla!
En það voru ekki bara ómótstæðilegar trufflur, heldur einnig pulsur,ostar, brauð, kökur, sælgæti.. það bókstaflega flæddi um allt gómsætar kræsingar. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér eina trufflu nokkur grömm á heilar 5000 kr. En þetta var það sem mig hafði dreymt um svo lengi, þ.e. að kaupa mér trufflu. En við létum okkur það sko ekki nægja heldur voru keyptir ostar, pulsur,ólífuolía,truffluolía, sveppir, jerúsalem ætiþistlar, trufflumauk og fleira góðgæti. Við fengum okkur öll saman hádegisverð á einum af veitingastað þarna í bænum og þar var matseðill sem vorinn var fram með trufflum á hverjum einasta rétti. Þetta var hreinn unaður, vægast sagt.
Við eyddum þarna deginum með Jole og Piero, Gunna og Höllu Báru, Guðmundi, Leu og Heklu alveg hreint frábær dagur í alla staði.
Annars fórum við líka í mat til Gunna og Höllu Báru á föstudeginum og þar fengum við Raclette, gómsætur réttur ættaður frá Sviss. Þar héngum við Sverrir yfir greyið Gunna og Höllu Báru til klukkan 5 um nóttina, röflandi fyllerísröfli út í eitt þar til þau bóktaflega sögðu okkur að drulla okkur heim! NNNNNeeeeeeei bara djók.... Við skemmtum okkur konunglega við frábært spjall til klukkan 5 um nóttina, alveg hreint frábært kvöld! Takktakktakk fyrir mig!

Hekla fór í leikskólann í morgun og hún var svo rosalega dugleg að hún kom bara einu sinni fram til að kyssa mig og svo fór hún aftur inn að leika sér og La maestra sagði að hún hefði verið allt önnur í dag. Vonandi heldur þetta svona áfram.
Ég þurfti að fara frá henni klukkan 11 og Sverrir átti að koma klukkan 12.30. Ég þurfti að fara í brúðarkjólamátun nefnilega..... óóójá ég fór í brúðarkjólamátun!
Ég sá nefnilega guðdómlegan kjól í Vogue sposa og fór þangað. Þar fékk ég mjög persónulega þjónustu en ég var ein á svæðinu og þær voru tvær að hjálpa mér. Málið var að hún sagði mér það að hún gæti einungis selt mér kjól sem myndi passa á mig þar sem hún hefði ekki tíma til að breyta og bæta fyrir 22.des. Ég sýndi henni kjólinn sem mig langaði í og var bókstaflega með hjartað í brókunum því að ég var svo ofboðslega hrædd um að hún segði að hann myndi örugglega ekki passa á mig eða að hann væri seldur eða eitthvað í þeim dúr. Nema hvað að hún dró andann djúpt og sagði hratt ,, já ég á hann og hann passar örugglega fullkomlega á þig!" Ég hélt ég myndi pissa á mig ég var svo spennt! Hún leyddi mig í fallegasta mátunarklefa sem ég hef séð og ég klæddi mig úr og hún kom með kjólinn, hann var nákvæmlega jafn fallegur og í blaðinu og mig hafði dreymt. Ég fór í hann og hún lét mig hafa skó við og leiddi mig að speglinum og ég missti andann í eitt andartak. Svo ótrúlega fallegan kjól hef ég ekki augum litið! Þær voru líka mjög uppnumdar og spurðu mig hversu há ég væri eiginlega og að ég væri fullkomin stærð 42(veit ekki alveg hvað það er en þóttist ánægð með það)og voru greinilega mjög ánægðar með kjólinn á mér. Eftir dálitla stund sagði hún með æstri röddu,, heyrðu bíddu aðeins. ég ætla að ná í svolítið" og þá kom hún með rúsínuna í pylsuendanum(finnst þetta orðatiltæki reyndar ekki passa hér en ég mundi ekki hitt sem passar betur),Kápa, svo undurfögur hvít,skósíð, þunn ullarkápa fóðruð með hvítu silki. Hún var með stórum kraga sem hægt var að setja upp, hún var þröng að ofan og kom aflíðandi út að neðan, ég dó næstum!
Ég táraðist og gat ekki haldið tárunum aftur, ekki bara gleðitár því að ég er að fara að taka þetta stóra skref heldur líka örlaði á sorgartárum því að ég vissi að ég myndi aldrei hafa efni á svo fallegum kjól og kápu. Mér fannst ég vera að leiða þær á villigötur og fékk samviskubit og ákvað að halda mína leið en spyrja þó fyrst um verð á dýrðlegheitunum. Hún hló við og sagði 1900 evrur(163.500 ísl.kr) og ég skal láta þig hafa kápuna með á 2500 evrur(215.000 ísl.kr). Ég fékk mitt síðasta svita og hjartakast inni í þessari verslun og hraðaði mér út með tárin í augunum.
Nú er bara að komast í saumamann/konu og reyna að immitera drauminn.......

fimmtudagur, október 26, 2006

Opnum kampavínið og skálum!

já Ég held það bara! Ég fór í morgun til Joia til að aðstoða hann við myndatökuna og var ekki einu sinn i í búning eða neitt bara eitthvað að dúlla mér þarna með þeim þarna og eftir smá tíma fer yfirmaður minn að spyrja ljósmyndarann hvort að ég ætti einhvern séns í að skrifa uppskriftir fyrir blöð hér og ljósmyndarinn segir að það sé nú örugglega hægt að redda því og sagðist vera með sambönd við Marie Claire, Flair og eitt enn sem ég man ekki nafnið á. Eftir nokkra stund kemur hann til mín og segist hafa talað við þá á Flair og að þeir væru mjög spenntir fyrir því að fá nokkrar íslenskar uppskriftir frá mér og að ég ætti bara að senda nokkrar til þeirra og ýta svo á eftir því í símann. Hann gaf mér líka nafnspjaldið sitt og nöfn og e-mail hjá þessu blaði. Síðan kom blaðamaðurinn sem ætlaði að taka viðtal við yfirmann minn og hann segir henni frá mér og hún segist ætla að hringja í kollega sinn á matreiðslublaði hér sem heitir Sale e Pepe og gerir það, þá kemur í ljós að þeir höfðu ekki mikinn áhuga á íslenskri matreiðslu(hmmm....skrítið) en að þau vanti kvenkokk og hafði einmitt áhuga á mér(blaðamaðurinn sagði reyndar í símann að ég væri bæði með meðmæli frá Pietro Leemann og væri mjög sæt!) og að ég ætti að hafa samband við hana á þriðjudag eða miðvikudag til að komast eitthvað áfram með þetta og ætti að hafa tilbúinn grænmetismenu fyrir þau sem væri svo undirbúinn og teknar myndir af á blaðinu sjálfu! Ja hérna þið getið rétt ímyndað ykkur spennuna hjá minni á þessum tímapunkti! Þetta er að sjálfsögðu allt saman óráðið en ég verð að vona og biðja og gera matseðla og uppskriftir eins og brjálæðingur næstu dagana!!!!
Eftir þetta allt saman segir Pietro mér að hann væri nú alveg til í að fá mig svona auka einn og einn dag ef ég væri til í það og að ég mætti nota eldhúsið hans fyrir myndatökur og myndi borga honum til baka með því að vinna fyrir hann. Ég játti því að sjáfsögðu!
Ég var svo spennt þegar ég kom til Höllu Báru og Gunna(þar sem Hekla var í pössun) að ég varð að fá mér bjór!
Ég er reyndar búin að vera gerlaus í 5 daga núna og ekkert breytist í feisinu á mér ég held að ég verði að fara til læknis útaf þessu, ég meika ekki að vera svona útlítandi á brúðkaupsdaginn minn.
Ég svaf ekkert í nótt þannig að ég er að spá í að loka aðeins augunum og fara svo í að finna íslenskar uppskriftir! Gangi mér vel, ef það er eitthvað sem er erfitt að finna í matreiðslu og gera það massa girnó þá er það íslenskur matur! Og grænmetisréttir..... Díses ég ræðst á garðinn þar sem hann er lægstur..... eins og venjulega!!!..........

miðvikudagur, október 25, 2006

Opinberlega EKKI starfsmaður á Joia

já ég fór og talaði við yfirmann minn á Joia í gær og hann virtist í fyrstu vera mjög jákvæður og allt í góðu en svo sagði ég honum að ég þyrfti að taka það að mér þetta árið að vera heima með Heklu ef hún yrði veik og þá fór allt í baklás. Hann tjáði mér það að það væri ekki séns fyrir hann að taka manneskju sem þyrfti að vera heima hjá veiku barni einhvern tímann og einhvern tímann þannig að því miður yrði ekki meira samstarf hjá okkur. Hann var reyndar alveg elskulegur kallinn svo sem og lagði höfuðið í bleyti hvort að ekki væri hægt að finna eitthvað að gera fyrir mig en benti mér á það að aðrir veitingastaðir myndu heldur ekki ráða mig af sömu ástæðu. Blessaðir Ítalirnir, ha! En svo fór ég að segja honum frá því að ég hefði verið að skrifa greinar fyrir blöð heima og þá sagði hann mér að prófa að skrifa greinar og fá ítalskan ljósmyndara og svo selja greinina þannig sem pakka. Ég tók svo sem ágætlega í það og hann sagði mér frá því einnig að hann væri að fá ljósmyndara til sín frá blaði á morgun og hvort það væri ekki góð hugmynd ef að ég væri að aðstoða hann við myndatökuna og tala svo við ljósmyndarann um þessa hugmynd og hvað hann tæki fyrir hverja mynd. Ég er skeptísk á þessa hugmynd en það er þess virði að tékka á þessu svo sem og ég geri það að sjálfsögðu. Ég er skeptísk þar sem ég veit að þeir heima hjá þessum blöðum borga ekki skít fyrir þetta en við sjáum til, ætla ekki að útiloka neitt ennþá.
Ég fer sem sagt í vinnuna klukkan 9.30 í fyrramálið!
Ég var soldið gáfuð að samþykkja þetta þar sem Hekla er enn í aðlögun á leikskólanum og ég þarf að vera með henni meiri hluta dagsins, en guði sé lof fyrir Gunna og Höllu Báru!

Fékk í dag sendingu frá Nýju Lífi, nýjasta heftið. Endilega kaupið blaðið og tékkið á matnum hann er unaðslegur. En ef þið ætlið að gera eftirréttinn þá mæli ég með að setja meiri sykur í jógúrtina.

Ég var líka með hamborgara í Mogganum síðasta föstudag og guð hvað þeir eru guðdómlegir!

Það eru hundrað spurningar sem fljúga gegnum huga minn þessa dagana, sérstaklega eftir samtal mitt við Joia. Er ég á réttri braut í lífinu? Er það virkilega mín örlög að vera í vinnu þar sem ég get hvorki verið með fjölskyldu minni né séð fyrir henni. Mér líst satt best að segja ekkert á blikuna. Ég hef því beðið Jole um aðstoð við að finna ítölskunám fyrir útlendinga sem er í háskóla þannig að ég þurfi ekki að borga morðfjár í skólagjöld. Námið þarf að vera soldið intensívt til að fá lán fyrir því og einnig þarf ég að vera skráð í annað nám eftir að ítölskunáminu lýkur. Ég hef því tekið til greina tillögur frá Ólu systur og ætla að athuga hvort að ég geti farið í markaðsfræði. Ég tel að það geti verið gagnlegt að vera með matreiðslumenntun og markaðsfræði, það er hægt að nota það á ýmsa vegu, ekki satt??
Ég hlakka samt alveg rosalega til sunnudagsins því þá förum við upp í sveit á truffluhátíðina sem ég hef minnst á hér áður nema hvað að við förum líka á veitingastað sem er með hefðbundinn mat, og það elska ég að smakka!

sunnudagur, október 22, 2006

Prump

Díses, ég var með partýskinku og kartöflusalat í gærkvöldi og öll fjölskyldan er búin að vera að prumpa síðan og Hekla litla mús þoldi þetta verst af öllum og er bún að vera að drepast í maganum og æla og allan pakkann, skemmtilegt. Ég held að það sé langt í næsta svínakjötsát!
Við erum búin að koma okkur fyrir og til í slaginn. Við vorum aðeins að hjálpa Gunna og Höllu Báru að koma sér fyrir líka og þetta lítur alveg hreint rosalega vel út hjá þeim, þau eiga eftir að ílengjast hér það er á hreinu!
Hekla stóð sig einstaklega vel á föstudaginn í leikskólanum hún lék sér með krökkunum allan fyrri hluta dags alveg sátt, ég reyndar sat fyrir utan stofuna hennar og hún kom og tékkaði á mér svona annað slagið en annars var hún alveg að leika sér með krökkunum. Þau koma og kyssa hana og knúsa og eru mestu dúllur í heimi. Hekla veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið þegar þau eru kannski 3 að kyssa og knúsa. Íslensku krakkarnir eru jú aðeins öðruvísi!
Ég held að ég sé búin að komast að húðvandamáli mínu,... gerofnæmi.... þannig að ég ætla núna að athuga hvort þessi útbrot fara ef ég hætti að borða ger.... einmitt gangi mér vel.... uppistaðan í fæði mínu er einmitt ger.... oh men eruði alveg viss um að það sé ger í bjór?????
Er ekki best að klára greinarnar fyrir blöðin núna svo að þetta sé bara búið?!
Við förum á truffluhátíð næsta sunnudag, endilega fylgist með, það verður spennandi.
Over and out.......

miðvikudagur, október 18, 2006

aahahhh skokk!

Ljúft ég gat farið út að skokka í morgun í garðinum mínum, yndislegt!
Við erum sem sagt komin á leiðarenda í bili og munum vera hér á Ítalíu næstu 2 mánuðina og svo koma heim og gera eitthvað skemmtilegt með vinum og ættingjum.
Hekla er í miklu stuði og vildi ólm sofa í rúminu sínu en kllifrar þó niður á nóttunni og kúrir hjá mömmu og pabba.
Sverrir er alveg að drepast í fætinum, búinn að ofgera sér algerlega, einstaklega skemmtilegt að koma til Ítalíu og þurfa að hanga inni í íbúð:)
En ferðalagið gekk alveg hreint ótrúlega vel. Ég millilenti í Kaupmannahöfn og var yfir nótt. Ég fékk gistingu hjá Önnu Helgu og Írisi og naut samveru þeirra allan daginn. Þær eru yndislegustu stelpur, svo gestrisnar og nenntu að vera með mér allan sunnudaginn. Við fórum að sjálfsögðu á Bankeraat og fengum okkur brunch, svo lá leiðin á næsta bar og drukkum við nokkra bjóra og spjölluðum og spjölluðum, færðum okkur svo yfir á sushi stað á Nörregade og borðuðum yndislegt sushi og fórum svo heim og drukkum smá meiri bjór og fórum svo bara snemma í ból. Þetta var alveg yndislegur dagur og þakka ég kærlega fyrir það.
Daginn eftir fór ég í leiðangur um Kaupmannahöfn að skoða og kaupa föt og hnífa(besta blanda í heimi!) Ég sem sagt skemmti mér konunglega þá. Svo um 2 leytið komu Sverrir og Hekla og fórum aftur á Bankeraat og borðuðum og drukkum og gengum um og slöppuðum af. Yndislegur dagur. Þá var liðið að heimferð og við komum okkur í flugvélina. Hekla er yndislegasta stelpa í heimi, hún var eins og engill alla leiðina og Sverrir sagði mér að hún hafi líka verið það á leiðinni frá Íslandi.
Þegar við lentum á Ítalíu kom Jole að sækja okkur á flugvöllinn og keyrði okkur heim, alltaf jafn góð hún Jole.
Þegar við komum heim var búið að gera allt svo fínt og æðislegt, nýumbúið rúm með nýjum rúmfötum og bjór og matur í ísskápnum, það bara gat ekki verið betra að koma heim í bólið sitt.
Það verður nú barasta mjög ljúft að hafa Gunna og Höllu Báru hér, þau komu í gær og við spjölluðum saman heillengi og nutum samverunnar, stelpurnar léku sér saman mjög góðar og Guðmundur virtist vera sáttur með video.
Síðan við komum erum við búin að vera að borga reikninga og redda netinu og svo næst á dagskrá verður að koma Heklu inn á leikskólann og mér í vinnu.
Veðrið gæti ekki verið betra, sól og um 20 stiga hiti, fór meira að segja út að skokka á stuttbuxum.
Við förum í kvöld í mat til Gunna og Höllu Báru, ætlum bara að fá okkur pizzu og drengirnir eru að fara að horfa á fótbolta, ég veit reyndar ekki hvort að Halla Bára horfir á boltann, tja ef svo er þá bara læt ég mig hafa það og horfi líka á boltann.

Kláraði Alkemistann eftir Paolo Coehlo, snilldarlesning, mæli með henni. Var að byrja á Paula eftir Isabel Allende, hún er algjör snillingur þessi kona, hvernig hún fangar mann með hverju orði, ótrúlegt. Maður hættir heldur ekkert að hugsa um söguna þegar maður lokar bókinn, maður heldur áfram að hugleiða hitt og þetta sem fram hefur komið. Hlakka til að lesa meira.

þriðjudagur, október 10, 2006

Ennþá styttra???

Já ég er að spá í að ganga með þetta alla leið og klippa ennþá styttra, hvað finnst ykkur???

Ljúft, ljúft bíllinn minn er tryggður!!!!
Gunni og Halla Bára redduðu tryggingunum á bílnum mínum í dag svo að þau geta náð í hann á morgun, jessssss........
Ég er búin að vera að rembast á minni glæsilegu ítölsku í dag og í gær að reyna að redda tryggingunum og nettengingu á heimilið aftur þar sem það virðist liggja niðri :( Gengur ekkert alltof vel með Fastweb vini mína, sérstaklega þar sem þeir eru með einhvers konar frítt símanúmer og get ég því ekki hringt frá öðru landi en Ítalíu, frekar súrt, vonandi get ég reddað þessu á morgun.

Veislan á laugardaginn tókst alveg hrikalega vel, reyndar svo vel að einni sósunni var rænt, hvorki meira né minna. Ég viðurkenni það að þessi sósa er alveg hreint hrikalega góð og að ræna henni af mér ásamt tupperware dollunni fannst mér aðeins of langt gengið. Ég held samt að ég taki þessu bara sem hrósi. Ætli einhver ætli ekki að herma eftir henni.... Múhahaha þið náið henni aldrei..... múhahaha.......

Fór í dag að tékka á kuldagöllum á stúlkuna og kuldaskóm og fékk nett fyrir hjartað. Það er dýrt get ég sagt ykkur, en ef að stúlkan á að vera þurr í ölpunum í vetur þá er eins gott að hún fái ..aðeins það besta...

Það er nokkuð brjálað að gera svona síðustu vikuna eins og við var að búast. matarboð, heimboð, vinna og alls konar læti og skemmtilegheit. Maður er alltaf jafn sniðugur að geyma ýmsar heimsóknir fram á síðasta dag, ekki satt??!!

Best að fara og sækja hana Heklu mína.

þriðjudagur, október 03, 2006

Nýtt Líf

Ég gerði jólaþáttinn fyrir Nýtt Líf í gær og það heppnaðist svona líka glimrandi vel. Ég var svoleiðis slefandi yfir þessum rétt sem ég gerði og allir hinir líka,mmmmmm........ namminamm.
Ég er að sjá um veislu á laugardaginn, 55 manns, hefði viljað hafa þau fleiri en jæja það verður bara að hafa það.
Vorum að kveðja Gunna og Höllu Báru í gærkvöldi með lasagna og rosalega góðum eftirréttum sem Erna frænka Svssa töfraði fram, ásamt köku sem ég gerði fyrir myndatökuna. Ef þið viljið fá bestu uppskrift ever þá verðið þið bara að kaupa Nýtt Líf um miðjan nóvember.

Hekla sofnaði í gær klukkan 22.30 og vaknaði í morgun 7.30, ég var eins og gefur að skilja einstaklega ánægð og hoppaði dansandi fram úr rúminu, eða þannig! Eftir að Hekla var búin að reyna eins og hún gat að fá mig til að syngja með henni þá sagði hún ,, æ, mamma ég vil fara í leikskólann núna!" Greinilega orðin pirruð á mygluðu mömmu sinni.
En best að hætta þessu bulli og fara að vinna!

sunnudagur, október 01, 2006

Takk takk

Já ég þakka kærlega allar hamingjuóskirnar sem rigndi hér inn á kommentakerfið þar til það hreinlega hrundi! Gott að sjá að ykkur er svona líka NÁKVÆMLEGA SAMA um það að Sverrir sé loksins kominn með bílpróf aðeins 12 árum og 140.000 krónum seinna!
Skilaboð til allra unglinga :

Í guðanna bænum takið bílprófið áður en þið flytjið að heiman og áður en þið farið að vinna fyrir ykkar eigin peningum!!!

Það verður brjálað að gera þessa vikuna, er með eina grein og eina veislu og það lítur út fyrir að ég fái enga hjálp við veisluna, þar sem Sverrir er að fara á árshátíð með strákunum um næstu hlegi sem að sjálfsögðu tekur ALLAN daginn og peningar hafa náttúrulega aldrei skipt okkur neinu máli og eigum við víst nóg af þeim. Gullkistan kemur oft að góðum notum. Ég tala um peninga í þessu samhengi þar sem ég fæ víst borgað fyrir þessa veislu og væri að sjálfsögðu gott að hafa 2 aukahendur sem ég þarf ekki að borga fyrir. En nei ég þarf víst að gera þetta ein og yfirgefin og vil ég vorkenna mér aðeins meira hér á þessu bloggsvæði mínu,búhúhú!
Ég rumpa þessu af að sjálfsögðu og geri það með glæsibrag... who needs Sverrir anyways....

ok ég er sem sagt ekki í nýjasta hefti Nýs Lífs og ekki var ég heldur á föstudaginn í Mogganum eins og ég hélt, en við vonum þó að ég komi í næsta skipti.

Við fórum í Ítalíupartý á föstudaginn og var alveg rosalega skemmtilegt,drukkið og spjallað fram á nótt! Svo fórum við í matarboð til Þorgerðar á laugardaginn og bar hún á borð miklar kræsingar fyrir 12 manns, hún kann þetta stelpan! 4 rétta máltíð allt hvert öðru betra.
Til hamingju með nýju íbúðina sös!
Hekla fór í leikhús á laugardaginn með ömmu sinni og langömmu á Ronju ræningjadóttur og skemmti sér rosalega vel, var víst eins og engill allan tímann, þessi elska.
Best að fara að vinna.