miðvikudagur, mars 28, 2007

Íþróttameiðsl

Já ég er með smávægileg íþróttameiðsl og hef því ekki getað updeitað síðuna mína.
Við skelltum okkur nefnilega á bretti á laugardaginn og í einni ferðinni hugsaði ég með mér ,,shit hvað ég er orðin góð í þessu maður!" sem eru bannorð í undirmeðvitund Sigurrósar,hún heitir djöfulrós sú arna og henti mér fram fyrir mig þannig að ég beisiklí hélt að hnéin hefðu mölvast en svo reyndist ekki vera, hún er greinilega bara smá evil ekki mikið hún djöfulrós, en lét mig sem sagt halda að ég væri í lagi svo að ég hélt áfram að brettast. Þegar dagurinn var á enda fór ég að finna fyrir í úlnliðnum en horfði framhjá því þar sem hnéin voru svo stokkbólgin og blá að það átti alla mína athygli. Daginn eftir, á sunnudeginum, var úlnliðurinn að drepa mig en hnéin létu ekkert í sér heyra(sem betur fer), ég endaði á því að fara á neyðarmóttökuna, í myndatöku og alles en sem betur fer var ekkert brotið, en illa tognuð. Þannig að ég er nú með stærstu umbúðir sem ég hef verið með, á ævinni!
Þetta er alveg búin að vera mín vika....
Ég var í skólanum í gær og viti menn allt í einu hrin ég úr stólnum beint á gólfið,mígreniskast! Sverrir þurfti að koma og ná í mig og í við brunum heim. ég er nú að jafna mig eftir þetta kast er pínu skökk ennþá, en ekki jafn slæmt og í gær. Vonandi er þetta vorboðinn minn,þ.e. loftlagsbreytingar.
Get....ekki....skrifað....meir....aahh....úln...liður...innnn...

fimmtudagur, mars 22, 2007

úff púff

já það er sko lítið að gerast í Mílanó þessa vikuna.
Ég fór í lokaprófið á þriðjudaginn í ítölskunni og gekk bara ágætlega, á reyndar eftir að fá einkunnina en ég hef nú farið í muuuun erfiðari tungumálapróf í MR gamla og ekki talaði ég eins góða frönsku þá og ég geri ítölsku núna. Þannig að ég hef litlar áhyggjur af því, sem betur fer.
Ég er svona nokkurn veginn búin að vera veik í gær og í dag og komst því ekki að ná í einkunnina niður í skóla. Það snöggkólnaði hér svo svakalega að maður vill helst ekkert vera úti, það fór niður í 6-10°C, ekki það að fólkið á Íslandi vorkenni manni nokkuð vegna þess. Maður er að lesa um veðrið heima og fær barasta hroll.
Við fengum góðar fréttir áðan, við erum búin að leigja út íbúðina okkar í 2 mánuði í sumar, líst mjög vel á það og það eru Íslendingar, mér líður einhvern veginn betur með það heldur en að leigja kannski Kóreubúum sem varla tala ensku né ítölsku(sem var líklegt að myndi gerast).
Annars var að koma ný lína í HogM í dag, frá Madonnu sjálfri og ég er ekki á staðnum, hræódýr föt alveg hreint ógeðslega flott!!! Hehehe það er af sem áður var, ha! Maður er bara farinn að blogga um föt, ég held ég þurfi að koma mér í einhverja vinnu bráðlega, þetta gengur ekki svona, bráðum fer ég að tala um maskara og dömubindi! Hvað er að gerast???
Hvaða dömubindi notið þið annars??

Ég er búin að vera að íhuga þetta með ostinn og ég bara kemst ekki að niðurstöðu í málinu, þeir eru allir svo svakalega góðir ég bara get ekki gert upp á milli þeirra.

Paranoia!
Ég fékk heimboð frá stelpu/konu með mér í bekk sem kemur frá Chicago. Ég var í fyrstu mjög ánægð með boðið og ætlaði svo sannarlega að mæta með ítölskubækurnar í annarri. En svo eftir nokkra umhugsun þá fóru að renna á mig 2 grímur. Ég fór að snúa þessu upp í hinn svæsnasta CSI þátt og endaði á því að ég ætlaði að hringja í hana daginn eftir og tilkynna henni að ég kæmist ekki vegna veikinda. Hvað er eiginlega að mér af hverju held ég að allir ókunnugir séu undir niðri slæmt fólk sem ætlar bara að ræna mér og drepa???
Á endanum tók ég ekki í mál að láta undan þessari óþolandi paranoiu í mér og fór í heimsókn til stelpunnar og endaði á því að skemmta mér bara mjög vel. Við reyndar lærðum ekki mikið en við kynntumst þó aðeins betur og ég komst að því að fleiri þola ekki Leiðréttarann, sem b.t.w. hitti mig á msn-inu í gær og um leið og ég svaraði henni fór hún að leiðrétta mig sem mér fannst einstaklega ósanngjarnt þar sem hún var með þó nokkuð margar villu hjá sér, ég bara neita að gera svona hluti!
Ert þú Leiðréttarinn í hópnum????

miðvikudagur, mars 14, 2007

mmmm matur!

Ég gerði crepes í fyrradag sem voru himneskar! Ég gerði deig sem var alveg hreint hrikalega auðvelt og bragðgott og gerði svo um 20 pönnukökur. Ég hafði svo val um alls konar álegg, eins og t.d. bjó ég til sveppafyllingu, þá steikti ég saman sveppi, beikon og skallottlauk í smá smjöri og bjó svo til grunninn að Bechamel sósu(uppstúf) hafði það mjög þykkt og setti svo helminginn af steikta gúmmulaðinu útí og notaði sem fyllingu, alveg hrikalega gott. Restina af sveppunum notaði ég svo í aðra, þá smurði ég pönnukökuna með majónesi(mjög litlu) og sinnepi og setti sveppina á og svo ost og prociutto mmm... á enn aðra setti ég majó(aftur mjög lítið),sinnep, skinku og mozzarella og hitaði í ofni til að bræða ostinn. þetta var hreinn unaður að borða, líka svo skemmtilegt, að vera að dúlla sér við matarborðið að smyrja það sem þig langar í og spjalla við manninn/konuna þinn/þína og drekka gott vín með. mmmm...mmm..mmm...
Í gærkvöldi fékk ég svo rosalegan grillfílíng í mig, það er nefnilega þessa dagana um 20 stiga hiti og sól, þannig að vorið er farið að kitla mann og þá vill maður bara grillað lamb og kalda sósu og ofnsteiktar kartöflur með sætum kartöflum. Þannig að ég fór í búðina og keypti mér lambakótilettur og grískt jógúrt og fleira. Gerði steiktar lambakótilettur með grillkryddi, miðjarðarhafsósuna sívinsælu og ofnsteikt rótargrænmeti og svo hafði ég ferskt salat með(babyspínat,mangó,mozzarella), algjört æði! En reyndar fékk ég svo kjötmagastinginn um kvöldið, óþolandi að geta ekki fengið sér kjöt án þess að fá magasting:( En glætan að ég láti það eitthvað á mig fá og gerist grænmetisæta! Ég held nú síður!

Fór í munnlegt próf í morgun og áheyrnarpróf í ítölskunni. Ég veit nú ekki hvernig mér gekk í áhayrnarprófinu, æ jú ég klúðraði einni eða tveimur spurningum en ekki meira og svo í munnlega prófinu sagði hún mér að henni fyndist ég tala mjög fína ítölsku. Þannig að ég er bara stolt af mér! Takktakk, klapp á bakið;)
Annars er þessi kennari ekkert allt of góður og það eru allir geðveikt pirraðir út í hana af því að hún er alltaf svo pirruð út í okkur og við vitum aldrei af hverju. Það er soldið skrítið að vera í svona skóla þar sem við borgum mikinn pening og erum að læra þetta beisiklí fyrir okkur ,ekki eitthvað próf þannig sér og það er eins og kennarinn þori ekki að segja allt sem hann vill segja og verði þá bara pirraður og þori ekki að segja hvað er að pirra hann. Mjög einkennilega staða.

Farin að sækja einkadótturina, góðar stundir gott fólk.
hvaða þýðingu hefur ostur í ykkar lífi? Er einhver ein tegund mikilvægari en önnur?

laugardagur, mars 10, 2007

Lögin hennar Heklu

Hekla hélt fyrir mig tónleika með gítarinn sinn við hönd og söng þessi lög. Ég ákvað að loksins setja þett hérna inná eða setja þetta á blað þar sem þetta gerist nokkuð oft. Hún tekur þá gítarinn sinn og spinnur lög eftir hentugleika. Þetta er allt saman sungið af mikilli innlifun ( á meðan hún söng fyrir mig þá stimplaði ég inn á tölvuna þannig að þetta er allt saman nákvæmlega eftir henni!) Fyrst sagði hún mér nafnið á lögunum og svo byrjaði hún að syngja og spila.

,,Elsku mamma mín ég elska þig svo, litla barnið sofðu nú rótt"
mamma mín ég elska þig , ég veit af því þú elskar mín ég er alltaf að sjá litli drengurinn minn, litla barnið mitt sofðu nú rótt.

Pétur minn ég elska þig rosalega mikið blessbless góða nótt.
Litli drengurinn minn ég elska þig ,lalalala hlægji hinni drengurinn oh ég elska þig kemur tröllið fer og upp trallallalal hvað varstu að gera tröllið mitt, skammastu þin að koma svona inn, tralalala ,segir apinn íaú segir tröllið íaú segir litla tröllið trallalalala nú er sagan öll, nú alltaf svo gott veður hér trallalalala og nú er sagan öll!

(ónefnt lag)
Pétur minn possi nú trallalala íhahahííhí, brostu nú pétur minn ég elska þig hahahahaha góða nótt tralalala nú kemur trölla litli nú kemur trölla pabbi og tröllið mammama tröllið góð og litli trölllið góður og nú er barbídúkkan mín íhaaíhaaa hahaha segir litla barnið hahahaha hlægjir fólkið , og nú er sagan öll og nú er Pétur minn tralalalala hann elskar svo mömmu sína og nú er sagan öll!

Elsku minn ég elska þig nótt og rugga þér lalala brostu nú Pétur minn.
(kjánalegt að eigin sögn)
brostu nú pétur minn lalalala íhahaha nú er sagan oll neineinei brostu nú íaeiíaei og aldrei fæ ég nóg af því íaaaaíaaaa oooooggh úhohoho nú kemnur trölla pabbi og nú kemur trollamóður og hlæ og hlæ og hlæ hahahaha íaaa íaa segir apadýýýýýýr ooooooo og nú er sagan oll neineineineii ég á lítið barn sem er í maganum mínum mamma er íaaa mamma er að vaska upp og pabbi er líka með barn í magananum og þau eru tveir tveir tveir og nú er neineinei bíddu aðeins pétur minn þú getur ekki farið svona í rigningu hér þú ert bara berrasaður þú verður að klæða þíg i´buxur og fín fot við vorum að vaska upp og nú sagan öööll.!
Takktakk

(

djammdjammdjamm....

Já ég fór á djammið á fimmtudaginn og enn og aftur(eða þannig) var farið á Gattopardo. Einn af snobbstöðum borgarinnar, þar sem ríka fólkið skemmtir sér og það þarf að vera á gestalista, sem við vorum á að sjálfsögðu;)
Þetta var kveðjuteiti Þorgerðar, hún fór í dag til Singapúr til að búa og vinna. Við munum sakna hennar, verst að við kynntumst ekki fyrr, en svona er nú bara lífið. Við Bára ætluðum að vera bara rólegar en annað kom á daginn. Þorgerður splæsti í vodkaflösku og redbull fylgdi með, þetta er hinn besti dykkur. Við fórum hægt í fyrsta glas en eftir það var ekki aftur snúið.... Við urðum bara ansi fullar og skemmtum okkur svakalega vel, Þorgerður í flottu stuði og úr þessu varð alveg hreint frábært kvöld. Ég kom svo heim um þrjú leytið, reyndar ekkert svakalega full, bara svona mátulega. Borðaði Weetabix(sem ég er með æði fyrir núna) og setti aukapúða undir hausinn og sofnaði. Vaknaði svo daginn eftir ekki með vott af þynnku, svona á þetta að vera, ha! Ég var reyndar mjög þreytt þannig að það var lítið gert svo sem þann daginn en það var þó sett í eina vél eða svo. Hekla er loks að skríða úr veikindum sínum í dag, þannig að ég var heima með hana í gær, kom sér vel tíhí.

Við fórum í morgun í garðinn og ætluðum að læra að hjóla, nema hvað að Hekla dettur einu sinni og þá var bara vælt þar til mamma gafst upp og setti hjálpardekkin aftur á. Aðferðin mín í þetta skiptið virkaði mjög illa greinilega. Ég ákvað að láta hana detta einu sinni til að sína henni að þetta væri ekkert svo vont, eða sjá hvort hún gæti reddað sér útúr fallinu einhvern veginn, neinei hún bara hreyfði sig ekki og datt kylliflöt og eins og áður sagði vældi það sem eftir var. Jæja þá bara tókum við rúnt um garðinn, ég á hlaupahjólinu og hún á hjólinu sínu. Því næst gengum við í íþróttabúð hér rétt hjá og ég keypti hlífar á hana, prófum næst þannig, sjáum hvernig gengur. Ef einhver er með hugmyndir af góðum kennsluaðferðum endilega deilið með mér, er nett ráðalaus með hana. Hún gefst bara upp og segir ,, mamma ég er bara barn, ég er ekki eins stór og Hörður Sindriiiiii" Þá verð ég voða fúl og leiðinleg og skamma hana fyrir að gefast upp þá hleypur hún til mín með stóru, bláu hvolpaaugun sín, faðmar mig og segir ,,oh mamma, ég elska þig svooo mikið" og brosir til mín þar til ég brosi til hennar á móti.

miðvikudagur, mars 07, 2007

Supersize Me

Ég horfði á þessa mynd í gær og nú skil ég fullkomlega hvers vegna Óla systir og Gummi mágur voru svona á móti Makkaranum eitt skiptið þegar ég kom heim til Íslands, en í fáfræði minni hélt ég áfram að styrkja þá og kaupa þennan viðbjóð. Skiptunum fækkar reyndar ört sem ég vel að fara á skyndibitastað af þessu tagi þar sem mér bara hreinlega líður illa eftir á. Ein góð spurning sem ég spurði sjálfa mig í gærkvöldi á meðan ég horfði á myndina.. hvers vegna líður mér hræðilega illa(líkamlega)efitr MacDónalds en svona allt í lagi eftir hamborgara frá öðru fyrirtæki heima að frátöldu BurgerKing?
Ég fékk líka einhvern vegin nóg af rusli, eftir að ég sá hvernig þetta er að fara með okkur mannfólkið. Hvað gengur eignilega að okkur? hvers vegna gerum við líkama okkar þetta. Ég er sko engin undantekning frá þeim sem hakka í sig rusl daginn inn og út. Síðustu 2 mánuði hef ég legið á beit allan daginn, þvílíkt og annað eins rusl og ég bara get ekki hætt. Ég get svarið það að á tímabili hélt ég að ég væri komin með einhvers konar matarfíkn. En það var eins og spark í rassgatið að horfa á þessa mynd. Ég hef nú fengið ógeð á rusli og ef ógeðið er farið á morgun þá horfi ég aftur á myndina til að fá ógeðið aftur. Í dag er ekkert nema hollustan búin að fara í minn maga og ætla ég að halda því áfram. Ég vil ekki taka þátt í þessari vitleysu og styrkja þessi fífl þarna í Bandaríkjunum! Ef þú ert á móti Bush og spilltum stjórnarháttum þá áttu ekki að leggja þér rusl til munns, það fannst mér koma greinilega fram í þessari mynd. Þú ert ekki að gera neitt annað en að hengja snöruna um háls þér sem strekkist með hverjum bitanum sem fer upp í þig!

Að öðru:
Á hverjum sunnudegi ganga hér framhjá húsinu rússneskar konur á öllum aldri á leið í almenningsgarðinn hér við hliðina. Einn sunnudaginn átti ég svo leið um garðinn og sá hvað þær viðhafast allan eftirmiðdaginn. Þær dansa, tala hátt, borða rússneskan mat og drekka sig blindfullar! Þegar þær svo staulast framhjá húsinu um fimm leytið syngjandi Stál og Hnífur Rússlands, get ég ekki annað en hugsað ,, þvílík snilldarhugmynd!"
Ég er því búin að ákveða að halda piknik í garðinum okkar í vor, áður en allir fara og jafnvel fyrr. Eg spurði kennarann minn hvort það væri bannað að grilla í borginni og hún hafði aldrei heyrt um það þannig að ég ætla að dobbúltékka hjá löggunni sem er hér líka við hliðina og ef það má grilla þá verður sko haldin veisla! Það er á hreinu!

þriðjudagur, mars 06, 2007

fleiri myndir frá Mílanó

myndir frá Mílanó

Lítil saklaus stelpa frá litla Íslandi

Já í samanburði við sögur sem ég hef nú heyrt frá bekkjarfélögum mínum er Ísland eins saklaust og hægt er.
Stelpan sem kemur frá Guatemala: Mömmu hennar var rænt og haldið í 1 mánuð, móður systur hennar var rænt og haldið í 5 mánuði, faðir hennar var skotinn til bana.
Stelpan sem kemur frá Brasilíu: frænku hennar var rænt og haldið í 6 mánuði, hún sjálf kom heim eftir djamm eitt kvöld ásamt kærasta sínum og þeim var rænt fyrir framan húsið hennar, þau dregin upp í bílinn hennar, ógnað með byssu við hausinn, rænd öllu ásamt jökkum og skóm og skilin eftir á miðri hraðbrautinni.

Þetta voru svo massívar sögur þennan dag að ég var í hálfgerðu sjokki, greyið stúlkurnar! Og ég er heldur ekkert svo viðkvæm þegar ég er á túr, ég þurfti svoleiðis að halda aftur tárunum, ekki voru þær að grenja, nei ÉG var að grenja, mér fannst þetta svo hræðilegt!

Nú erum við mæðgurnar komnar með moskítóbit.

mánudagur, mars 05, 2007

Ameríkuveikin svokallaða

Já Hekla er búin að liggja með 39 stiga hita síðan á laugardaginn... ég sem hélt hún slyppi. Hún lætur mann alltaf halda að hún sleppi þar sem hún er alltaf sú síðasta að fá pestarnar, en svo koma þær á endanum. Ekkert við því að gera nema að taka lýsi af krafti.
Ég fékk mjög ánægjjulegan pakka á fimmtudaginn síðasta, í honum voru 2 bækur handa mér og 5 bækur handa Heklu. Hekla var alveg í skýjunum og skoðaði fenginn það sem eftir var dagsins, hljóð með ánægju svip og valdi svo vandlega bókina sem foreldrarnir áttu að lesa þá um kvöldið, síðan hefur ekki verið lesið neitt annað. Þetta eru eins og önnur jólin hér. Ég er líka búin að liggja yfir mínum.. ég fékk Skipið eftir Stefán Mána og svo Viltu vinna milljarð eftir Vikas swarup. Ég er búin með þær báðar, át þær upp eins og gott súkkulaði. Þær voru báðar tvær snilldarlesning. Ég verð bara að mæla með þeim báðum. Sverrir spurði mig áðan hvora hann ætti að lesa, ég gat ekki með nokkru móti ráðlagt honum, þar sem það fer algerlega eftir því hvernig skapi þú ert. Önnur er spennusaga en hin spennnusaga líka kannski en af allt öðrum toga, með ást,grimmd,húmor og mannvonsku en þó fyrst og fremst um vonina sem býr í hjarta hvers manns.
Sólin skín dag eftir dag í þessu dásamlega landi og 18-20 stiga hiti. Moskítóflugurnar eru vaknaðar og farnar að angra nætur manns og ef þetta heldur svona áfram verður stutt í að viftan komi niður af háaloftinu og komi loftinu hér á hreyfingu.
Ég er núna búin að dreifa nafnspjöldum mínum út um allt en er þó ekki búin enn og ætla að gera fleiri og dreifa enn frekar.
Þið munið.....Sigurroscatering@gmail.com
Ég er að setja saman myndir og er að reyna að koma því í gagnið, ég hef nefnilega sagt skilið við Barnaland... vil helst ekki bendla nafni mínu og fjölskyldu minnar við þá kjaftapíkusíðu!
Sverri finnst ég orðin eitthvað svo yfirlýsingaglöð þessa dagana, það getur vel verið. Ég virðist fara í svona ham af og til, mér finnst það svo sem í lagi, bara að það fari svo aftur eftir nokkra daga, ég er ekkert svo svakalega skemmtileg þegar ég er svona yfirlýsingaglöð...æjá ég er á túr það er kannski þess vegna... já og kannski er það þess vegna sem ég er svona brjáluð í súkkulaði þessa dagana...andsk.túr!
Ég var að rökræða við Heklu áðan, hún vildi að ég kæmi með henni á klósettið þar sem hún þorði ekki að fara ein. Þetta er ég að reyna að venja hana af,mér finnst hún verða að geta farið ein á klósettið.
Ég: Hekla farðu ein á klósettið!
Hekla: Ég vil ekki, það er komin nótt og ég þori ekki að fara ein.
Ég: Hekla það er hábjartur dagur... Hvernig þætti þér það ef ég og pabbi þinn þyrftum alltaf að hafa þig með okkur á klósettið að pissa?
Hekla: En mamma, ég er bara barn þú veist það!

Ohh ég gat ekki annað en fundist þetta svo hrikalega sætt og farið með henni, en bara að hurðinni til að keikja ljósið(sem var óþarfi þar sem það var hábjart þar inni) og fór svo, hún tók því þögul.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Ungdomshuset

Ég verð að segja að ég er mjög fegin að vera flutt frá Bjelkesallé þessa stundina eftir að hafa lesið um óeirðirnar sem geisa þarna í götunni við hliðina. Það getur verið að þetta hús eigi sér sögu og það nokkuð merkilega og allt það en síðustu misseri hefur sest þarna að hinn mesti lýður og var ég alltaf nett smeyk þegar ég gekk þarna framhjá. Það var alltaf viðbjóðsleg pissufýla þarna og fólkið sem maður sá hanga þarna voru ekki neinir listamenn né þá heldur baráttumenn fyrir verkalýðinn, þetta voru dópistar, rónar og vitleysingar! Ég þurfti að ganga/hjóla þarna framhjá á hverjum einasta degi og svona var þetta orðið. Ekki það að ég sé beinlínis að halda með þessu trúfélagi sem á þetta hús, löglega, heldur finnst mér það aðeins rétt að ef maður kaupi hús þá fái maður það afhent í sínar hendur. Það var jú farið á bakvið Ungdomshuset við söluna en hvenær keyptu þeir það? Þeir fengu lyklana af því og ekkert annað, Danirnir kannski halda að ef þeir eru nógu andskoti dónalegir við mann að þeir fái hlutina frítt?! Ég veit ekki.....
Ég hins vegar sakna Danmerkur það er ekki það, ég sakna þess að vera þar því það var gott og skemmtilegt.... við borguðum minni leigu, jafnmikið í mat og drykk og fengum barnabætur og húsaleigubætur og niðurgreiddan leikskóla og gátum hjólað hvert sem við vildum án þess að eiga það á hættu að vera keyrður niður á hverri mínútu, við gátum verið á hjóli með kassa fyrir framan(=bíll)án þess að borga bensín á það né heldur borga tryggingar, það var vetur á veturna og sumar á sumrin. Já hvers vegna í ósköpunum fluttum við þaðan??? Ég er eiginlega alveg viss um að ef Danirnir væru eins ,,ligeglad" og þeir eru sagðir vera þá hefðum við aldrei viljað fara þaðan. En nú erum við hér á Ítalíu reyndar í alveg hreint klikkuðu veðri og með yndislegt fólk í kringum okkur, allir svo ,,ligeglad" að það hálfa, afgreiðslufólk er ánægt að sjá þig og bíður þér góðan daginn með bros á vör... jú hér er líka gott að vera... það mætti gera eitthvað við félagslega kerfinu og launakerfinu en annars er hér mjög gott að vera.

Að allt öðru:
Við héldum á föstudaginn uppá 60 afmæli okkar Sverris og þar var sko fjör! Það var heilmikið drukkið og spjallað langt fram á nótt og Hekla fékk leikfélaga sinn í heimsókn, hann Viktor, og þau léku sér góð saman án þess að við tækjum eftir þeim, þar til Bára og Bjarki fóru heim um 2,30 leytið, þá loksins sofnaði Hekla. Við buðum uppá alveg geggjað sushi og svo afmælistertur í eftirrétt. Þetta heppnaðist alveg svakalega vel og það fór bara vel um fólk í 45 fm íbúðinni okkar þó að það hafi verið hér 25 manns, næstum allan tímann.
Daginn eftir brunuðum við upp í fjöll. VIð fengum lánaða íbúð Jole og Piero yfir helgina og að sjálfsögðu nýttum við okkur það. Það var reyndar lágskýjað laugardag og sunnudag þannig að við sáum ekki neitt í kringum okkur og gátum ekki farið á bretti en svo á mánudeginum birti svona líka til og við sáum umhverfið í réttu ljósi. Ótrúlega fallegur staður, bærinn heitir Scopello og er rétt hjá Monte Rosa í Piemonte héraðinu.
Ég ákvað að reyna að borða sem mest af týpískum mat frá þessu héraði og það var mjög gott en það skrítna var að það var fáránlega líkt íslenskri/skandinavískri matseld. Merkilegur andskoti!