fimmtudagur, september 28, 2006

Sverrir og bílprófið

Ég hugsaði svo mikið um þessa blessuðu samloku í morgun að ég gleymdi að segja frá því að Sverrir mun loksins vera kominn með bílprófið!!!!
Við skáluðum fyrir því í gær með Kjöt í karrý, mama style, með tengdó......
Sverrir var að keyra í allan gærdag og hann stóð sig bara helvíti vel drengurinn, ég er stolt af honum!

miðvikudagur, september 27, 2006

mmm samloka!

Ég get ekki beðið eftir að fá mér samlokuna sem ég er búin að hugsa um að gera í hádeginu. Það mun vera ristaðar brauðsneiðar smurt með ricotta,sólþurrkuðum tómatmauki,pestó(heimatilbúnu)mozzarellaosti,tómötum og rucolasalati, ohhhahhhh(greddustunur)!!!!!

sunnudagur, september 24, 2006

Afsakaðu Langi Seli!

Engar útskýringar fáiði með þessari fyrirsögn!

Ég fór á föstudaginn til að kveðja Ásu vinkonu og nú er hún farin :( En ég býst nú við því að sjá hana jafnvel í Mílanó, ég meina maður getur fengið far til frá London á skid og ingenting!

Fór svo á laugardaginn í brúpkaup hjá Einari Sigurðssyni og Völu Pálsdóttur, þetta var allt saman hið glæsilegasta brúðkaup og vel dekrað við mann allan tímann, þjónustan frábær, félagsskapurinn og maturinn allt saman í hæsta gæðaflokki. Mjög skemmtilegt og ég verð að segja að það var þarna einn skemmtikraftur sem bókstaflega fór á kostum. Það var frændi Einars, skildist mér, og ætli hann hafi ekki verið milli 10 og 12 ára og söng ofur fallega og svo skemmtilegur textinn hjá honum að maður lá í hláturskasti. Mjög skemmtilegt.
Eftir brúðkaupið fórum við á tónleika á Þjóðleikhúskjallaranum og þar spiluðu: Langi Seli og Skuggarnir, Ske og Jeff Who. Þar var sko skemmtilegt! Ég var náttúrulega orðin ansi skrautleg en hélt þó andliti, held ég alveg örugglega og ætla ekki að fá helvítis daginn eftir-bömmerinn yfir smávægilegum hlutum! Við vorum þó komin heim á svona nokkurn veginn skikkanlegum tíma eða um 4 leytið, reyndi að borða pulsu sem ég eldaði mér sjálf en það var bara ekki eins þannig að hún endaði í ruslinu.
Við skriðum því seint og síðar meir úr bóli í gær vel timbruð og fín. Ég fór svo að telja upp áfengistegundirnar sem ég lét ofan í mig um kvöldið og nóttina og voru þær 6 talsins og er því ekki furða að maður gat vart staðið í lappirnar af þynnku.
OKOK það var smá skandall hjá stelpunni þar sem hún er líklegast mesta grúppía í heimi þegar bakkus kemur í heimsókn en þið fáið ekki að vita hvað ég gerði þó svo að það hafi verið mjög lítilvægt og varla til að tala um, en ég tala ekki meir um það!
Ljósmyndari Moggans kemur á morgun og ætla ég því að fara að vinna og hætta þessu blaðri endalaust.
P.s. vinir okkar úr Ske og Jeff Who stóðu sig frábærlega og skemmtu fólki út í eitt!

þriðjudagur, september 19, 2006

mmmmm......... matur!!!!

Ég er svo svöng og ég get ekki hætt að hugsa um indverska lambakjötsréttinn sem ég fékk hjá Sigrúnu og Árna á sunnudaginn! Eru ekki til einhverjir afgangar???
Það var mjög skemmtilegt hjá þeim í mat eins og alltaf og Salka og Hekla léku sér eins og englar saman. Yndislegt kvöld.
Ég fór svo á ballettsýningu í gærkvöldi eða kannski öllu heldur danssýningu. Þessi sýning var alveg hreint ótrúleg, maður var alveg dolfallinn frá fyrsta spori til hins síðasta! Hló og grét til skiptis eins og mér einni er lagið, frábær kvöldstund og vil ég þakka Þorgerði systur fyrir að draga mig með á þetta.
Mig langar í kjól fyrir brúðkaupið sem við erum að fara í á laugardaginn. Ætla samt að hitta Ásu á föstudaginn, er nett sama hvort ég verð þunn á laugardeginum eða ekki, þetta er síðasta kvöld mitt með Ásu í smá tíma og ég ætla að njóta þess hvort sem það verður með edrúskap eða æluskap!
'Ich ég verð að fara og fá mér að borða, ég er líka búin að vera að skoða hamborgara uppskriftir á netinu og jesús minn það er ekkert skrítið að kanarnir séu svona feitir þessar uppskriftir eru bara æla! En samt langar mig í hamborgara núna, æ nei mig langar í salat, ohh byrja ég enn og aftur með þessa óákveðni í hvað mig langar að borða, get aldrei ákveðið mig.
Ég keypti Bónus brauð um daginn og var bara helvíti ánægð með það, fann beisiklí engan mun á því og Heimilisbrauðinu, nema hvað að 2 dögum seinna ætlaði ég að fá mér meira og þá var það svo myglað að það hefði getað labbað uppúr skúffunni. Heimilisbrauðið dugar út vikuna. Þá er mér spurn, eru Bónusbrauðin þá bara gömul Heimilisbrauð?
Aldrei að vita!
Mér fannst mjög skrítið að hafa ekki fengið nein komment á slef lýsingar mínar. Veit reyndar ekki hvort að trúlofaði gaurinn sé búinn að sjá þetta.
Ég er núna að vinna að uppáhaldstegund minni af eldamennsku og þið sjáið það annað hvort á morgun eða næsta föstudag í mogganum, mmmm.......
Stutt hár eða ekki???
Hvað segið þið?

mánudagur, september 18, 2006

paprika eða grilluð paprika/Leiðrétting!

Ég tók eftir því í Fréttablaðinu að þar stóð að ætti að vera paprika í kartöflustöppunni en að sjálfsögðu á þar að vera grilluð paprika(afhýdd). Þar sem mér finnast hráar paprikur mesti viðbjóður í heimi, þegar maður bítur í hráa papriku erhún römm, sæt, beisk og leiðigjörn. Þegar þessi aumingjalegi vökvi spýtist upp í munninn á manni eins og slef úr manni sem maður hélt að væri góður kyssari en er svo massa lélegur og maður vill bara hætta, fara, beila, bless! O nei hráar paprikur fáið þið aldrei að sjá í minni matargerð og það er á hreinu. Hins vegar eru grillaðar paprikur svo unaðslega sætar og ljúfar, þær leika við munninn eins og virkilega góður kyssari og maður vill bara alls ekki að hann hætti, aldrei og jú kannski bara trúlofast honum!
Nóg um paprikur!
Ég fékk sem sagt fleiri verkefni bæði frá Mogganum og Nýju Lífi og er í skýjunum yfir því en hins vegar þá tók yfirmaðurinn minn ekki nógu vel í tilboðið mitt, ég bara skil ekki af hverju, ég meina hvaða yfirmaður hafnar svona tilboði, minni vinna og meira kaup, ég meina það sko, hver getur neitað! Annars kom ég með móttilboð um að lækka launin mín og hann sagðist ætla að skoða málið og ef að ég fengi ekki vinnu hjá honum þá gæti hann auðveldlega reddað mér vinnu annars staðar og ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu, við reddum þessu, sagði kallinn!
Hann er greinilega ánægður með mig kallinn og er ég því í skýjunum nú í dag.
Ég fór áðan að leita að smá heimildum og fá hugmyndir og bara svona kveikja á uppskrifta heilanum mínum. Ég geri þetta iðulega þegar mig vantar hugmyndir að nýjum réttum, þá fer ég annað hvort á bókasafnið, í mitt bókasafn eða á netið og fer í gegnum hundruði uppskrifta og út úr því fæðast alltaf nýjar hugmyndir hjá mér að nýjum réttum. Þegar ég tala um bókasafnið og bókasafnið mitt eða mömmu er ég að sjálfsögðu að tala um matreiðslubækurnar.
Þannig að ég er komin á fullt með nýjar hugmyndir og nýja rétti það verður eitthvað spennandi annað hvort næsta föstudag eða þarnæsta.
Kannski verð ég líka komin með einhverja týpuklippingu næst þegar þið sjáið mig, það er aldrei að vita.
Best að hella sér í uppskriftagerð!

laugardagur, september 16, 2006

Morgunblaðið, Fréttablaðið og Nýtt Líf

Já það er allt að verða vitlaust hérna maður! Ég var sem sagt í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í gær og kem í október hefti Nýs Lífs. Ég var með veislu fyrir Árna Þór vin minn í gær og heppnaðist alveg rosalega vel og það var rosalega gaman.
Reyndi að ná í yfirmanninn í gær og í dag en án árangurs þannig að ég veit ekki enn hvernig verður með mig þegar við komum aftur út, en ég ætla ekkert að stressa mig á því.
Við kvödddum KogK í fyrradag með tárum, en þær verða reyndar styttra frá okkur þennan veturinn en síðustu þannig að kannski verður eitthvað um heimsóknir á milli, aldrei að vita!
Næst verður Ása kvödd líka með tárum! Allir á leið til London, það er greinilegt að þessi vinahópur verður ekki leiður á að ferðast og búa í öðrum löndum.
Annars er massa þreyta í stelpunni í dag og er ég mjög heppin að Hekla hefur fengið að leika við Hörð Sindra í allan dag mest megnis úti í garði, og svo smávegis niðri heima hjá Ólu og Gumma.
Sverrir er nefnilega að steggja Einar Sigurðsson vin sinn og verður líklegast í allt kvöld líka.
Góða Skemmtun Sverrir!

fimmtudagur, september 07, 2006

EKKI NÆLA ÞÉR Í VATNSBERA!

Þegar ég las Birtu í morgun og rak augun í stjörnuspána mína fyrir daginn stóð þetta orðrétt ,,Ekki næla þér í vatnsbera, þið eigið ekki vel saman. Tunglið togar á undarlegan hátt í fiska í vikunni sem þýðir að allt geti gerst og það þola vatnsberar ekki. Þeir vilja ekki láta toga í sig því þá halda þeir ekki vatni."
Já þá var nú gott að minn maður er vatnsberi,ha!

Annars stóð ég ráða-og hugmyndalaus fyrir framan ískápinn áðan í miklum hugleiðingum, einu sinni sem oftar. Af hverju verð ég að borða þegar ég verð svöng, ég er komin með nett leið á því að borða og langar ekki í neitt sérstakt, af hverju er ég þá að fá mér að borða? Mig langar bara helst að sleppa því. Þetta er eins og að verða að fá sér kærasta vegna þess að maður er bara kominn á nippið, ég meina af hverju borðar maður ekki bara eitthvað sem er þess virði að borða og það sem mann virkilega langar í að borða??? Ég nenni þessu ekki lengur.... rútína Sigurrósar: stend fyrir framan ísskápinn, svöng að sjálfsögðu, og glápi á allt sem til er og langar ekki í neitt en þar sem ég er að ,deyja úr hungri' verð ég að fá mér substitute og fæ mér þá samloku með osti.. borða hana með hálfum huga því að mig langaði barasta ekkert í hana og fæ svo sammara á eftir því að ,,oj ostur er svo ógeðslega fitandi''.
Ég er komin með aðra sýn á sjálfa mig allt í einu, ég held að ég sé eitthvað sick! Ímyndunarafl mitt er svo gríðarlegt. Ég sef nefnilega í ,,draumaherberginu'' núna þessa dagana en það er herbergi hjá mömmu og pabba sem mann dreymir eitthvað mikið á hverri nóttu og ég er bara komin með nóg af þessu ímyndunarafli mínu, algjört nóg! Þeir eru svo fokked up að ég bara get ekki farið með þá hér á þessari síðu!
Hekla mín er með Leikskólavörtur og við erum á þessum dögum að vinna í að taka þær af henni og gengur það mjög misjafnlega. Málið er að ég þarf að taka þetta af henni sjálf með einhverri græju,s em sagt kippa einni af á viku og eftir á fær hún ein verðlaun. Nema hvað að ég var að telja þær og þær eru 14 sem þýðir 14 vikur, sorry ég er ekki að fara að leggja þetta á barnið í 14 vikur þannig að í gær voru teknar 2 og 1 á þriðjudaginn og það gekk bara fínt í gær og ég held það hafi verið vegna þess að hún fékk glæsilega prinsessu inniskó, sem er líklegast mesti viðbjóður sem ég hef séð. Þetta er eitthvað sem ég keypti í Tiger eða Allt á 100 kall eða hvað sem þessi búð heitir og þeir eru svo harðir að, já þeir eru beisiklí úr hörðu plasti. En hún var alveg í skýjunum yfir þessu þannig að ég ætla að reyna að bæta mig í verðlaunakaupum héðan af. Sleikjóinn var greinilega ekki alveg að gera sig.
Ég var að lesa fáránlegustu veitingahúsagagnrýni sem ég hef lesið. Hún var í síðasta tölublaði Gestgjafans og ég held að eigandi staðarins hafi mútað gagnrýnanda. Málið var að þessi staður er á Húsavík og máltíðin var að mér fannst heldur dýr miðað við að gagnrýnandi sætti sig við PESTÓ ÚR KRUKKU,sem er by the way mesti viðbjóður og hann segir virkilega í greininni mjög sáttur innan sviga ,, enda nennir enginn að gera slíkt frá grunni)hvað er veitingahús að bjóða uppá svoleiðis? Fyrir veitingahús er örugglega ódýrara að vera með ferskt pestó þar sem það væri gert svo mikið af því og það tekur kokkinn svona ca.2 mínútur. Hvað er svona maður að gagnrýna spyr ég? Hann kann greinilega ekki að elda eða hefur aldrei unnið í eldhúsi!
'eg horfði á Hells kitchen í gærkvöldi, ég á greinlega ekki að horfa á þetta. Ég hélt að ég myndi halda með nemunum eða kokkunum í þessu tilfelli en endaði á því að halda geðveikt með Gordon Ramsey og næstum því öskra með honum á þessa ILLA sem greyið maðurinn var búinn að koma inn í eldhúsið hjá sér. Hvaða eldhúsum hefur þetta lið eiginlega unnið í, guð minn góður, aular bjánar og letihaugar sem svitna í matinn! Sko ef ég fer til USA einhvern tímann þá skal ég ávallt elda heima ef þetta er það sem er að vinna á fínu veitingahúsunum þarna úti. Eru einhverjar reglugerðir þarna sem standast EU standarda??? Eina manneskjan sem gat eitthvað þarna var einhver sem heitir Heather og á mér líklegast eftir að líka best við hana í framhaldinu, hehe sjáum hvernig fer. En ég kom sjálfri mér á óvart, er ég virkilega orðinn svona mikill kokkur?
Jæja best að fara og taka þvottinn, kallinn vantar nærbuxur.

miðvikudagur, september 06, 2006

Magnaður Magni? eða mögnuð þjóð?

Er það ekki spurningin í dag? Magni reyndar stendur sig helvíti vel þó að mér finnist að hann megi líta aðeins meira á áhorfendurna og hreyfa sig meira á sviðinu, án þess þó að gera eins og hinir þ.e. ofleika. Annars er ég stolt af Íslendingnum og Íslendingum sem standa greinilega saman!
Ég gerði matinn fyrir Nýtt Líf í gær og í dag var það Morgunblaðið, allt gekk mjög vel og maður bara rumpaði þessu af. Það voru líka teknar myndir af mér, ég tók mig voða fínt til í gær en mín var ekki alveg í stuði fyrir shower og hárblásun klukkan 7.00 í morgun þannig að ég skellti einhverju á feisið á mér og setti hárið í hátt tagl henti mér í bol af systur minni og brosti framan í myndavélina. Ég var reyndar ekki alveg með það á hreinu hvort að það yrði tekin mynd af mér fyrir Moggann þannig að ég var ekkert að stressa mig neitt rosalega á útlitinu, en svo kom í ljós að hann vildi hafa mig með þannig að ég verð bara að biðja og vona að ég hafi litið þokkalega út!
Þið getið sem sagt séð greinarnar eftir mig í Nýju Lífi í októberblaðinu en ég er ekki alveg með það á hreinu hvenær það kemur í Mogganum. Vonandi bráðlega þar sem ég er með snemmhaustsumarmat(hvernig fannst ykkur þetta orð???).
Annars sakna ég dóttur minnar alveg hreint hræðilega, hún nefnilega gisti úti á nesi í nótt þar sem ég þurfti að byrja að vinna í morgun klukkan 7.00. Ég er held ég komin með einhvers konar fóbíu eftir þetta ævintýri í Mílanó, ég fer í tómt rugl þegar Hekla er í pössun, eitthvað sem ég hef verið alveg einstaklega afslöppuð yfir hingað til.
æ hvað maður á eftir að sakna allra. Þetta verður erfiðara núna en nokkru sinni fyrr,þ.e að fara aftur út. Þó að okkur líði mjög vel þarna úti og allt alveg hreint yndislegt, þá finnst mér svo mikilvægt að Hekla kynnist fjölskyldunni sinni. Þegar ég kemst í þennan ham þá reyni ég alltaf að hugsa til Hrafnhildar og Sóleyjar því að þær voru úti til 5 ára aldurs(þ.e.Sóley og Hrafnhildur þá 3ja) vonandi fer ég með rétt mál. Ekki var þeirra samband við ömmu og afa eða skyldmenni sín neitt minna en hjá okkur hinum! Er það ekki rétt hjá mér, stelpur?
Ég held að ég fari og sæki Heklu mína snemma í dag og fari með hana í sund.
Ég var að fá aðra veislu, líst mjög vel á hana, það er hjá Árna Þór vini mínum, það verður gaman.
Ég fékk smá sjokk yfir forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag, sem segir frá lítilli stelpu sem fékk mikil brunasár eftir vatn úr krana heima hjá sér. Ég vil núna að mamma og pabbi fái einhvers konar vörn fyrir þessu. Það munaði mjóu um daginn þegar Hekla var í baði og allt í einu var skrúfað frá heita krananum með sjóðandi vatni og beint á lærið á Heklu, sem betur fer var hún fljót á sér og fór ofan í baðið þannig að ekkert alvarlegt gerðist en hún fann til í smá tíma eftir á. Hræðilegt þegar svona gerist.
Mikið ofboðslega er gott og endurnærandi að fara í göngutúr uppá Valhúsahæð eða í fjörunni þar sem engin umhverfishljóð eru, alveg hreint unaðslegt.
En nú ætla ég að leggja mig því að ég vaknaði allt of snemma, finnst ykkur ekki!?

mánudagur, september 04, 2006

Hugsið ykkur hvað lífið væri ljúft ef kryddjurtir væru ódýrar!!

Ég fór í morgun og ætlaði að fá vinnu hjá Fíton í eldhúsinu, bara í þennan mánuð sem ég er á landinu en komst að því að þeir ætluðu að borga mér frekar lítið og ég barasta gat ekki tekið þeim launum sem þau buðu mér, I'm getting expensive! Eða svona þannig ég er bara lærð og verktaki þannig að þetta var ekki hægt fyrir mig. En ég er að sjálfsögðu með massívt samviskubit yfir að segja nei við vinnu, hvað er það eiginlega???? Af hverju fæ ég alltaf sammara yfir að segja nei við einhverri vinnu sem mér býðst??? Algjör hálfviti!
Ég er núna á fullu aðundibúa 2 greinar sem ég á að skila í vikunni og svo líka veislan sem verður haldin í Keflavík fyrir vini pabba. Þannig að ég þarf svo sem ekki að vera með neitt samviskubit yfir að hafa sagt nei við Fíton.
Var að prófa soldið mjög fyndið, það verður gaman að sjá hvernig fólki finnst sá réttur vera það er brasserað saltkjöt. Það er nefnilega til klassískur danskur réttur sem er með léttsöltuðum svínaskönkum og það var einn af bestu réttum sem ég hef smakkað, nema hvað að íslenska saltkjötið er soldið mikið saltað og er lambakjöt þar að auki en sjáum hvort þetta verði ekki bara gott.
Ég fór á fyllerí fimmtudag,föstudag og laugardag! Ég er ekki í lagi!
Við fórum í mat til Guðbjargar og Bigga á fimmtudaginn og skemmtum okkur rosalega vel. Á föstudeginum fór ég með konunum í fjölskyldu Sverris og þar var ekkert smá mikið stuð maður. Takk stelpur!
Á laugardeginum var humarveisla hjá tengdó og alveg hreint geggjaður humar var í gangi og svo á eftir fórum við heim til Ernu og hittum þar Ernu,Kötu og Kristínu og Ásu og drukkum alveg hreint endalaust og spjölluðum og skemmtum okkur langt fram á nótt, alveg geggjað gaman. Takk stelpur!
Var að fá aðra veislu sjáum á morgun hvort við komumst ekki að einhverju skemmtilegu launasamkomulagi ;-)
Gaman gaman að hafa svona mikið að gera,,, jesss....