Ég var að klára Veronika ákveður að deyja bókina, hún fær mann verulega til að hugsa. Ég er t.d. að hugsa núna hvað ég sé að spá að fara frá barninu mínu, hvað ef eitthvað kæmi fyrir og ég er þá búin að eyða þessum dýrmætu stundum frá henni í stað þess að vera hjá henni.
Ég fór líka að hugsa um hvað maður velur að berjast fyrir í lífinu, hvers vegna og hvort maður ætti að vera að því. Ég er t.d. búin að vera að berjast fyrir þessu kokkastarfi í meira en 4 ár. Í hvert skipti sem ég kem inn í nýtt eldhús hugsa allir þar inni ,, iss, hún endist ekki í viku þessi, hún á barn, hún er með brjóst og ekki nóg með það heldur er hún grönn og lagleg!" já ég sagði lagleg, þegar fólk er búið að vera að segja manni allt sitt líf að maður sé laglegur er þá svo hrikalega slæmt að maður fari að trúa því??? Er ég þá egóisti?? Nei það þykir mér ekki, raunsæi myndi ég frekar kalla það. En svo ég komi mér aftur að málinu sem ég byrjaði á.... En ég entist(í kokkinum) og ég píndi mig og ég næstum eyðilagði líkama minn með það eitt í huga að ef þessi strákur getur gert þetta af hverju þá ekki ég líka? Ég hugsaði ekki út í það að hver og einn er sérstakur, bæði líkamlega og andlega. Ég hugsaði heldur ekki út í það að þessir stóru og sterku strákar, sem ég hef verið að vinna með í gegnum tíðina, fara líka grenjandi heim í ból, grenjandi af þreytu á líkama og sál. Er þetta starf virkilega svona öðruvísi en á öðrum vígstöðvum eða erum við kokkarnir,þ.e. þeir sem hafa ástríðu á mat og uppskriftum, svona viðkvæmar og opnar sálir. Að þjást fyrir það eitt að sjá ánægjusvip eða jafnvel nautnasvip viðskiptavinar, ókunnugrar manneskju við það eitt að bragða á einhverju sem þú skapaðir og gafst frá þér. Er það þess virði að fórna öllu fyrir? Í fyrsta skipti vinn ég fyrir listamann, hann hefur gert þetta hann hefur fórnað öllu fyrir heimspeki sína og list, ekki hef ég hugmynd um hvort maðurinn sé hamingjusamur en það veit ég að ég er ekki hamingjusöm án fjölskyldu minnar og að ef þetta er fórnin fyrir að vera matreiðslumaður þá er ég ekki tilbúin til að vera matreiðslumaður.
Í allt of mörg ár hef ég sett heilan minn á hilluna og reynt að nýta mér það sem ég er góð í, þetta er eitthvað sem ég hef alltaf gert. Þegar ég var um 10 ára langaði mig til að vera rithöfundur, þetta er reyndar leynd ósk mín eitthvað sem mig langar enn að vera, en eftir fyrstu tilraun mína að sögu þá gafst ég fljótt upp, sagan sem ég hafði skrifað fannst mér vera svo hrikalega illa skrifuð og leiðinleg að ég lofaði sjálfri mér að skrifa aldrei neitt framar á blað nema að það væri ritgerð fyrir einhvern annan. En löngunin sækir enn að mér, en ég er hrædd um mistök og mest af öllu er ég hrædd um að mömmu finnist það vera svo léleg bók/saga að hún myndi aldrei gefa hana út og myndi líta á mig öðrum augum eftir lestur hennar. Ég er ekki sterk eins og allir halda, jú ég er sterk líkamlega en ég forðast það eins og heitan eldinn sem ég er ekki góð í eða þarf að vinna hart að og horfast í augu við mistök. Eins og t.d. að fara í skóla það hræðir mig meira en nokkuð annað, því það að mistakast í matreiðslu er eitthvað sem aðrir í kringum mig fengu aldrei að vita eða myndu aldrei fá að vita ef það gerðist en það að mistakast í háskóla þegar allir í kringum mig eru með háskólagráðu er eitthvað sem ég gat ekki horfst í augu við. Hvað langar mig að verða? Mig langar að verða læknir! Ósk sem ég á aldrei eftir að geta uppfyllt, þar sem ég get ekki reiknað. Það hefur þó læðst að mér svona í seinni tíð að kannski get ég alveg reiknað ég hef bara ekki þolinmæði í að komast ekki að almennilegri niðurstöðu í málinu á 10 mínútum. Ég man eftir að Þorgerður systir var stundum að glíma við eitt reikningsdæmi svo klukkutímum skipti, kannski get ég það alveg líka ég bara hafði aldrei þolinmæði til að komast að því. Heilinn getur þjálfað sig upp í allan andskotann, eða erum við hæfileikaskipt? Er okkur skipt niður í flokka eftir hvar hæfileikar okkar liggja og erum við takmörkuð við einn hæfileika kannski tvo?
Við Íslendingar erum fordekruð í seinni tíð, við erum alin upp í þeirri trú að við getum allt. Við getum farið í hvaða nám sem við viljum, hvort sem það er verkfræði eða listnám. Hvers vegna er þá svona erfitt fyrir okkur að meta það mikils? Hvers vegna er þá jafnvel erfiðara fyrir okkur að velja? Það er ekki litið niður á neitt nám á Íslandi, það eina sem er litið niður á er leti og ef þú ert ekki í námi eða búinn með nám ertu þá letingi? Nei, ekki ef þú vinnur þig hægt og bítandi óteljandi tíma á mánuði í einhvern virðulegan titil. Enda erum við orðin starfstitlaóð. Hreingerningarkona er orðin ræstitæknir og ætli gömlu góðu ruslakallarnir séu ekki komnir með einhvern fallegan titil líka.
Ég þoldi aldrei svona bækur eins og Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn og núna Veronika ákveður að deyja, því að þessar bækur þvinga mann til þess að líta í eigin barm og endurskoða þær ákvarðanir sem maður hefur tekið í lífinu og athuga hvort þær hafi verið réttar eða rangar. Lífið snýst um val og ef maður gerir sér grein fyrir röngu vali er erfitt að sætta sig við það og reyna að breyta rétt og eins og alltaf reynir maður að forðast það sem er erfitt að gera.
Í dag hef ég nægan tíma til að hugsa um líf mitt og val mitt í því hingað til. Ég er ánægð með flest fyrir utan það val mitt að hræðast að gera það sem mér þykir vera erfitt og það sem þarfnast þolinmæði,þ.e. að láta heilann vinna að einhverri gráðu, ekki bara taka það sem ég er þegar góð í og fullkomna það, heldur taka eitthvað sem ég þarf verulega að nota heilann og þolinmæðina.
Hvers vegna er ég þá búin að eyða öllum þessum tíma í kokkinn, jú ég er nefnilega alveg hreint ótrúlega þrjósk og ef ég bít eitthvað í mig þá stend ég og fell með því. Ég var búin að ákveða að sanna mig í þessu og við það stend ég. Ég er líka trú, ef ég vinn á einum stað er alveg ótrúlega erfitt fyrir mig að hætta og fara á annan stað, því að í mínum augum væri það uppgjöf og guð forði mér frá því að gefast upp!Aldrei!
Ég viðukenni að oft á tíðum á ég enga samleið með fólkinu sem ég vinn með, þau tala ekki um hlutina sem ég og vinir mínir og fjölskylda tölum um, ég lendi ekki oft í örvandi samræðum í eldhúsinu og þá sérstaklega ekki í matarhléum. Ekki misskilja mig, ég er ekki þar með að segja að þetta sé heimskt fólk heldur þvert á móti, allir sem ég vinn með og hef unnið með geta lagt á minnið ógrynnin öll af uppskriftum og þulið það upp að vild, alveg hreint ótrúlegur hæfileiki og þau geta töfrað fram dýrindis máltíð á hálftíma með lítið sem ekkert hráefni, það þykir mér einstakur hæfileiki og ekki heimska en að tala um heimsins mál eða bækur er ekki alveg að gera sig þarna. Í matarhléum er talað um síðasta djamm eða hvað hin eða þessi stelpa var flott eða hversu mikið maríúana á að kaupa næst. Ætli það sé ekki að fara svona í taugarnar á mér, það er engin örvun fyrir hinn hluta heila míns, sem er enn sprelllifandi, sem vill umræður og samræður um heima og geima.
Ég er orðin þyrst í þekkingu og komin með pirring í heilann.
Eins og þið sjáið þá mæli ég eindregið með þessari bók!
Ég er líka að hugsa hvort ég eigi að klikka á ,,save as draft" takkann eða raunverulega taka skrefið til fulls og klikka á ,,publish post". Skynsemin segir mér að ,,save as draft" sé betri möguleiki en hjartað segir að ,,publish post" sé eina leiðin.
Ég læt hjartað ráða för.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
skvísa mín! Ég er þveröfugt við þetta sem þú talar um, minn galli er að ég geri mér aldrei grein fyrir mögulegum afleiðingum gjörða minna og hoppa alltaf út í allt og hef alltaf gert hvort sem það hefur verið í ástum eða öðru, vandamálið er náttúrulega að manni mistekst og þannig er það bara en það er rétt hjá þér að ef maður prófar ekki þá gerist ekkert. Stundum vildi ég nú samt hafa smá hömlur á. En eitt sem þú mátt vita er að það hafa fleiri vinir mínir sem stelast til að kíkja á síðuna þína hafa talað um hvað þú sért skemmtilegur penni. Málið er að nú ertu á krossgötum og afhverju ekki að henda sér út í djúpu og loka augunum einu sinni fyrir því hvað gæti gerst!!!!
Sigurrós mín þú ert æðislegur penni. kommon ég er vinkona frænku þinnar og hef jú hitt þig oft og á eins fáránlegum stöðum og skotlandi..(en ég hef ekki hitt þig í amk. 3-4 ár).. en ég elska að lesa bloggið þitt!
Ef þú gæfir út bók væri ég örugglega ein af þeim fyrstu til að kaupa..
knús frá dk.
Gunna vinkona Hrafnhildar
hehehe takk kærlega fyrir traustið!!! Gaman að heyra að þið hafið gaman af skrifum mínum.:)
hæ elskan mín!
þetta er æðisleg færsla. Það að geta verið svona hreinskilin við þig sjálfa og aðra er snilldargjöf sem þú hefur og auðvitað borðleggjandi að þú átt að nýta hana sem mest.
Ég er stolt af þér fyrir að nota í þér heilann og skoða staðinn sem þú ert á í lífinu með gagnrýnum augum, það er ekki hverjum sem er gefið.
Nú þarftu bara að fylgja þessu eftir og taka einhverja góða ákvörðun (helst áður en þú kemur heim til íslands þar sem þjóðaríþróttin er að hjakka í sama farinu án þess að spyrja sig af hverju).
Annars þarf ég að spyrja þig að einu en er ekki með netfangið þitt. Getur þú sent mér línu á kata (hjá) fiton.is ?
takk beibí og farðu vel með þig
Vá þú segir nokkuð...já mér finnst þú vera nokkuð góður penni og hlakka til að lesa bók eftir þig ;0)
Við erum nýkomin frá Sikiley og það var æði!!! Paradís fyrir utan ruslið á götunum, en að kafa var lyginni líkast.
heyrumst sæta!
Guðbjörg
Skrifa ummæli