föstudagur, desember 15, 2006

The Italian Bo Fan Club!

Eins og flestir vita þá er Sverrir Bo fan nr.1 og á líklegast flestar plötur með honum og hlustar á þetta lon og don. En nú hefur bæst í hópinn sjáiði til! Tengdaforeldrar mínir komu um helgina eins og áður hefur komið fram og höfðu þau með í farteskinu tónleikadisk með Björgvini Halldórssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands, þessi diskur hefur ekki séð heimili sitt síðan(þ.e. hulstrið) og situr Hekla stjörf við skjáinn og syngur með hástöfum ,,Þó líði ár og öld........ÉG ELSKA ÞIG..." þetta heitir víst pabbahlust og svo þegar lagið með Svölu kemur(We're all grown up now)þá verður hún mjög æst og segist ekki heyra neitt í ..stelpulaginu ", ,,HÆKKA, HÆKKA!"
Já hér hefur sem sagt myndast hinn myndarlegasti aðdáendaklúbbur.
Áðan ákvað ég að fara í ljós! Ég er svooo hrikalega morkin eitthvað að ég ákvað að nú væri komið nóg ég bara yrði að reyna að koma þessum útbrotum í lag fyrir brúðkaup! Ég vissi af sólbaðsstofu hér í nágreninu og ákvað að skella mér þangað og mun ég svo sannarlega ALDREI gera það aftur! Þetta var eitthvað það skítugasta greni sem ég hef séð og þar að auki þurfti ég að borga 10 evrur fyrir þennan viðbjóð. Ég ákvað að fara í ódýrari tímann sem var svokölluð sturta, standljós með rykugustu viftu sem fyrirfinnst og ég er ekki frá því að ég hafi fundið pissufýlu inni á staðnum! Þegar ég setti viftuna í gang þyrlaðist allt rykið beint upp í nefið á mér og ég hnerraði og hnerraði. Þannig að ég ákvað að hafa slökkt á henni, ég átti að vera þarna inni í 15 mínútur og entist í 8. Þetta geri ég sko aldrei aftur. Maður bara gerir sér ekki grein fyrir því hvað maður er góðu vanur. Almennt hreinlæti til dæmis er bara alls ekki sjálfgefið í þessu landi, hins vegar á Íslandi ef það er ekki til staðar er staðnum lokað!
Æ hvað ég var að vonast til að geta farið í ljós hér.
Hekla er búin að vera heima í gær og í dag vegna mikils hósta, greyið litla, geltir alla nóttina.
Ég gerði alveg hreint geggjað grænmetislasagna í gær, enda er það næstum búið(sem hefur aldrei gerst áður á aðeins 2 dögum) reyndar fengum við hjálp í gær, við vorum að passa hjá Gunna og Höllu Báru þannig að krakkarnir fengu sér líka. Ég ákvað að hafa bara einfaldatómatsósu útá grænmetið, þá er ég að meina að sleppa engiferi og chilli og aukakryddi og svona, ég hafði... æ á ég ekki bara að setja inn uppskriftina??

Grænmetislasagna:
4 litlar gulrætur, skornar mjög þunnt
1/4 fennelhaus, skorinn í mjög litla bita
1/6 grasker, skorinn í mjög litla bita
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
1 zuccini, skorinn í þunnar sneiðar
1 eggaldin, skorið í 1 cm bita
2 hvítlauksrif
fersk basilika
hálfur kjúklingakraftur
hálf dós tomatosause
1 dós niðursoðnir plómutómatar

Fyrst er harða grænmetið steikt við meðalháan hita í ca.10 mín. þá er hinu grænmetinu bætt útí og steikt áfram í ca.10 mínútur eða þar til zucchini og eggaldin hafa mýkst og minnkað. Þá er tómatsósunni og tómötunum bætt saman við, ásamt að lokum hvítlauk og kjúklingakraftinum. Bætið um hálfri dós af vatni og látið malla við lágan hita í ca. 15 mínútur. Rétt áður en lasagnainu er blandað saman er basilikan rifin gróft útí. Á meðan þetta mallar er búin til Bechamelsósa(hvíta sósan, krakkar, hvíta sósan ;))
Bechamel:
125 gr smjör
250 gr hveiti
1 ltr mjólk
50 gr skallottlaukur
100 gr parmesanostur
salt og pipar
bræðið smjörið í djúpum potti þegar það er bráðið er hveitinu bætt útí lítið í einu og pískað þegar allt er komið útí, skipti ég venjulega yfir í sleifina til að koma smjörbollunni saman. Þegar hún er komin saman í eina bollu er mjólinni bætt útí smátt og smátt, ca. 250 ml í einu og pískað saman við smjörbolluna. þar til öll mjólkin er hrærð útí og þetta er mátulega þykkt, þá er þetta saltað og piprað eftir smekk. Mér þykir betra að nota bara venjulegt salt hér, frekar en maldon saltið.
Þá er þetta allt sett í lögin eins og venjulega. Nema hvað í gær breytti ég aðeins útaf vananum og sauð 1 ltr af vatni og setti 2 kjúklingakraftsteninga útí og setti hverja plötu útí í 1 mínútu(ég setti nokkrar í einu, bara í flatt fat), þetta gerði, finnst mér, gæfumuninn.
Á efsta lagið setti ég svo ostsneiðar eins og vanalega og svo alveg fullt af rifnum parmesanosti.
Ég lofa ykkur þetta var algjört sælgæti!

Engin ummæli: