þriðjudagur, júní 26, 2007

Komin heim úr fríi!!!

Jæja þá er maður kominn heim úr alveg hreint geggjuðu fríi og líður yndislega!
Við byrjuðum ferðina í Gardalandi þar sem við lékum okkur í rússibönum og fleira. ví næst lá leiðin á ströndina og gistum við á hóteli við 5 terre í eina nótt því næst gistu við 2 nætur á 4 stjörnu tjaldstæði í Toscana rétt við Pisa. Skoðuðum að sjálfsögðu skakka turninn. A þessu tjaldstæði var æðisleg sundlaug en þó samt rétt við ströndina í Toscana, á strönd við bæ sem heitir Piombino. Þar vorum við á 4 stjörnu tjaldstæði í einstaklega góðu yfirlæti. Þar var allt til alls og meira en það, en maður hélt að maður væri kominn til Þýskalands þar sem það voru einungis Þjóðverjar allt í kring um okkur. En það var nú svo sem í lagi þar sem allir voru í skýjunum yfir þessu öllu saman. Því næst lá leiðin neðar í Toscana eða til lítils bæjar sem heitir Piombino á annað 4ra stjörnu tjaldstæði með sundlaug og alles. Þetta var svona aðeins of mikið túrista svæði fyrir mig en hinir ferðafélagarnir fíluðu þetta í botn. Þetta var risastórt svæði með sundlaug, markaði, apóteki, læknastofu, ofl,ofl. En þarna voru líka moskítóflugur á stærð við litla dverga og ég var sú eina sem þær vildu éta, enda átu þær að vild. Ég var svo illa bitin... bitin voru á stærð við undirskálar! og sársaukinn á við það...
Ströndin við seinni staðinn var alveg geggjuð fyrir stelpurnar,... hvítur sandur og ströndin ekki of langt upp, þar létum við fara vel um okkur útí sjó á vindsængum og plastbátum, yndislegt! Eftir þetta tjaldstæði fórum við til Levanto á Cinque Terre, þar ákváðum við að við værum búin að fá nóg af því að tjalda og sofa í gufubaði þannig að hótel varð fyrir valinu þessa nóttina og ég var guðs lifandi fegin, þar sem moskítóbitin voru rétt að jafna sig eftir hitt tjaldstæðið. Við gátum líka loksins sofið almennilega þar sem það var loftkæling í herberginu, sem betur fer. En daginn eftir var lítil sem engin sól og sjórinn var svo æstur að við gátum ekki verið á ströndinni þannig að við ákváðum að fara heim til Mílanó. Ferðin heim gekk mjög vel, engar raðir á hraðbrautinni og mjög falleg leið. Þegar heim var komið tók við upppökkun og löngu tímabær skjalaskipulögn eða hvað það er nú sem það heitir þegar maður tekur 6 mánaða búnka af alls konar reikningum, kvittunum og plöggum og setur skipulega inn í möppu. Ég get svarið það ég bara skil ekki hvers vegna við hjónin getum ekki gert þetta jafnóðum. Við erum bæði jafn fáránlega óskipulögð og óþolandi í þessum málum. En nú er þetta loksins búið og sem betur fer. Það höfðu myndast hérna í hillunum okkar 5 blaðabúnkar af þessu drasli og sem betur fer er þetta komið inn í möppur. Hefði ekki meikað að skilja svona eftir fyrir sumarið, allt í rugli...
Jæja þá ætlum við dekurrófurnar að fara að koma okkur í háttinn, maður þarf að vera hress fyrir megapökkun á morgun. Við þurfum nefnilega ekki bara að pakka okkur niður fyrir Íslandsferð heldur líka að tæma hillur,skápa og kommóðu fyrir fjölskylduna sem verður hér í sumar. Þar að auki þurfum við að taka sumarhreingerningu. Já það verður sko skemmtilegur dagur á mogun, get ekki beðið.
Við byrjum heimferð með flugi til Bretlands á fimmtudagin og lendum svo á Fróni á föstudaginn um þrjú leytið. Já það verður sko stuð að sjá og hitta alla heima.
Knús og kossar til allra og við sjáumst heima....

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vííí hlakka til að sjá ykkur
kyss
Sigrún

Ólöf sagði...

Við getum heldur ekki sett pappíra jafnóðum í möppu, held að ég sé þroskaheft. Þetta er nefnilega ekki það eina sem ég get ekki. En júhú hvað ég hlakka til að sjá ykkur!

Dýrið sagði...

ég sit hér og bryð hraunmola af gremju yfir því að þið hafið ekki verið hjá okkur í london.
það er eins gott að það sé VIRKILEGA góð afsökun á grillinu!