sunnudagur, maí 04, 2008

Salerno,Napoli,Pompei,Paestum,Poseitano,Roma

Já við erum loks komin heim eftir 8 daga ævintýraferð til suður-Ítalíu. Við byrjuðum á að taka lest til Salerno, en þar rétt hjá býr Simona vinkona, við gistum heima hjá henni,mömmu hennar og systur í 4 daga. Ég ætlaði til að byrja með að fara þangað til að hitta Simonu, spjalla og læra einhver trix af henni í eldhúsinu en þegar við komum var búið að plana hvern einasta dag í skoðunarferðir, og ekki græt ég það! Við byrjuðum á að fara í kvöldgöngu um Salerno, sem er sérstaklega falleg borg. Daginn eftir fórum við til bæjar sem heitir Peastum en þar eru mjög frægar rústir, hof og safn sem við skoðuðum og borðuðum svo hádegismat á alveg geggjuðum veitingastað. Við vorum ekkert sérstaklega heppin með veður þann daginn en það var rosalega mikill og kaldur vindur, minnti mann soldið á Ísland, og hefði það svo sem verið í lagi hefði maður verið klæddur í það en við héldum að það væri samasem merki á milli suður-Ítalíu og hita en svo var ekki, þannig að við bara frusum í sandölunum og stuttermabolum. Daginn eftir fórum við með systur Simonu, sem er sagnfræðingur, til Pompei og hún sagði okkur alla söguna í kringum allt þar, það var eins og að vera með leiðsögumann, alveg ótrúlega mikill munur. Þar fengum við nú mun betra veður, hita og sól ekki það að það hafi verið aðalatriðið, bara spilar sitt hlutverk í þessu öllu saman. Daginn eftir það fórum við með systurinni til Napólí, þar voru okkur lagðar reglurnar áður en lagt var í hann, eldsnemma um morguninn, og það var að hafa bakpokann framan á sér, ekki hafa peninga og kort saman, setja peninga í vasann, engin veski, enga skartgripi eða úr, ekki ganga í hliðargötum og don't make eyecontact! og hana nú! Engar smá reglur að fylgja maður, þetta var líka svo traustvekjandi eða þannig,ha. En þessi borg er svo sérstök og flott, fátæk og rík og allt þar á milli, hún er hreint og beint ævintýraleg. Daginn þar á eftir vöknuðum við enn og aftur eldsnemma til að taka bát til Caprí og ætluðum að eyða deginum þar en þar voru sumir Ítalir eitthvað slow þennan morguninn og umferðin var svakaleg þannig að við misstum af þeim bát, hins vegar var hægt að taka annan bát til bæjar sem heitir Poseitano og er við Amalfi ströndina, hann tókum við og sáum sko alls ekki eftir því, laveg ofboðslega fallegur og yndislegur bær, pínulítill, með smá strönd þar sem Hekla gat spriklað aðeins í sjónum og við foreldrarnir slökuðum verulega á með bjór í annarri. Þar var sól og 30°C hiti, alveg geggjaður dagur í afslöppun.
Hvert einasta kvöld komum við heim til Simonu sem hafði verið í eldhúsinu að elda kvöldverð handa okkur, ekki slæmt að hafa michelinkokk elda fyrir sig á hverju kvöldi og þurfa ekki einu sinni að borga fyrir matinn! Hún er svo hæfileikarík að það er svakalegt. Þessir dagar hjá þeim voru yndislegir en þó að sama skapi svolítið erfiðir, þau eru nefnilega svakalega stjórnsöm, maður mátti ekki einu sinni horfa í aðra átt en þau sögðu manni að horfa í, mjög einkennilegt, en það er erfitt að vera að kvarta yfir smáatriðum eins og þessum þegar þau voru svona rosalega almennileg að fara með okkur í allar þesssar skoðanaferðir og elda fyrir okkur og allt sem þau gerðu fyrir okkur. Þegar þessari samveru lauk tók við ferð til Rómar. Þar vorum við í herbergi í alveg frábæru hverfi í gömlu miðborginni, fullt af lífi, veitingastöðum, kaffihúsum, túristum og innfæddum, ótrúlega skemmtilegt. Þar vöknuðum við enn og aftur eldsnemma á morgnana til að komast hjá röðum og geta skoðað sem mest, við vöknuðum beisiklí alla ferðina klukkan 7.00 eða fyrr og við löbbuðum og löbbuðum bókstaflega af okkur skóna, þannig að ég þurfti að kaupa mér nýja skó í apóteki en það var víst aðeins of seint því að nú er ég komin með sýkingu í fæturna og þeir eru bólgnir eins og handboltar og er draghölt, skemmtilegt. En við náðum að sjá rosalega mikið í Róm, við vorum mætt klukkan 8,00 í Vatíkanið en samt var komin röð. Við fórum svo daginn eftir enn fyrr til að fara að skoða sistine kapelluna og viti menn þar var komin u.þ.b. 3 klukkutíma röð, það gátum við ekki lagt á hana Heklu litlu sem var búin að labba(og vera í kerrunni) í 9 daga streit, þannig að við þurftum að sleppa því að sjá hana, en í staðinn fórum við og sáum Colosseum og gömlu róm og fórum í túristarútuferð um borgina og sáum meðal annars Páfann sjálfann! þegar því var lokið fórum við í mat til vinkonu minnar frá Edinborgartíma mínum. Þar sátum við dauðþreytt að borða mjög góðan mat(enn og aftur)´til klukkan 23,30 og þá var haldið heim á leið. Svo var vaknað klukkan 6,00 í morgun til að ná lestinni til Mílanó. Það er alveg óhætt að segja að við liggjum hér uppi í rúmi dauðuppgefin öll sömul með fæturna upp í loftið, Hekla komin með gubbupest og ég með handboltafætur en þó öll með stórt bros á vör!
Við höfum öll fitnað um þónokkur kíló ekki eins og hafi verið þörf á því en það var bara dælt í mann svo geggjuðum mat á hverjum degi að það var ekki hægt annað en að borða,borða og borða!
Ég vona að ég hafi orku í að setja inn myndir á morgun....

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hvernig líta handboltafætur út? ertu þá komin með rosa mössuð læri? he he

- Hrafnhildur

cockurinn sagði...

hahaha nei sem betur fer fylgdu lærin ekki með í bólguferlinu:)

Ólöf sagði...

úúúúúú hlakka til að fara til Ítalíu