miðvikudagur, mars 26, 2008

Che fortunata che sono!!!!

Já svo sannarlega er ég lukkuleg. Ég eyddi föstudeginum og laugardeginum í ítölsku ölpunum með Óla og Ester og svo keyrðum við í bæinn á laugardeginum og eyddum nokkrum tímum með kallinum og svo aftur upp í sveit og í þetta skiptið var það Gardavatnið. Ég eyddi þar þremur yndislegum dögum með Jole og Piero og fjölskyldu þeirra. Við borðuðum fullt af mat og nutum lífsins. Jole sýndi mér heit böð sem eru þarna rétt hjá villunni þeirra, það er nú meira ævintýrið maður, þetta er fallegasti garður sem ég hef séð, trén eru frá árinu 700 þannig að þau eru ævintýralega stór og gömul, garðurinn sjálfur er ofboðslega fallegur og þetta er eins konar vatn sem er við 37°C, ofan í vatninu eru svo 2 pottar, annar er 38°C og hinn er 39°C, alveg hreint unaðslegt, svo er þarna hellir eins og í Bláa lóninu. Hekla var svo yfir sig hrifin af þessu að hún réði sér ekki fyrir kæti. Búningsaðstaðan var hins vegar sérstaklega primitiv, og ekki nálægt því eins advanced eins og við Íslendingar eigum að venjast, þar var öllum troðið saman í eitt risastórt tjald og þar inni var líka veitingasalan, þar voru engir skápar, bara hengi fyrir útifötin,og hillur fyrir töskurnar með fötunum í, svo við útganginn í vatnið voru hengi fyrir sloppa. Þannig að maður var þarna á bikiníi með karlmenn starnadi á sig og þurfti þar að auki að labba hálfnakinn í gegnum veitingasöluna þar sem allir voru fullklæddir, jeesssss. Það var svona það eina sem ég gat sett útá. Þessi garður er rétt hjá Gardalandi.
Maturinn á páskadag var líka í meira lagi góður, það var forréttur með 5 litlum réttum,eftir það kom spaghetti með pesto,svörtum ólífum og sólþurrkuðum tómötum svo var aðalréttur sem samanstóð af geit,mjólkurlambi,spiedo(sem er spjót sem búið er að elda í 3 tíma með kanínu,kartöflum,kjúkling, svínakjöti og salvíu,það var einnig boðið uppá ætiþistla að hætti rómverja og ofnbakað grænmeti og kartöflur. Í eftirrétt var svo súkkulaðikakan sem var í brúðkaupinu mínu(sem ég gerði)og la Colomba og profitterolles, með eftirréttinum voru svo opnuð öll páskaeggin. Með matnum var svo drukkið fullt af víni og kampavín með eftirréttinum. Þetta var ekki kvöldverður heldur hádegismatur.... Það er nefnilega hefðin hér á Ítalíu að borða hátíðarmatinn í hádeginu, sem er nú alveg sérstaklega góð hugmynd þar sem það tekur þokkalega langann tíma að borða þetta allt saman.
Það sem mér fannst bera af af þessum mat og kom mér mest á óvart var geitin, hún var sérstaklega gómsæt. Það sem kom mér einnig á óvart var að mjólkurlambið, sem er selt á 6500 kr. kílóið,fannst mér ekki nógu gott, það var eitthvað bragð sem fór eitthvað rosalega í mig, en kjötið sjálft var ofsalega fíngert og lét ótrúlega vel í munni, þannig að það er spurning hvort það væri ekki alveg geggjað ef það væri íslenskt mjólkurlamb.
Ég mun svo setja inn fullt af myndum í dag eða á morgun.
Eftir hádegismatinn fórum við í göngutúr um Saló,en það er einmitt það sem allir Ítalirnir gera til að brenna öllum þessum mat, annars bara sofnar maður, enda var troðið af fólki. Þegar við komum svo heim var klukkan orðin svo margt að við fórum beint í ból, alveg hreint geggjað.
Daginn eftir fórum við í picnic upp hæð sem er þarna við villuna þeirra, þar uppá hæðinni er einstakur ,,veitingastaður" en það voru 2 langborð og svo risastórt eldstæði þar sem maturinn var grillaður, myndavélin var því miður batteríslaus þannig að ég gat ekki tekið myndir af þessu. Ég er reyndar alveg að gefast upp á þessari myndavél, hún er að gefa upp öndina greyið og mig langar í alvöru vél! En þegar við komum heim úr göngutúrnum lagði ég mig aðeins og Hekla var að leika sér í garðinum og í báðum villunum(þetta eru nefnilega 2 villur sem eru hlið við hlið sem öll fjölskyldan á, nema að Jole og Piero eiga minni villuna bara ein). Því næst fórum við í bíltúr að heita uppsprettuvatninu, sem hefði átt að taka 30 mínútur en þar sem umferðin var ótrúlega mikil tók ferðin okkur 2 klukkutíma! En við komumst á endanum en þá var komið myrkur, það gerði nú lítið til því að garðurinn er mjög ævintýralegur í myrkri. Eftir sundið fórum við svo á Trattoriu þarna rétt hjá og fengum okkur að borða, Hekla var svo þreytt eftir daginn að hún sofnaði yfir disknum með bita uppí sér, alveg hrikalega sætt,litla snúllan.
Daginn eftir fórum við með Piero í stóru villuna að sjá vínkjallarann þeirra, en þar var í gamla daga bruggað vín, þar sem þau eiga einnig vínekru en efir að afinn dó og húsvörðurinn þá ákváðu þau að endurnýja ekki trén þar sem enginn hafði tíma til að hugsa um það. En það virkar nefnilega þannig með vínviðinn að tréin deyja þegar þau eru orðin of gömul og þarf því að endurnýja þau. Þau eiga líka ólfutré og týna ólífurnar og láta gera olíu fyrir sig og geyma hana svo þarna í vínkjallaranum. Þetta er allt saman svo ótrúlegt og skemmtilegt.
En nú er veruleikinn tekinn við á ný....
Ég fór í gær og borgaði alla reikninga og keypti lestarmiða til Napólí... Það var mjög skemmtilegt að punga út öllum þessum peningum.
Ég er komin með lítið verkefni og hlakka til að byrja á því, ég á að þýða smá kafla í alveg klikkaðri bók sem á að fara að gefa út, ég keypti mér bókina í gær og langar til að elda allt upp úr henni.
jæja best að koma mat ofan í stúlkuna, það er nú búið að vera notalegt hjá okkur í morgun. Ég keypti límmmiða-gátu-bók í gær og er hún búin að vera í þessu í nokkra tíma núna og hlustum á barnalög á meðan.

1 ummæli:

Ólöf sagði...

vááááááá´´aáááááááááááá´, segi nú ekki annað! Hljómar ótrúlega!