miðvikudagur, júní 04, 2008

The trend setter

jújú ég er víst orðin nettur trend setter á meðal mæðranna sem fara með krakkana sína í garðinn. Ég hitti mömmu í gær og hún sagði að það hefðu allir sem sækja þennan garð tekið eftir mér og verið að velta því fyrir sér hvaðan við værum og svona og svo að þeim hefði þessi hugmynd mín að taka Heklu með mér út að skokka og sett hana á hjólið og látið hana hjóla við hliðina á mér, alveg rosalega góð og nú væru þær farnar að gera þetta líka. Ég einmitt tók eftir nokkrum í garðinum um helgina þar sem þær tóku krakkana með á hjólunum sínum. Ég er svo hugmyndarík;)
Ég hef ennþá ekkert svar fengið frá konunni sem var að spá í bílinn okkar og er orðin nett stressuð yfir þessari sölu. Er bara orðin nett stressuð á öllu sem er að fara að gerast næsta mánuðinn. Stress yfir þessum mat þarna á veitingahúsinu, flutningum, ferðalagi, nauðsynlegri peningaeyðslu, bíllinn, að kveðja alla og Ítalíu, úff þetta er að verða erfiðara en ég hélt það yrði.
Ég var að prófa að baka rúgbrauð í fyrsta skipti, og samkvæmt uppskriftinni átti ég að hafa það inni í ofni við 100°C í alla nótt eða 12-13 tíma, sem ég og gerði en viti menn þegar ég vaknaði og ætlaði að taka brauðið úr fernunum þá var það ennþá hrátt, ekki sniðugt þegar maður er að borga mikið fyrir rafmagn. Ég setti það þá aftur inn í ofn en nú við 120°C í 3 tíma til viðbótar og mér sýnist það vera tilbúið en verð að bíða í smástund þar til það hefur kólnað til að sjá það almennilega. Ég vona það því ég ætlaði að vera með þetta í kvöldverðinum þ.10.júní. Það reyndar varð ekki eins brúnt og það er hægt að kaupa heima, ætli það sé ekki hveitið. Það er heldur ekki hægt að fá súrmjólk hér né þá heldur Ab-mjólk þannig að ég þurfti að nota sojamjólk, æ ég vona að það verði í lagi með þetta brauð.
Það kom sól í fyrradag og ég ætlaði svo sannarlega að nýta mér það og lagðist út í garð, ég reyndar bjóst við því að Hekla myndi ekki endast lengur en 30 mín til klukkutíma en svo vildi svo heppilega til að hún hitti þarna stelpu á hennar aldri og þær byrjuðu að leika sér saman á fullu og endaði á því að ég flatmagaði þarna í 4 klukkutíma án nokkurrar sólarvarnar(gáfulegt, ha) sem að sjálfsögðu þýðir að ég er skaðbrennd!
Við fórum í hádegisverðarboð á mánudaginn. Það var haldið heima hjá vinkonu Jole sem býr á ofboðslega fallegum stað um 40 mín frá Mílanó, hún býr í húsi sem hún deilir með bróður sínum og fjölskyldu hans og þarna var risastór garður og alveg við á sem heitir Adda en þar eyddi Leonardo da Vinci miklum tíma. Við borðuðum óheyrilega mikið en þetta var að ítölskum hætti, anipasto, primo, secondo, formaggi, dolce og kaffi. Með þessu var drukkið vín og meira vín en það sem er svo sniðugt hjá þeim er að þeir hafa svona stórveislur í hádeginu sem þýðir að eftir allt þetta át þá fer maður í göngutúr til að brenna einhverju af þessu og láta aðeins renna af sér fyrir aksturinn heim(Sverrir reyndar drakk bara hálft glas en hinir fengu sér rækilega í glösin, eins og Ítalir gera). Þegar upp var staðið höfðum við verið þarna í 8 klukkutíma, en það var rosalega skemmtilegt og loksins gat Hekla leikið sér frjáls í lokuðum garði með æðislegum hundi að týna saklausa sveppi og lítil villt jarðaber sem voru þarna allt um kring.
jæja best að fara að hætta þessu bulli og fara að tékka á rúgbrauðinu....

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

prófaðu að skipta um lykilorð á msninu þínu- dugar stundum til að losna við vírusinn. Hvernig var rúgbrauðið?

HV